18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Jón Baldvinsson:

Mjer skildist af ræðu hæstv. fjármálaráðherra (KlJ) viðvíkjandi aukaútsvörum hjer í Reykjavík, að hann hallaðist að því, að niðurjöfnunarnefnd hafi gengið æðilangt í álögum sínum, og menn hafi komið með kærur til stjórnarinnar út af því. Mjer er nú ekki kunnugt um nema einn. Annars hafa afskifti hæstv. stjórnar af þessu máli ekki verið allskostar heppileg. Og það er afskiftum ríkisstjórnarinnar að kenna, að bæjarsjóður hefir ekki náð útsvari, sem hann átti að vera búinn að fá. Ríkisstjórn á ekki að lögum að hafa nein afskifti af útsvarsmálum, og alls ekki viðeigandi, ef hún stuðlaði að því, að þeir menn slyppu við útsvar, sem á allan hátt reyna að skjóta eignum sínum undan gjöldum, þó þeir vitanlega hafi rakað saman fje í bæjarfjelaginu og láti ekkert á bresta til þess að lifa sem þægilegustu lífi. Mjer virðist það sanngjarnt, að bærinn fái hátt útsvar hjá þeim mönnum, sem virðast vaða í peningunum.

Annars skal jeg segja það viðvíkjandi þessu frv., að mjer virðist rjett að ákveða með lögum, hvert útsvar ríkissjóður eigi að greiða af fyrirtækjum sínum í bæjarsjóð. Og jeg get í því einu verið sammála hæstv. fjrh. (KlJ), að það hafi verið óheppilegt, hve hátt útsvar hefir verið lagt á stofnanir ríkisins hjer í Reykjavík, því að það eru miklar líkur til, að þessi útsvar muni ekki fást í bæjarsjóð, og þá tapar bæjarsjóður þessum fjárhæðum, sem annars mundu hafa verið lagðar á aðra gjaldendur.