02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

132. mál, Leyningur

Bernharð Stefánsson:

Það er ekki sjerlega margt, sem jeg þarf að taka fram. Ræða hv. 2. þm. Reykv. var aðallega um þjóðjarðasöluna í heild, en snerti minna það frv., sem hjer liggur fyrir til umr., enda játaði þessi hv. þm., að þetta frv. væri dálítið sjerstaks eðlis, er það væri heilt bæjarfjelag, sem væri kaupandinn, en ekki einstakir menn. Þá sagði hann og, að það væri ekki svo mjög nauðsynlegt fyrir bæinn að kaupa þessa jörð; ríkið gæti leigt bænum með svo góðum kjörum, að það væri nærri sama og bærinn ætti hana. En jeg efast mjög um, að þetta væri hægt á næstunni. Jeg hygg, að stjórnin hafi ennþá ekki það vald yfir þessari eign, að hún geti leigt hana. Þetta er ekki þjóðjörð, heldur er jörðin kirkjueign, og presturinn þarna er enn á gömlu launalögunum og hefir því öll umráð yfir jörðinni. Hann hefir mælt með því, að ríkið seldi jörðina, en við getum alls ekki sagt, hvort hann vildi leigja hana, nje heldur með hvaða kjörum, ef hann ljeti hana fala til leigu.

Hv. 2. þm. Reykv. heldur því fram, að best sje, að jarðirnar sjeu áfram í eign ríkisins, en telur þó skárra, að bæjarfjelögin eignist þær en einstakir menn. En hann taldi eignina lausari fyrir, ef bærinn ætti hana fremur en kirkjan. Bæjarfjelagið mundi reynast fúsara til þess að selja jörðina, ef svo bæri undir. Þetta má að vísu segja; en þegar um er að ræða jarðeign, sem bænum er næstum lífsnauðsyn að eiga, vegna þess, að ekki er annað land handa skepnum bæjarmanna að ganga í, held jeg næstum, að það sje útilokað, að til þess geti komið, að bærinn selji aftur þessa eign. Jeg held það komi ekki til mála, vegna þess, að bærinn hefir ekki um annað beitiland að velja. Aftur ætla jeg ekki að fara neitt út í það, sem þessi hv. þm. sagði um þjóðjarðasöluna alment. Bæði hefir hæstv. atvrh. (MG) svarað því að mestu, og svo liggur það mál hjer ekki fyrir til umræðu. Hv. þm. taldi það leiðinlegt, að ríkið væri að losa sig við allar jarðeignir sínar, og get jeg vel tekið undir þetta með honum. En jeg teldi það mikið misrjetti, ef lögin um þjóðjarðasölu verða látin standa óhögguð og sala alment leyfð, en bæjarfjelagi Siglufjarðar yrði þó neitað um að fá þessa jörð til kaups. Hjer liggur og engin till. fyrir um að banna þjóðjarðasöluna, enda sje jeg ekki, að það skifti svo miklu, hvort þjóðarheildin öll á jarðirnar eða minni hluti af þjóðinni allri, eins og t. d. bæjarfjelög, hreppar eða hjeruð. Það, sem þm. segir um það, að jarðirnar geti verið seldar og lendi síðan í braskarahöndum, getur vel verið rjett í einstökum tilfellum, ef einstakir menn kaupa; en hjer hygg jeg, að í þessu tilfelli sje það algerlega útilokað. Vona jeg því, að hvernig sem menn annars líta á þjóðjarðasöluna yfirleitt, þá láti þeir ekki þetta mál gjalda þess, þótt þeir sjeu þjóðjarðasölu andvígir. Hæstv. atvrh. hefir og bent á það, að það er nú orðið fullseint að snúa við á þeirri braut, er mestur hluti jarðeigna ríkisins hefir þegar verið seldur og er því kominn úr eign þess opinbera. Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess fastlega, að hv. þm. sýni þessum hluta kjördæmis míns fulla sanngirni.