18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sigurjón Jónsson:

Það er aðeins lítil athugasemd, sem jeg ætla að víkja að þeirri nefnd, sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar. í 2. gr. frv. er svo kveðið á, að stofnanir þessar skuli aðeins skattskyldar þar, sem er aðalaðsetur þeirra. Ef þetta verður að lögum og ákveðið verður, hve mikið þessar stofnanir skuli greiða í skatt, sem jeg er samþykkur, álít jeg sjálfsagt, að skatturinn skiftist hlutfallslega milli þeirra bæjar- og sveitarfjelaga, þar sem verslunin fer fram, í hlutfalli við verslunarmagnið á hverjum stað. Jeg álít enga sanngirni í því, að ágóðahluti af t. d. steinolíu, sem seld er á Akureyri eða Ísafirði, sje greiddur til Reykjavíkur, ef þessari vöru hefir alls ekki verið skipað þar á land og því ekki verið seld þaðan. Álít jeg því, að breyta þurfi 2. gr. frv. þannig, að tekið sje fram, að gjaldið greiðist þar, sem aðalaðsetur og stórir útsölustaðir eru frá stofnununum, og að gjaldið skiftist hlutfallslega eftir gróðanum á hverjum stað. Geri jeg ráð fyrir, að hv. þingdeildarmenn sjái, að þetta er sanngirniskrafa, sem jeg hjer ber fram, og vænti því, að hv. nefnd taki þetta til athugunar. Þá vil jeg taka það fram, að jeg er algerlega sammála háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) um, að þessar stofnanir eru flestar gróðafyrirtæki að einhverju leyti, og getur því ekki hjá því farið, að þær sjeu skattskyldar til þeirra bæjarfjelaga, sem þær starfa í. Mjer finst það sanngjarnt, þar sem um gróðafyrirtæki ríkisins er að ræða, að þau greiði eitthvað af ágóða sínum á hverjum stað, þar sem hann er tilkominn; en jeg er sammála hv. flm. um að ákveða hámark gjaldsins, eins og jeg er á sömu skoðun og háttv. 3. þm. Reykv. um, að meira sje þó með þessu hugsað um hag ríkissjóðs en hag einstaklingsins, meðan engar skorður eru reistar við því, hve mikið megi leggja á einstaka menn. Ætti þetta að verða til þess að ýta undir, að einhver takmörk yrðu sett fyrir álagningu útsvara á einstaka menn og tryggja það, að gjaldþoli þeirra verði ekki misboðið, eins og því miður nú á sjer stað á einstöku stöðum. Vona jeg því, að háttv. nefnd taki þetta til athugunar og láti þetta gjald ekki alt renna til Reykjavíkurbæjar, en skifti því heldur niður í hlutfalli við gróða verslananna á hverjum stað.