11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta mál er ekki eins einfalt og hv. frsm. allshn. heldur. Starfsemi vátryggingarfjelaga fer fram á misjafnan hátt. Ýmist hafa þau umboðsmann, sem aðeins safnar vátryggjendum, en gefur engin skírteini út, eða þau þá láta umboðsmanninn gefa út skírteinin, taka við iðgjöldum og kvitta fyrir þau. Verður því ekki neitað, að síðari starfsemin er ólíkt æskilegri og heilbrigðari, en einmitt þetta frv. gæti komið því til leiðar, að starfsemin yrði sem mest bundin við útlönd og rekin á hinn fyrnefnda hátt. Hitt er og ábyggilega þörf á að athuga, hvort þetta getur ekki orðið til þess að hækka iðgjöldin. Tel jeg hætt við, að sú verði einmitt raunin, ef þetta kemur á bága við það, sem venja er um slík fjelög erlendis. En þar sem alls ekki eru til innlend vátryggingarfjelög, sem geti annað þeirri vátryggingarþörf, sem er hjer á landi, væri það mjög vafasamt, hvort rjett væri að setja lög, sem yllu hækkun iðgjalda.