15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg verð að segja það, að háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir ekki getað sannfært mig um það, að þetta frv. megi ganga fram án nokkurrar undanfarinnar rannsóknar. Háttv. nefnd hefir nú leitað umsagnar borgarstjóra Reykjavíkur, sem jeg veit því manna kunnugastan, hve langt má fara í þessum efnum, vegna þess, að hann hefir í mörg ár staðið í stöðugum samningum við ýms þessara fjelaga um brunatryggingar hjer í bænum. Háttv. 4. þm. Reykv. hefði skýrt þetta mál miklu betur, ef hann hefði lesið upp alt brjef hr. Knud Zimsens, í stað þess að láta sjer nægja að vitna til einstakra atriða í því. En mjer þykir þetta brjef borgarstjórans vel þess vert, að hv. deild fái að heyra það alt, og mun jeg því lesa það upp hjer, enda er það ekki prentað mál. Jeg vil og benda hv. deild á það, að borgarstjóri Reykjavíkur á hjer hagsmuna að gæta fyrir bæjarsjóð Reykjavíkur, og geti hann fengið nýja gjaldþegna til að greiða útsvar í bæjarsjóð Reykjavíkur, er þess ekki að vænta, að hann slái hönd sinni gegn því, ef það reyndist fært að ná í þessar tekjur fyrir bæinn. En í brjefinu segir svo:

„Eftir eðli sínu virðist rjett, að öll vátryggingarfjelög, sem reka starfsemi hjer á landi, gjaldi útsvar til bæjar- eða sveitarsjóðs, en með því að svo er ástatt, að enn eru ekki til innlend fjelög, sem geta tekist á hendur allar þær margskonar vátryggingar, sem koma til greina, þykir mjer varhugavert að heimilað verði að leggja alment, ótakmarkað útsvar á erlendu fjelögin, því að þessi fjelög munu í heimkynnum sínum greiða útsvar, einnig af starfsemi sinni hjer. Skatturinn yrði tvöfaldur og mundi þá geta komið til greina, að iðgjöld hækkuðu, en fremur ber þó að keppa að hinu, að iðgjöld fyrir hverskonar vátryggingar geti lækkað.

Ef litið er á brunabótafjelög, þá vil jeg geta þess, að mjer hefir nýlega tekist með samningum við sambandsfjelag allra slíkra fjelaga, sem hjer starfa, að fá iðgjöld fyrir lausafje lækkuð um 12½% hjer í borginni, og það er ekki vonlaust, að með framhaldandi samningaumleitunum megi takast að fá frekari lækkun, ef til vill einnig fyrir önnur hjeruð landsins. Verði nú lögleidd ótakmörkuð útsvarsskylda fyrir fjelögin, má eins búast við að iðgjöld verði hækkuð aftur.

Brunabótafjelag Íslands, sem er eina innlenda brunabótafjelagið, mun ekki geta tekið að sjer allar tryggingar, enda heldur ekki fært um eitt að ráða upphæð iðgjalda, þar sem endurtryggingarfjelag eða fjelög þess ráða mestu um ákvörðun iðgjalda.

Um líftryggingarfjelög er það að segja, að ekkert innlent fjelag er til, og sennilega á það nokkuð í land, að þessi trygging komist í innlendar hendur, en á meðan er hætt við, að erlendu fjelögin reyndu að ná útsvarsgreiðslu sinni aftur með hækkuðum iðgjöldum. Hinsvegar er líftryggingin svo mikið þjóðhagslegt velferðarmál, að sjálfsagt virðist að vinna að því, að iðgjöld geti verið sem lægst, svo almenningi sje ekki ókleift að tryggja líf sitt.

Um slysatryggingar má segja hið sama og um líftryggingar, en um margskonar aðra tryggingarstarfsemi, svo sem bifreiðartryggingar, tryggingu gegn þjófnaði eða öðru tjóni o. s. frv., er nokkuð öðruvísi ástatt.

Þá er enn sjóvátryggingin, og stendur þar öðruvísi á, þar sem öflugt innlent fjelag er fyrir. Mjer er að vísu ekki kunnugt um, hvort Sjóvátryggingarfjelag Íslands er þess megnugt að takast á hendur allar sjóvátryggingar, en býst samt við, að ekki sje mjög hætt við, að iðgjöld hækki, þótt erlendum fjelögum væri gert að skyldu að greiða hjer útsvar, ef innlenda fjelagið hækkaði ekki sín iðgjöld. Hvort sjóvátryggingarfjelagið er fært um að ráða iðgjöldum, er komið undir því, hvernig endurtryggingu þess er varið, en um það er mjer ekki kunnugt.

Alþingi hefir nú til meðferðar frv. til laga um breytingu á ákvæðum tekjuskattslaganna um það, hvernig ákveða skuli tekjuskatt erlendra vátryggingarfjelaga til ríkissjóðs, og í fljótu bragði virðist hagkvæmt að fara eftir sömu reglum við álagningu útsvars, verði það lögleitt, og þarf að rannsaka þetta atriði.

Í stuttu máli er það skoðun mín, að enda þótt það sje mjög æskilegt, t. d. fyrir bæjarsjóð Reykjavíkur, að fá nokkra nýja útsvarsgjaldendur, þar sem eru erlend vátryggingarfjelög, þá verði að fara varlega í því að svo stöddu að íþyngja fjelögunum með ótakmörkuðu útsvari, að minsta kosti brunabóta-, líftryggingar- og slysatryggingarfjelögum.“

Þetta segir þá herra borgarstjórinn, og er þetta einmitt það, sem jeg bjóst við. Jeg sje ekki annað en þetta svar hans bendi einmitt í þá átt, að málinu skuli skotið á frest til frekari og fullkominnar rannsóknar. Jeg hygg, að háttv. 4. þm. Reykv. geti ekki enn hafa rannsakað þetta mál nógu nákvæmlega, þrátt fyrir þessar upplýsingar hans úr 2 eða 3 löndum, sem hann kom með. Jeg hygg, að margt sje enn óupplýst af honum í tryggingarlöggjöf erlendra þjóða. En hvað um það, tryggingarstarfsemi er alstaðar skattskyld. En hjer er um það að ræða, hvort hægt sje að skattskylda þau fjelög, sem aðeins hafa hjer umboðsmenn, og tekur þetta til fleiri fyrirtækja en vátryggingarfjelaga. Það hefir hingað til verið litið svo á alment, að ekki væri hægt að skattskylda til sveitarsjóða fyrirtæki fyrir það eitt, að þau hafi búsetta umboðsmenn á einhverjum stað. Það hefir til þessa ekki þótt fært að leggja útsvör á erlend skipafjelög, þótt þau hafi afgreiðslur hjer og hvar um landið og starfi hjer allmikið. Sameinaða og Bergenska gufuskipafjelögin borga hjer ekkert til opinberra þarfa, þó þau hafi hjer umboðsmenn og sigli hjer í köpp við innlent fjelag. (MJ: En hvernig er þessu varið með Eimskipafjelag Íslands í Kaupmannahöfn?). Eimskipafjelag Íslands starfar á alt annan veg í Kaupmannahöfn en þessi fjelög, sem jeg nefndi, starfa hjer. Eimskipafjelag Íslands hefir meira en afgreiðslu eina í Kaupmannahöfn; það hefir þar auk þess skrifstofu og starfar þar sem sjerstök deild af fjelaginu. Vitanlega verður það þess vegna að greiða bæði til bæjar- og ríkissjóðs þar, en það hefir náðst gott samkomulag um þetta við stjórnarvöld þar í landi, og verður þetta því ekki reiknað sem þungbær kvöð á fjelaginu. Sama mundi verða að gegna hjer, ef erlent fjelag setti hjer upp skrifstofu fyrir eigin reikning; það mundi verða skattskylt bæði í bæjar- og ríkissjóð hjer. Mjer hefir sem sagt skilist það á allri framkomu hv. 4. þm. Reykv., að hann hefir ekki gert sjer nógu ljósa grein, sem ekki er heldur von til, fyrir jafnflóknu og erfiðu viðskiftamáli sem þessu. Hjer á orðtakið gamla vel við: „Ekki veldur sá, er varar“, og vil jeg heldur, að Reykjavíkurbær missi af þessum útsvarstekjum en að þetta verði til þess, að öll tryggingariðgjöld hækki. Jeg vil og leyfa mjer að benda á, að þetta mál er borið fram á mjög óheppilegan og óviðfeldinn hátt, þar sem það er skjallega sannað, að frv. er fram komið og borið fram samkvæmt beiðni eins keppinauts hinna erlendu fjelaga, sem hjer starfa, og er því ekki heldur hægt að taka málið svo upp, að þessu fjelagi megi að gagni koma. Samkvæmt almennum rjettarreglum ætti beiðnin um þetta að hafa komið frá öðrumhvorum þeirra aðilja, sem hjer hafa hagsmuna að gæta í því efni, að skattskylda þessi fjelli ekki niður, ef tiltækilegt þætti að ná þessum greiðslum að lögum, þ. e. annaðhvort frá bæjarstjórn Reykjavíkur eða ríkisstjórninni. Þó frv. þetta yrði að lögum, mundi það ekki hafa nein bætandi áhrif á hag eða afstöðu Sjóvátryggingarfjelags Íslands, nema ef þessi útsvarsálagning yrði til þess, að iðgjöld hinna erlendu fjelaga hækkuðu og yrði til þess, að tekjur Sjóvátryggingarfjelags Íslands ykjust af þeim ástæðum. (MJ: Þetta er heldur ekki gert fyrir Sjóvátryggingarfjelag Íslands, heldur fyrir Reykjavíkurbæ). Jeg var í nefndinni þegar henni var sent þetta frv., og var þá ekkert dult farið með það, hvaðan það væri komið. Jeg læt svo þetta mál útrætt af minni hálfu og hefi nú sett fram þær ástæður og aðvaranir, sem jeg áleit nauðsynlegt, að hjer kæmu fram, og getur háttv. þd. svo tekið þær ákvarðanir í þessu máli, sem henni þykja rjettastar vera, óátalið af mjer.