02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

132. mál, Leyningur

Bjarni Jónsson:

Það virðist varla heimilt að halda hjer öðru fram en ívilnunum fyrir Siglfirðinga.

Jeg get vel skilið það, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) beri bæinn fyrir brjósti. Það er auðvitað af eðlilegum ástæðum.

Hann talaði um það, að hjer væri ekki um að ræða gjöf, heldur sölu eftir mati Já, jeg þekki það, hvernig slíkt mat er framkvæmt; jarðirnar altaf metnar og seldar langt undir sannvirði.

Ekki sje jeg, að nein frágangssök sje fyrir bæinn að leigja jörðina. Presturinn, sem nú ræður henni, er maður velviljaður, og þá er hans missir við, mun bærinn hæglega komast að samningum um leigu á jörðinni, ef hann vill greiða það gjald fyrir hana, að ríkið verði skaðlaust af. Vorkenni jeg honum alls ekki, þó að hann verði að greiða háa leigu, þar sem ærið margir eiga að gjalda hana. Sje jeg því enga hættu á því, að börn Siglfirðinga þurfi að deyja úr sulti eða mjólkurleysi, enda er jeg enginn barnamorðingi, þó að hv. þm. Ak. (BL) vildi ef til vill væna mig um slíka hluti.

hv. þm. (BL) hoppaði eins og hrafn á haugi margtugginna blaðabrigsla um eyðslu mína. En þeir segja jafnan mest, sem minst vita og minst skilja. En ef hv. þm. vildi athuga till. mínar um fjármál á undanförnum árum, mundi hann komast að raun um, að á annan veg væri nú farið fjárreiðum ríkisins, ef jeg hefði mátt ráða. Jeg vildi, að menn væru látnir borga fje í ríkissjóð meðan þeir áttu það, og á árunum 1914–16 kom jeg fram með till. um, að tekjurnar yrðu reiknaðar í landaurum og sömuleiðis kaup verkamanna. 1920 benti jeg á það, að rjett væri að taka lán í Ameríku, áður en út í öngþveitið var komið og áður en kunnugt var orðið um nokkra erfiðleika hjer. Hefði þá mátt koma í veg fyrir gengisfallið og þá dýrtíð og erfiðleika, sem það hefir af sjer leitt. Býst jeg við, að hv. þm. (BL) sjái, að annar mundi verið hafa hagur landssjóðs, ef hann hefði ávalt fengið tekjur sínar reiknaðar í landaurum og aldrei hefði lækkað að mun gengi íslenskrar krónu. En jeg hefi ávalt litið svo á, að hag landsins yrði ekki borgið með því að þröngva hag ungra og efnilegra námsmanna og festa þá upp í hengingaról æfilangrar fátæktar og skuldabaráttu.

Það er aftur á móti sannmæli, að jeg hefi jafnan verið þeirrar skoðunar, að ríkið verði ekki fje sínu betur á annan hátt en þann að styrkja unga menn til þess, er svo fáir fást til að vinna, því það að gefa sig við vísindum og fögrum listum hjer á landi er sama sem að ofurselja sig æfilöngu hungri. Og það skal sannast, að framtíðin telur mjer það seint til lýta, að jeg hefi metið mannslíf meira en fáar krónur.

Misskilningur er það, að skoðun mín í þessu máli sje sprottin af nokkru hatri til Siglfirðinga. Er það síður en svo. En því hjelt jeg fram, að ekki bæri fremur að gefa þeim en öðrum. Sagði jeg líka, að á Siglufirði væru margir dugandi menn búsettir, og kemur leigan eftir þessa eign ríkisins mjög ljett niður á hverjum einum, svo margir sem landsins njóta.

Umtal hv. þm. Ak. um skáld, sem ekki væru skáld, og vísindamenn, sem ekki væru vísindamenn, fæ jeg ekki sjeð, að komi málinu við. Að minsta kosti hefi jeg aldrei átt neinn þátt í, að slíkum mönnum væri veittur styrkur af opinberu fje. Jeg barðist einu sinni fyrir því, að Þorsteinn Erlingsson fengi lítilfjörlegan styrk úr ríkissjóði, en jeg býst ekki við, að hv. þm. (BL) vilji vefengja, að hann hafi verið þess styrks maklegur. Líka hefi jeg haldið fram lánveitingu til Stefáns frá Hvítadal, og er sama að segja um þann mann, að engum tvennum sögum fer um það, að hann sje skáld gott. Að öðru leyti hefi jeg ekki barist fyrir skáldastyrk, og á jeg ekki sök á því, þó flogið hafi inn í skjóli þessara manna aðrir óverðugir, fyrir tilstyrk þeirra manna, sem versla með það að koma sínum mönnum að. Líka sögu er að segja um vísindamennina. Hefi jeg aldrei stuðlað að því, að þeim mönnum væri veittur styrkur til vísindastarfa, sem ekki eru vísindamenn. En þetta er ekki í fyrsta sinn, sem jeg fæ að heyra, að jeg ráði einn á móti 40 þm. Er mjer það sómi og er gott að ganga með það til kosninga. Annars er sumum hv. þm. nokkuð tamt að kalla það bitlinga, ef einhverjum manni hefir verið veittur styrkur til að ná því, sem hugur hans hefir staðið til alla vegu framan úr bernsku og hann hefir lagt fje og fjör í sölurnar fyrir. En svo hefir það jafnan verið, að slíkir menn, hugsjónamennirnir, hafa verið illa þokkaðir hjá vissri tegund manna, og tjáir ekki um það að fást.

Hjer get jeg látið staðar numið. Jeg hefi viljað sýna hinu háa Alþingi fram á það ósamræmi, sem það gerir sig sekt í, ef það samþykkir frv. þetta eftir allar þær ráðstafanir, sem á undan eru gengnar. Jeg vil, að það sjáist, að einhverjum þeim, sem hjer á sæti, sje það ljóst, hvílík firn það eru.