18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Fjármálaráðherra (KlJ):

Mig furðar á því, sem háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) segir, að það hafi ekki komið nema ein kæra út af útsvörum hjer í bænum. Það komu þó 2 samtímis til bæjarstjórnar, og mjer er kunnugt um a. m. k. 3 aðrar, sem fóru í svipaða átt.

En þar sem þessi háttv. þm. beindi því að mjer, að það hefði verið mjer að kenna, að bæjarsjóður fjekk ekki þær tekjur, sem hann átti að fá, þá er þetta rangt. Það var einmitt mjer að þakka og öðrum manni hjer í bænum, að annar helmingur þessa afarháa og, að því er mjer virðist, ósanngjarna álags fjekst þegar. Um það, hvort niðurjöfnunarnefnd hafi gengið of langt, skal jeg ekki dæma. Mjer persónulega finst hún hafa gengið nokkuð langt. En það, sem jeg vildi hjer sjerstaklega ávíta, er það fyrirkomulag, að geta ekki fengið rjetting sinna mála í þessu efni annarsstaðar en hjá bæjarstjórn. Slíkum málum ætti að mega skjóta til stjórnarráðs eða dómstólanna.