02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

132. mál, Leyningur

Bernharð Stefánsson:

Jeg ætla ekki að vera langorður, en þykist þó þurfa að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Dala. (BJ). Mjer skildist, að hann setti þetta frv. í samband við styrkinn til stúdenta. En hafi þar verið sveigt að mjer, er með öllu skotið framhjá markinu, þar sem jeg og hv. þm. (BJ) vorum þar á sama máli. Miklu frekar væri ástæða til að hann nefndi háskóla eða hæstarjett. (BJ: Jeg beindi ekki orðum mínum sjerstaklega til hv. 2. þm. Eyf.).

Hv. þm. talaði um að gefa Siglfirðingum jörðina. En hjer er alls ekki um neitt slíkt að ræða. Fyrir jörðina á að koma fult gjald, eftir mati óvilhallra manna.

Eigi að stöðva þetta mál, þá sje jeg ekki, að hjá því verði komist að nema úr gildi lögin um sölu þjóðjarða.

Þá talaði hv. þm. um það, að bærinn gæti leigt jörðina. En eins og jeg hefi tekið fram, er það ekki á þingsins valdi að ákveða neitt um það, og við getum ekkert um það sagt. Verð jeg fastlega að vænta þess, að þetta frv. verði samþykt.