18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Það var viðurkent til skamms tíma, að ríkið ætti ekki að greiða aukaútsvar af stofnunum sínum. En eftir það, að Landsverslun var sett á stofn, tók niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur að leggja á hana aukaútsvar, og svo var gert víðar um land. Reis mál út af þessu og lauk því svo, að ríkið ætti ekki að greiða aukaútsvar af verslun, sem væri stofnuð og rekin sem bjargráðastofnun.

Nú eftir að ríkið hafði tekið í sínar hendur einkasölu á tóbaki og áfengi, tók niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur aftur að leggja aukaútsvar á verslun ríkisins. Mun það hafa numið á síðasta ári eitthvað 90 þús. kr. Og standa nú yfir mál um það, hvort þessi verslun sje útsvarsskyld eða ekki. Úrskurður hefir fallið í málinu fyrir fógetarjetti á þá leið, að þessar verslunarstofnanir ríkisins væru ekki útsvarsskyldar. Jeg ætla nú ekki að leiða neinar getur að því, hvort það mál muni vinnast eða ekki. En mjer þótti þó rjett að bera þetta frv. fram, til þess að firra ríkissjóð útgjöldum, ef svo skyldi fara, að málið tapaðist. Hinsvegar get jeg ekki annað en viðurkent það, að það sje sanngjarnt, að þessar stofnanir borgi eitthvert gjald í bæjarsjóð, vegna þeirra hlunninda, sem þær njóta af hálfu bæjarfjelagsins, og eins vegna þess tekjumissis, sem bæjarsjóður hefir orðið fyrir við það, að þessar stofnanir voru settar á laggirnar, en smærri verslanir, sem bærinn hafði tekjur af, lögðust niður. Hjer er þetta gjald sett 5% af nettóágóða. Mjer er ekki kappsmál, að þessi upphæð sje ákveðin fremur en einhver önnur. En það er aðalatriði, að upphæðin sje ákveðin. Það er ógerningur fyrir ríkissjóð að verða að greiða það, sem niðurjöfnunarnefnd eða bæjarstjórn þóknast að ákveða. — Sem sagt þótti mjer þetta sanngjarnt, og jeg vona, að því verði tekið vel. Eins og jeg sagði áðan, stend jeg ekki svo fast á því, að gjaldið sje ákveðið 5%. Það atriði má athuga í nefnd.

Jeg lít á þetta frv. sem tekjuaukafrumvarp, þó í smáum stíl sje, eða ráðstöfun til þess að firra ríkissjóð gjöldum. Jeg álít, að það sje ekki hægt fyrir ríkissjóð að leggja sig undir útsvarskvaðir niðurjöfnunarnefnda eða hreppsnefnda um alt land.

Annars mun jeg ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, meðan ekki koma mótmæli gegn því.