18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla mjer ekki að lengja mikið þessar umræður; en jeg vil geta þess, að mjer virðist, ef Reykjavíkurbær fær leyfi til þess að skattleggja þessar stofnanir ríkissjóðs, sem ríkið alt nýtur ágóðans af, þá sje það hið sama og ef Reykjavíkurbæ væri leyft að skattleggja alla landsmenn. Að þetta er rjett, sjest best á því, ef menn hugsa sjer, að allar ríkisstofnanirnar yrðu fluttar á einhvern afskektan stað, t. d. upp í sveit. Færu menn að skattleggja þær þar, liggur í augum uppi, hversu fráleitt það er, að þær sjeu skattskyldar á nokkrum stað. Þær ríkisstofnanir, sem hjer munu aðallega hafðar í huga, eru að þessu leyti alveg sambærilegar við póst- og símastarfrækslu ríkisins. Þá hefir því verið haldið fram, að þess vegna væri nokkur ástæða til að ætla þessum stofnunum þó ekki væri nema takmarkað lágt útsvar, að með stofnun þeirra hefðu borgarar Reykjavíkurbæjar verið sviftir atvinnu. Þetta hygg jeg vera á mjög litlum rökum bygt, því jeg veit ekki betur en að menn reki eftir sem áður verslun með þessar vörur, og auk þess veita þessar stofnanir borgurum bæjarins mikla atvinnu og bærinn leggur útsvör á alla starfsmenn þeirra og fær það, sem honum ber, á þann hátt. Þá hefir verið talað um það, að þá fyrst sæist það best, hversu eðlilegt það væri, að ríkisstofnanirnar væru skattskyldar, ef allar atvinnugreinar væru þjóðnýttar; en þetta er ekki rjett athugað. Ef svo færi, stæði Reykjavík auðvitað jafnfætis öðrum að leggja útsvör á sína eigin borgara. Auk þess mætti láta ríkisstofnanirnar sjálfar greiða fje í hinn sameiginlega sjóð landsmanna, svo mikið og á þann hátt, sem mönnum kæmi saman um. Af þessu, sem jeg hefi tekið fram, álít jeg, að ríkisstofnanir ættu ekki að vera skattskyldar, og kysi jeg helst, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að 2. gr. frv. yrði feld, en verði þess ekki kostur, þá verð jeg með því, að hámarksálagning verði ákveðin sem allra lægst.