16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Sigurjón Jónsson:

Jeg hugði, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefði skilið við 2. umr., að lengra yrði ekki gengið til samkomulags heldur en brtt. meiri hl. allshn. fóru fram á. Níu deildarmenn fluttu frv. þetta um að undanþiggja fjelagið algerlega skatti til ríkissjóðs og sveitar. Um rjettmæti þessa var mikið rætt við 2. umr., og hugði jeg, að öllum hv. deildarmönnum hefði orðið það ljóst, að nægur styrkur var til þess hjer í hv. deild að koma frv. fram óbreyttu, þó að gengið væri að 5% skatti af ágóða fjelagsins til samkomulags. Jeg sje ekki, að þessar brtt. sjeu til annars en vekja nýtt karp um málið, og þykist jeg þess fullvís, að hv. deildarmenn muni ekki breyta stefnu sinni í því. Jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka það, sem sagt var við 2. umr., en þá kom það fram, að engin sanngirni til þessarar háu útsvarsálagningar á fjelagið var fyrir hendi.

Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta; mjer finst þessi tillaga, sem komin er fram á síðustu stundu, án þess að hennar sje getið á dagskránni, ekki flutt til annars en að vekja nýtt karp, án þess að hv. flm. (JBald) geri sjer vonir um, að hún verði samþykt.