02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

132. mál, Leyningur

Björn Líndal:

Jeg ætla að minnast á einstök atriði í ræðu hv. þm. Dala. (BJ).

Jeg vil minna á það, að upphaflega var svo ákveðið, að fje það, sem inn kæmi fyrir þjóðjarðir, skyldi leggjast í sjóð. En nú hefir þessum sjóði verið sóað, svo að „þar er hver eyrir uppetinn“, þótt hann sje ennþá til að nafninu til. Er það auðvitað að kenna hóflausri eyðslu sumra háttv. þm., og hirði sá sneið, sem á. (BJ: Er þetta talað til mín?). Úr því hv. þm. spyr, þá svara jeg spurningu hans hreinskilnislega. Það, sem jeg sagði, er fyrst og fremst meint til hans.

Í ræðu hv. þm. kom fram sá kuldi, sem löngum hefir andað í garð síldarútvegsins. En jeg vil benda á það, sem allir sanngjarnir menn verða að játa, að einmitt síldarútvegsmenn hafa sýnt meiri dugnað og þol en flestir aðrir og aflað landinu mikils fjár. Og jeg vil ennfremur benda á það, að verðhækkun landsins kringum Siglufjörð er ekki ríkisstjórninni að þakka og ekki heldur háttv. Alþingi, heldur eingöngu dugnaði Siglfirðinga sjálfra. Engin atvinnugrein eða útvegur í landinu hefir verið lagður jafnhóflaust í einelti með skatta og tolla og síldarútvegur og síldarverslun, og hefir þessi blóðtaka auðvitað orðið Siglufirði tilfinnanlegust, þar sem hann er langstærsta síldarveiðistöðin á landi hjer. — Verðhækkunin er eingöngu að þakka dugnaði Siglfirðinga sjálfra og þeir eru verðugastir til að njóta verka sinna. Sje jeg heldur ekki, að miklu máli skifti, hvort öll þjóðin eða hluti af henni á jörðina, þegar hún aðeins er almennings eign. Í Siglufirði er tilfinnanlegur mjólkurskortur, og mætti nokkuð úr honum bæta, ef þessi jörð yrði vel ræktuð. Tel jeg það meira þjóðþrifa- og mannúðarmál að koma í veg fyrir, að fátækra manna börn deyi úr mjólkurskorti, heldur en að veita þeim mönnum laun úr ríkissjóði, sem þykjast vera skáld, en eru það ekki, eða þykjast vera listamenn, en eru það ekki.