01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal leyfa mjer að fara fám orðum um nokkrar brtt., er sjerstaklega varða mig. Vil jeg þó fyrst víkja að IX. brtt. á þskj. 261, frá hv. þm. Dala. (BJ). Hann hefir, af því að hann er veikur, beðið mig um að skýra frá því, hvers vegna hann hafi látið þessa tillögu koma fram, og þyrfti jeg því helst að bregða mjer í gervi hv. þm. Það mun þó veitast örðugt, en jeg vona, að hv. deild láti það ekki bitna á tillögunni, þó að jeg mæli ekki eins vel fyrir henni og hv. þm. Dala. mundi hafa gert.

Maður sá, sem um ræðir í brtt., er ungur bóndi í Dalasýslu. Hann þjáist af sjúkdómi í hryggnum, sem gerir hann ófæran til allrar vinnu, ef hann fær enga lækningu, en það er hæpið, að hann geti fengið bót meina sinna hjer á landi. Hv. þm. Dala. skýrir svo frá efnahag hans, að hann geti rjett bjargast af, en hafi ekkert fje til utanfarar sjer til heilsubótar. Fyrir fjvn. hafa legið vottorð þriggja lækna um þennan mann. Telja læknarnir hann ekki eiga mikla batavon; enga ef hann verður kyr hjer á landi, en þó dálitla fari hann utan.

Þá er X. brtt. á sama þskj., frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um 5 þús. kr. hækkun á fjárveitingunni til akfærra sýsluvega. Jeg veit að sönnu, að 10000 kr. muni hrökkva skamt, en þó verð jeg að segja, eins og við 2. umr., að jeg sje varla kleift að veita hærri upphæð en farið er fram á í stjórnarfrv., þegar ekki er gert ráð fyrir að leggja neina vegi, sem ríkissjóður á að kosta að öllu leyti.

Brtt. um að hækka styrkinn til Esju tel jeg alveg sjálfsagða, og eru engar líkur til þess, að komist verði af með minni upphæð. Það er sennilegt, að um 200 þús. kr. muni þurfa til að halda skipinu úti, en þar sem þessi hækkun er svo nálægt því, er varla ástæða til að fara lengra. En ferðunum verður að halda uppi, og verður því að greiða það, sem það kostar.

Um 2 næstu brtt. er það að segja, að til mikilla vandræða horfir vegna þess, hve hv. samgmn. er ósammála. Það hefir verið tekið fram, að á þessu ári muni ekki auðið að fullnægja bráðnauðsynlegustu kröfum um styrk til bátaferða, og eru þó ætlaðar 75 þús. kr. til þeirra. Þeim mun erfiðara hlýtur það að reynast næsta ár að komast af með 60 þús. kr. Jeg verð að segja, að breytingartillögur hv. minni hluta eru alveg fráleitar. (SvÓ: Það eru ekki brtt.). Ekki að forminu til, en þó í raun og veru, þar sem hv. minni hluti leggur til, að einar 18 þús. kr. sjeu veittar til Faxaflóaferða. En vitaskuld verður ekki komist af með þá upphæð meðan ferðum er hagað eins og nú. Mjer er sagt, að á þessu ári sje samningur um ferðirnar fyrir 31 þús. kr., og auk þess eigi fjelagið að fá uppbót, ef kolaverð hækkar. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) mun geta skýrt frá, hvort þetta er rjett. (KlJ: Uppbót, ef kolaverð hækkar, en dregið af styrknum, ef það lækkar, og er miðað við 80 kr. verð á smálest). Nú eru frekar horfur á því, að verðið hækki, og þarf því sennilega að greiða meira en 31 þús. kr. Hv. minni hluti hygst nú að geta komið þessu niður á 18 þús. kr. næsta ár. Þetta hygg jeg, að hann hafi gert út í bláinn, að órannsökuðu máli. Hvort 25 þús. kr. muni nægja, eins og hv. meiri hluti leggur til, skal jeg láta ósagt, en jeg efast stórum um það, ef ferðir til Skógarness, Búða og Stapa eru teknar með. Verði þessi liður ekki nema 60–65 þús. kr., er ekki annað fyrir hendi en að fella niður einhverjar ferðir, þær sem taldar verða síst áríðandi. Jeg skal ekkert segja um það, hver hjeruð yrðu fyrir því, en jeg mun fara eftir því, sem jeg tel sanngjarnast, ef til minna kasta kemur um það. En þess er jeg fullvís, að erfitt mun reynast að skifta þessari upphæð svo, að landsmönnum þyki viðunandi, jafnvel þó að brtt. háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) verði samþykt.

Jeg sje, að ekkert er ætlað til ferða á Eyjafirði og Skagafirði, og má vera, að engar ferðir eigi að vera þar á þessu ári, en um það er mjer ekki kunnugt. Annars skal jeg geta þess, að af þeim 75 þús. kr., sem veittar eru í ár í þessu skyni, eru 6 þús. kr., sem verða greiddar Breiðafjarðarbátnum Svan sem einskonar skuld frá fyrra ári, svo að nú koma í raun rjettri ekki til úthlutunar nema 69 þús. kr.

Þá er hjer till. frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um uppbót á launum til símakvenna. Það var borin fram svipuð till. við 2. umr., en var þá feld með 13:13 atkv. Lít jeg svo á, að vart sje hægt að neita um þessa uppbót, því það er alvitað, að þessir starfsmenn eru verst launaðir allra opinberra starfsmanna á landinu. Það tel jeg og rjett, að uppbótin gangi jafnt yfir alla þessa starfsmenn.

Þá er 31. brtt., við 16. gr., um búnaðarfjelögin. Jeg get fallist á, að hún sje til bóta, en jeg skil hana svo, að þar með sje gert að skyldu, að jarðabótamælingar fari fram árlega.

Um fjárveitinguna til fjárkláðalækninga lít jeg svo á, að till. hv. fjvn. sje hæfileg. Till. um 2500 kr. tel jeg aftur á móti alt of lága. Jeg hefi aflað mjer nokkurra upplýsinga í þessu máli, og er því svo varið, að sýslumönnum úti um land er sent baðlyfið, sem þeir útbýta svo ókeypis, ef kláðinn kemur einhversstaðar upp. Eru reikningar ekki komnir frá þeim fyrir síðastliðið ár, svo ekki er enn hægt að segja, hve mikill kostnaðurinn er. — Koma þeir ef til vill með póstum bráðlega. Þetta skiftir og engu máli, þar sem um lögákveðin útgjöld er að ræða.

Um fjárveitinguna til eftirlits með skipum og bátum lít jeg svo á, að ekki verði hægt að komast af með minna til þess en 3 þús. kr., og vona jeg að sú till. verði samþykt.

Þá eru hjer ekki fleiri brtt., sem mjer koma sjerstaklega við. — En með því að hv. þm. Str. fann ástæðu til að ráðast á mig áðan, þá verð jeg að svara honum nokkrum orðum. Hann brigslaði mjer um það, að ekki væri neitt að marka, hvað jeg segði, því jeg breytti jafnan á alt annan hátt en jeg talaði. Þessu til sönnunar vitnaði hann í það, að jeg hefði á þinginu 1921 talað gegn lántöku, en svo nokkru síðar tekið lán. Þetta er í raun og veru rjett, en hv. þm. virðist aðeins gleyma því, sem gerðist á milli. Á þinginu 1921 varð jeg einmitt fyrir sterkri árás fyrir það, að jeg hefði ekki þá þegar tekið lán. Jeg sagði sem var, að jeg hefði enga heimild haft til slíkrar lántöku, og auk þess kvaðst jeg vera mótfallinn því að taka lán. Man jeg einkar vel, hve hátt háttv. þm. Str. hrópaði þá í Tímanum um „lánleysi“ stjórnarinnar. (TrÞ: Nei, jeg gerði það aldrei). Þá þykir mjer nú skörin vera að færast upp í bekkinn, er hv. þm. neitar að hafa sagt það, sem hann er búinn að margklifa á í blaðinu. (TrÞ: Jeg tek til máls síðar). Það má vera, að hv. þm. skáki í því skjóli, að þessi tölublöð Tímans eru nú ekki hjer við hendina, en það mun koma að litlu haldi, því allir, sem hjer eru staddir, hljóta að muna þetta. — Á þinginu 1921 var svo ákveðið að taka lán, meðal annars til að kaupa hlutabrjef Íslandsbanka. Það var þó dregið fyrst um sinn að taka lánið, en jeg var þeirri hugmynd frekar hlyntur, að hlutir yrðu keyptir í bankanum, og man jeg, að hv. þm. Str. hældi mjer fyrir það; hefir hann þó ekki að jafnaði lagt það í vana sinn að lofa mig. — Það er þessi milliliður, sem hv. þm. gleymdi nú, að á þinginu 1921 var einmitt ákveðið að taka lán. — Nú flytur hv. þm. þá kenningu, að stjórnin eigi, þegar svo stendur á, að setja sig upp á móti vilja þingsins, og hefir hann legið mjer á hálsi fyrir að hafa ekki sett þessa þingi stólinn fyrir dyrnar. En það er nokkuð annað hljóð í strokknum, þegar hann er að verja sína eigin flokksmenn í stjórnarsæti. Þá ríður fyrst og fremst á því að gæta þingræðisins í öllum greinum. — Þetta lán var svo ekki tekið fyr en Íslandsbanki hafði lýst yfir því, að hann gæti ekki staðið í skilum ella. — Nú í dag er bankinn skuldlaus við það viðskiftasamband sitt erlendis, sem hann þá skuldaði um 10 milj. kr., og geta bankastjórar hans best frætt hv. þm. um það, hvert stórgagn bankinn hafi haft af þessu láni. En það gagn er jafnframt gagn landsins. — Er yfirleitt auðheyrt af orðum hv. þm., að hann þarf að leita sjer upplýsinga um hina og þessa hluti áður en hann hættir sjer svo mjög út í umr. um slík mál sem þetta.

Þá kvað hv. þm. Str. mig hafa verið með innflutningshöftum árið 1921. Það er alveg rjett. En jeg var það líka árin 1922, 1923 og 1924. Það var þingið, sem feldi niður innflutningsnefndina 1921, en ekki stjórnin. Hv. þm. ætti því að sjá, að hann hefir engan rjett til að drótta að mjer tvöfeldni í þessum málum. Og að því er snertir þá kynlegu ályktun hv. þm., að stjórnin eigi að ráða fyrir þinginu, þá vil jeg benda honum á, að það væri beint stjórnarskrárbrot, ef stjórnin neitaði að framkvæma það, sem þingið hefir ákveðið.

Háttv. þm. Str. kvaðst hafa skorað á stjórnina að segja af sjer, og eftir þeirri áskorun hefði jeg átt að fara. Það er rjett hjá hv. þm., að hann gerði þetta, og jeg veit ekki betur en hann hafi ávalt verið reiðubúinn til þess að skora á mig að segja af mjer — jafnvel líka í dag —, en jeg veit ekki til, að nokkur stjórn hafi nokkru sinni farið eftir slíkri áskorun frá andstæðingum sínum; væri þessu öðruvísi varið, þá mundi engin stjórn sitja stundinni lengur. — En annars var jeg að hugsa um að segja af mjer þá. Að jeg hætti við það, stafaði einmitt meðal annars af því, að ýmsir af flokksmönnum hv. þm. Str. báðu mig um að gera það ekki. — Jeg vil af hlífð við hv. þm. ekki skýra hjer frá því, sem okkur fór þá á milli, því það kynni að verða til þess, að hv. þdm. sæju alt of ljóst, að tvöfeldnin væri öll hans megin. Og jeg vil helst ekki verða til þess að kasta neinni persónulegri rýrð á hv. þm.

Hv. þm. Str. lauk lofsorði á hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir að vilja ekki neinar umfram greiðslur utan við fjárlögin. Jeg tel það einnig heppilegast, að svo sje ekki, en það er ekki hægt að komast hjá þeim, þegar um lögákveðin gjöld er að ræða og svo stendur á, að dýrtíð hefir aukist um helming frá því er fjárlögin voru samin.

Þá þótti hv. þm. það óviðeigandi að nefna í þessum umræðum Magnús Jónsson fyrverandi fjrh., þar sem hann væri fjarverandi. En enginn hefir þó leikið þennan mann ver í þessum umr. en einmitt hv. þm. sjálfur, er hann gaf í skyn, að flokkurinn hefði rekið hann úr stjórn eftir eitt ár, þá er það var ljóst orðið, að hann væri ekki vaxinn starfinu. Þetta kalla jeg fremur kalda kveðju til gamals flokksmanns. — Annars skal jeg taka það fram, að mjer dettur ekki í hug að kenna þáverandi fjármálaráðherra um alla eyðsluna árið 1922. Jeg lít svo á, að samstjórnarmenn hans eigi þar líka sök að máli. Jeg skal t. d. geta þess, að fyrverandi fjrh. (KlJ) varði 100 þúsund krónum meira til vegamála en jeg 1921, og var þó meiri dýrtíð þá en nú síðasta ár. En þrátt fyrir þetta atyrti hv. þm. Str. mig nýlega fyrir það, hve miklu fje jeg hefði þá eytt til vegamála; að hinu vjek hann ekki einu orði, eyðslusemi síns flokksmanns (KlJ). Þannig er þessu varið einnig á öðrum sviðum, og mun jeg hvorki þurfa að standa bleikur nje rauður undir samanburði þessara ára. Meðan hv. þm. Str. því ræðst ekki að stjórninni 1922 fyrir ósparsemi, þá er hann þar með ber að ósanngirni. (KlJ: Það er hægt að hrekja þetta). Jeg hygg þó, að það sje varla á færi hv. 2. þm. Rang. (KlJ) að gera það. Það er með skýrum tölum hægt að sanna, að stjórnin 1921 hefir, þegar tekið er tillit til dýrtíðarinnar, eytt einni miljón kr. minna en sú stjórn, sem nýlega hefir lagt niður völd, notaði 1922.

Það virðist annars svo sem hv. þm. Str. sje talsvert í mun að reyna að spilla á milli mín og hæstv. fjrh. (JÞ). Hann hefir hvað eftir annað reynt að sýna fram á það, að hæstv. fjrh. sje að gera mjer sitthvað til miska. Hann kvað mig t. d. hafa setið dreyrrauðan undir fjármálafyrirlestri hans fyrir skömmu síðan, en sannleikurinn er sá, að jeg tók það alls ekki til mín, sem hæstv. fjrh. ræddi um þá, og jeg fann heldur enga ástæðu til andsvara, fyr en Tíminn gekk á þetta lagið og rjeðst á mig. Hæstv. fjrh. reisti aðeins reikning sinn á öðrum grundvelli en jeg hafði gert, enda álitamál, hvorri aðferðinni er rjettara að beita. Jeg leit svo á, að draga mætti frá tekjuhallanum alt, sem borgað var af skuldum það ár, og jeg lít svo á enn; en hæstv. fjrh. lítur öðrum augum á þetta. Sömuleiðis lít jeg svo á, að draga megi frá tekjuhallanum það, sem ríkissjóður hefir varið til kaupa á fasteignum og lagt í arðvænleg fyrirtæki.

Jeg þarf svo ekki að taka fleira fram að þessu sinni. Hv. þm. Str. vísaði ýmist í Passíusálmana eða drykkjuvísur og kvað hæstv. fjrh. (JÞ) hafa farið með slíkum asa áðan, að hann muni hafa hálsbrotnað „helvítið að tarna“, svo sem klerkurinn ákvað, en sjálfur fór hann svo geyst, að varla er nokkrum efa bundið, hvernig honum hafi farnast.

Jeg hirði ekki að ræða hjer um fjáraukalögin 1920–1921. Jeg hefi í opinberum blaðadeilum hrakið það alt, sem Tíminn hefir þar um sagt, svo eftirminnilega, að hv. þm. Str. hefir engu getað svarað, og það er hin mesta vesalmenska af hans hálfu að ætla nú að fá hjálp í þessu máli hjá hæstv. fjrh., enda hefir sá ráðherra alveg neitað þm. Strandamanna um hjálp í þessum vandræðum hans.