18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Magnús Torfason:

Mjer finst á umræðum um þetta mál, að það vera litið nokkuð einhliða á það, þannig, að það virðist vera gengið út frá því, að Reykjavíkurbær hafi engan hag af þessum stofnunum ríkisins og verslunarrekstri. En það er vitanlegt, að Reykjavík hefir afskaplegan hagnað af þessum stofnunum.

Við vitum, að hjerumbil allar stofnanir landsins eru saman komnar hjer í Reykjavík. Og það eru ekki hvað síst þessar stofnanir, sem hafa eflt uppgang bæjarins. Þær hafa fjölgað fólki, sem hefir góða atvinnu og eykur verslun í bænum. Og af þessu hefir bærinn stórtekjur.

Alstaðar úti um land er það hið mesta keppikefli að fá til sín í sína sveit slíkar opinberar stofnanir, þó engum detti í hug að leggja eyri á þær. Ef alþýðuskóli er stofnaður, þá hlaupa sveitirnar upp til handa og fóta og bjóða jarðir og önnur fríðindi, bara til þess að geta fengið til sín slíka stofnun og notið þeirrar menningar, sem hún veitir, og til þess að geta lagt á starfsmenn hennar.

Jeg verð að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að Reykjavík lifi mikið til á landssjóði. Og við skulum sjá til, hvernig færi, ef allar stofnanir ríkisins væru fluttar hjeðan. Það hefir verið kvartað yfir því, að höfuðstaður okkar væri tiltölulega alt of stór, saman borið við sveitir landsins. Enda slíkt áreiðanlega óheppilegt.

Jeg verð þess vegna að líta svo á, að það sje í raun og veru alveg nóg, að Reykjavík getur skattlagt starfsmenn þessara stofnana, þó að stofnanirnar sjálfar verði ekki skattlagðar. Svo ber einnig að gá að því, að Reykjavík situr fyrir bestu kjörum að því er snertir verslunarstofnanir, og eykur það gjaldþol íbúanna ekki svo lítið. Jeg skal aðeins nefna eitt dæmi: Nú sem stendur er t. d. steinolía seld austur á Eyrarbakka 8 kr. hærra hver tunna en í Reykjavík. Það er vitanlegt, að Reykjarvíkurbær greiðir talsvert til ríkissjóðs; þar af leiðir, að útsvar, sem lagt verður á ríkissjóðsstofnanir, kemur og nokkuð niður á Reykjavík sjálfri, svo framarlega, sem ekki er ætlast til að lifa altaf á því að auka skuldirnar. Þess vegna verð jeg að líta svo á, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir þegar tekið fram, að það sje algerlega nóg að leggja í mesta lagi 1% á þessar stofnanir, en jeg get þó verið með því, til þess að öryggi fáist gegn því að ríkissjóði verði íþyngt með álögum.