18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gleymdi því áðan að koma fram með till. um að vísa þessu frv. til nefndar, og vil því nú gera það að till. minni, að því verði vísað til allshn.; en út af þeim umr., sem hjer hafa orðið, verð jeg að segja um leið örfá orð.

Það er að vísu rjett, að bæjarfjelagið hefir nokkurn skaða af þessu í framkvæmdinni, en þó ekki eins mikinn og sýnist í fljótu bragði, vegna þess að allhá útsvör eru oftast lögð á starfsmenn þessara stofnana, og fæst þar nokkur uppbót á þessu. Annars var það ekki ætlun mín að ræða um útsvörin í Reykjavíkurbæ, en jeg get tekið undir það með hæstv. atvrh. (KlJ), að það er mjög tilfinnanlegt, að oss vantar óhlutdrægt úrskurðarvald í þessum málum, hvort heldur það væri hjá dómstólunum eða í stjórnarráðinu. Kom þetta greinilega fram hjer í þinginu í fyrra; var þá meðal annars skorað á stjórnina að undirbúa frv. til laga um þetta og leggja fyrir þingið, svo endir yrði bundinn á þetta. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi þessar stofnanir tvímælalaust útsvarsskyldar, en jeg álít, að um það megi ávalt deila, sjerstaklega þar sem fæstar þessara stofnana eru reknar í gróðaskyni. Svo er því varið að minsta kosti með vínverslunina og steinolíuverslunina, að þær eru hvorug reknar eingöngu í gróðaskyni. Annars vil jeg benda á, að hjer var eitt sinn fjelag, sem hjet Talsímafjelag Reykjavíkur, og varð það að greiða útsvar meðan það starfaði sem sjerstakt fjelag, en eftir að landssíminn keypti bæjarsíma Reykjavíkur hefir ekki verið lagt útsvar á hann; bendir þetta til þess, að menn hafa litið öðrum augum á rekstur ríkisstofnana. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ekki mætti gera upp á milli ríkisstofnana og stofnana, sem reknar væru af einstökum mönnum, eða einstaklinga yfir höfuð. Jeg bar fram þetta frv. vegna þess, að jeg veit, að það verður gert upp í milli þess opinbera og einstakra manna, ef engar öryggisráðstafanir eru gerðar í lögunum gegn því. Meðan sú regla gildir, að lagt sje á eftir efnum og ástæðum, verður ekki annað sagt en að gjaldþol ríkissjóðs sje meira en einstakra manna. Hann sagði og, að venjan væri að miða útsvörin við 10% af tekjum manna eða stofnana. En jeg veit, að hjer hafa menn orðið að gjalda miklu meira. Þetta sjest ljóslega, ef athugað er útsvar það, sem Landsversluninni var gert að greiða síðastliðið ár. Þar er miðað við hærri hundraðstölu af tekjum. Þess vegna held jeg, að það sje ekki ráðlegt að leggja ríkissjóð undir geðþóttaákvæði niðurjöfnunarnefnda og bæjarstjórna, meðan enginn óhlutdrægur dómstóll er til í þessum málum. Jeg tók það fram, að það mætti auðvitað ávalt deila um upphæð þessa hundraðsgjalds, sem ríkisstofnununum yrði gert að greiða, en jeg tiltók aðeins þá upphæð, sem jeg áleit, að minstri mótstöðu mundi mæta að fá samþykta, vegna þess að mjer er það mest áhugamál, að fá komið í veg fyrir óhæfilega háar álagningar á stofnanir ríkisins. Þó að eitthvað kunni um þetta að verða deilt, bæði af þeim, sem álíta þetta of lítið, og þeim, sem vilja ákveða hundraðagjaldið lægra, hygg jeg, að þessi upphæð hundraðsgjaldsins, sem jeg hefi bent á, sje ekki mjög fjarri sanni. En eins og jeg tók fram áður, bind jeg mig ekki svo við þessa upphæð, að jeg sje ófáanlegur til samkomulags um þetta atriði, enda þótt jeg álíti, að hundraðsgjaldið eigi ekki að færast langt frá því, sem ákveðið er í frumvarpinu.