18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins að vekja athygli nefndarinnar á einu atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf. (SigurjJ). Þetta atriði er krafa hans um það, að ef þetta útsvar verði lagt á ríkisrekstur hjer í Reykjavík, þá verði eins farið að úti um land. Þetta er alveg hugsanarjett hjá hv. þm., en hann gengur bara út frá öðrum forsendum en jeg að því er snertir málið í heild sinni. Jeg vil nú skjóta því til nefndarinnar, að hún athugi það, hvort ekki muni heppilegast, að staðar sje numið á öðrumhvorum staðnum — að gera ríkisreksturinn algerlega skattfrjálsan eða þá að leggja skatt á hann hvar sem er á landinu.

Viðvíkjandi því, sem hjer hefir verið haldið fram, að engar skorður hafi enn verið reistar gegn því, hve hátt útsvar niðurjöfnunarnefndin leggi á borgarana og rekstur þeirra, þá vil jeg benda á það, að þar sem bæjarstjórnin er æðsta úrskurðarvald í þeim efnum, en hún er aftur kosin af borgurunum, þá eru það í raun og veru þeir, sem hafa þetta alt í hendi sjer.

Að lokum skal jeg svara nokkrum orðum hv. 1. þm. Reykv. (JÞ). Hann hjelt því fram, að þegar ríkið tæki á sínar herðar samskonar rekstur og þann, er borgararnir hafa með höndum, þá yrði það sömu skyldum háð sem þeir. En á þessu tvennu er sá stóri munur, að þær tekjur, sem ríkið fær á þennan hátt, ganga til þess að standa straum af þörfum þjóðfjelagsins, t. d. til þess að gjalda embættismönnunum hjer laun sín. En svo er ekki um það fje, sem einstaklingum græðist.

Viðvíkjandi þeirri staðhæfingu hv. þm. (JÞ), að þessi rekstur ríkisins hefði aukið starfsmannahald í för með sjer, þá verð jeg að halda fram því gagnstæða. Jeg held, að þetta hafi í för með sjer sparnað á mönnum, það er að segja, fyrir landið í heild sinni. Skal jeg til dæmis taka, að áður voru á milli 30–40 heildsalar, sem versluðu með tóbak, en nú bara þessi eini. Liggur í augum uppi, hve margir menn sparast við það.