16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Jeg ætla ekki að blása að þeim eldi, sem kviknað hefir hjer í deildinni út af þessu máli. En jeg vil aðeins minna hv. 4. þm. Reykv. (MJ) á það, sem hann sagði um annað náskylt mál í gær, sem sje útsvarsskyldu erlendra vátryggingarfjelaga. Mundi ekki vera alveg eins rjett að skattleggja Bergenska fjelagið og Sameinaða gufuskipafjelagið! Þau borga hjer ekki einn eyri í útsvar, en Eimskipafjelagið er aftur á móti útsvarsskylt í Kaupmannahöfn. Jeg veit, að hv. allshn., og þá helst háttv. 4. þm. Reykv., hefir kynt sjer, hvað eru lög í þessu efni erlendis. Væri æskilegt, að fram kæmi frv. um útsvarsskyldu nefndra fjelaga, því að jeg þykist vita, að það sje sameiginlegur vilji allra þm. að ná skatti af þeim.

Hv. frsm. minni hl. allshn. (JBald) kvað það geta orðið hættulegt lánstrausti Eimskipafjelagsins, að það væri undanþegið skatti. Þetta held jeg að sje alveg rangt, því að hvað getur sýnt meira traust á fjelaginu en að þing og stjórn sjeu samhuga um að gera það undanþegið sköttum og styðja það og styrkja á allan hátt! Það sýnir, að fjelagið er óskabarn þjóðarinnar, sem hún vill, að vegni sem best. Og í því ætti því að vera ekki lítið traust.