18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Jakob Möller:

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði í ræðu sinni, að það væri ófyrirsynju að leggja nokkurt útsvar á ríkisstofnanir til bæjarfjelaga, þar sem þær eru reknar. Jeg veit ekki, hvernig þetta er hugsað. Ef maður hugsar sjer nú þjóðnýtingu yfirleitt á öllum höfuðatvinnugreinum, svo sem útgerð, fiskiveiðum og verslun, þá má óhætt gera ráð fyrir, að bær eins og Reykjavík, með 20 þúsund íbúa, hefði heldur litlar tekjur, því allar stórtekjur einstaklinganna væru þá horfnar. Hvernig á þá bærinn að fá þau gjöld, sem nauðsynleg eru til starfrækslu bæjarins! Af rekstri þjóðfjelagsins hjer. — Nú þegar hefir verið þjóðnýtt verslun með tóbak, vín og steinolíu. Og það liggur í hlutarins eðli, að töluverð gjöld hafa gengið til bæjarins af þessum atvinnurekstri áður en hann var tekinn til þjóðnýtingar. Og svo verður enn að vera. Annars mætti tína á þennan hátt tekjustofnana af bænum þangað til hann hefði ekkert eftir til sinna þarfa. Þar að auki eru þessar stofnanir reknar í ágóðaskyni, og því tvímælalaust útsvarsskyldar samkvæmt lögum. Hjer kemur ekki til greina samanburður við ríkissjóð, því hann getur alls ekki orðið gjaldskyldur bæjarsjóði á þennan hátt. — Jeg hefi vitanlega átt von á því, að frv. eins og þetta mundi koma fram. Jeg hefi búist við því, að einhverjar hömlur yrðu settar fyrir því, hve mikið mætti skattskylda þessar stofnanir til bæjarfjelaganna. En jeg sje enga ástæðu til þess að gera upp á milli ríkisstofnana og einstaklinga, svo sem sumir vilja gera.

Hæstv. fjrh. (KlJ) þótti óviðurkvæmilegt fyrir ríkissjóð að leggja sig undir útsvarsskylduákvæðin, en það sama gildir um einstaklinga. Það væri því rjett að athuga, hvort ekki mætti finna tryggilegra fyrirkomulag í þessu efni, og ætti nefndin að athuga það. Og ef tillögur koma, sem ráða bót á þessu, þá sje jeg enga ástæðu til þess að gera undantekningu fyrir þessar stofnanir ríkisins.

Þá virðist mjer gjaldið of lágt ákveðið í frv. Alment þegar útsvör eru lögð á eftir tekjum, þá er tekið af stærri gjaldendum a. m. k. 10%, og jeg sje ekki ástæðu til að hafa það lægra fyrir þennan gjaldanda. Jeg fyrir mitt leyti get ekki gert upp á milli ríkisverslunar og einstaklinga, þegar hvorartveggja eru reknar í gróðaskyni.

Það var alveg rjett hjá hv. 1. þm. S.- M., að þessar verslanir eru stærri af því að hjer er komin á eina hönd heildverslun fyrir alt landið. En hjer gildir það sama fyrir þennan atvinnurekstur og annan, að því stærri sem hann er, því meiri skyldur hefir hann til þess að taka þátt í gjöldum bæjarins. Það er því ástæðulaust að lækka gjaldið af þessari ástæðu.