01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Jeg var í efa um, hvort nokkur ástæða væri fyrir mig til þess að taka hjer til máls við þessa umr. Þó eru það 2–3 brtt., sem jeg þykist þurfa að minnast á. Er þá fyrst brtt. við 11. gr. B. 6, viðvíkjandi fje til landhelgisgæslu. Jeg geri ráð fyrir, að ýmsum kunni að þykja nýstárleg þessi till., þar sem gert er ráð fyrir, að úr landhelgissjóði sje lagt fram fje að jöfnu við tillag ríkissjóðs. Jeg get ekki sjeð, að neitt sje við þetta að athuga. Hjer er sennilega aðeins um það að ræða að nota tekjur, þ. e. vexti sjóðsins, sem nú eru orðnir álit leg upphæð, og sektir. Þegar svo þar að kemur, að ríkið geti endurborgað í sjóðinn, þykir mjer sennilegt, að ríkissjóður verði fær um að bæta við svo sem með þarf til útvegunar landvarnarskips eða skipa.

Þá verð jeg að minnast á brtt. undir rómv. IV á þskj. 261, við 12. gr. 13 b, um styrk til sjúkraskýla og læknabústaða. Vil jeg mæla með þessari brtt. og af þeim ástæðum, er flutningsmaður hennar (JK) hefir tilfœrt.

Sami hv. þm. gat um, að styrkurinn til stúdenta hjer væri lítill. Verð jeg að taka undir það. Skal jeg jafnframt láta þess getið, að jeg býst varla við, að háskólaráðið sje fáanlegt til að bæta neinu við þann styrk úr sáttmálasjóði. Aðeins má vera, að ráðið kunni að veita einhvern styrk til hins fyrirhugaða stúdentagarðs.

Námsstyrkur stúdenta við erlenda háskóla er mjög lítill, þegar þess er gætt, að þeir munu nú vera um 25. Ætti nú stjórnin að skifta þessu milli þeirra allra, yrði það hverfandi lítið, sem hver þeirra fengi, svo lítið, að þá mundi sama og ekkert muna um það. En ef aðeins fáir eiga að njóta styrksins, þá verða hinir, sem ástæðu hafa til að byggja á styrkveitingu, gabbaðir, eins og jeg hefi margtekið fram.

Jeg held, að hv. þm. V.-Sk. (JK) hafi líka minst á það, að ekki væri ef til vill óhugsandi, að einhver styrkur kynni að fást til íslenskra stúdenta, sem lesa við Kaupmannahafnarháskóla, úr þeim hluta sáttmálasjóðsins, sem Danir ráða yfir. Jeg skal ekkert fullyrða um þetta, en jeg býst fremur við, að ekki væri óhugsandi, að einhver styrkur kynni að fást, ef lagt væri eitthvað til úr þeim hluta sjóðsins, sem vor háskóli hefir yfir að ráða.

Jeg held, að það sje þá ekki annað, sem jeg muni þurfa að athuga við þessa umr. hjer í hv. Nd., enda gefst mjer að líkindum kostur á að gera mínar athugasemdir í hv. Ed. Jeg ætla ekki að athuga fleiri einstaka liði, sem mjer kynnu að finnast varhugaverðir. Samt vil jeg láta þess getið, að mjer mundi þykja æskilegt, að brtt. undir rómv. XXX,2, við 15. gr. 27, 30 þús. fyrir 20 þús., yrði samþykt, og er það í eðlilegu samræmi við það, sem jeg sagði við 2. umr.