01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1925

Björn Líndal:

Það er sjerstaklega viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. N.-M. (HStef) og brtt. hans, að jeg vildi segja nokkur orð. Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um styrkinn til skálda og listamanna. Jeg er hv. þm. að mestu sammála um hann. En sá styrkur hefir verið lækkaður, og jeg held að varla sje gerlegt að fara lengra en það að sinni.

Öðru máli er að gegna um brtt. hans um að fella niður skáldalaun þeirra rithöfundanna Indriða Einarssonar og Einars Hjörleifssonar Kvarans. Um það er jeg alls ekki á sama máli og hv. 1. þm. N.-M., því jeg vil viðurkenna það, sem vel er gert. Þetta eru menn, sem báðir hafa sýnt það, að þeir eiga þessi laun skilið fremur flestum öðrum, og eru auk þess báðir orðnir rosknir menn, og væri því mjög ómaklegt að svifta þá þessum styrk á gamalsaldri.

Þá er ein brtt. sama hv. þm., sem er 47. brtt. á þskj. 261. Þar leggur hann til, að feld sje niður dýrtíðaruppbót af eftirlaunum þeim og styrktarfje, sem embættismönnum og embættismannaekkjum er greitt auk lögboðinna eftirlauna. Þetta tel jeg alls ekki rjett. Þeir, sem fyrir þessu verða, eru mestmegnis fátæk gamalmenni og ekkjur, sem alls ekki mega við því að missa þessa dýrtíðaruppbót. Jeg vil í þessu sambandi minna hv. þm. á það, að fyrir nokkru lenti okkur dálítið saman út úr fjárveitingu til jarðræktar, og jeg vil spyrja hv. þm., hvort honum finnist það rjettlátt að borga efnuðum bændum fyrir jarðabætur þær, sem þeir gera á jörðum sínum, og taka fje til þess frá fátækum ekkjum og gamalmennum. Þeir, sem vilja auka jarðrækt í landinu, gera það í nafni menningarinnar, og jarðrækt ber vafalaust merki um aukna menning. En menning á altaf að fylgja mannúð, og jeg vil beina þeirri spurningu til hv. þm., hvort þeim þyki það bera vott um mannúð, að vilja taka frá þessu fátæka fólki þann styrk, sem það hefir hingað til haft og það getur naumast án verið.

Þá er á þskj. 261 ein brtt., sem til útgjalda horfir, sem jeg vildi minnast nokkuð á. En það er brtt. tveggja hv. þm. um skáldastyrk handa Þorsteini Gíslasyni. Jeg vil geta þess, að jeg er þessari till. mjög fylgjandi, því þessi maður hefir fyrir löngu sýnt það, að hann er slíkrar viðurkenningar verður, vegna síns ágæta skáldskapar. Og í öðru lagi er Þorsteinn Gíslason einn sá heiðarlegasti og óhlutdrægasti blaðamaður, sem hjer hefir verið, að mínum dómi. Jeg veit, að sumum flokksmönnum hans mun ekki hafa þótt hann nógu harður í deilunum stundum, en það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að hann hefir verið óvenjulega víðsýnn og sanngjarn ritstjóri, og þó jeg ætli mjer ekki að fara að gera neinn samanburð á ritstjórum hjer, þá get jeg þó ekki látið vera að geta þess, að þetta er meira en hægt er að segja um suma ritstjóra hjer, sem hafa yfir stórum og víðlesnum blöðum að ráða.

Áður en jeg lýk máli mínu vil jeg geta þess, að mjer finst það vera hjákátlegar árásir, sem nú hafa verið gerðar á hæstv. atvrh. (MG) af hálfu tveggja hv. þm. úr Framsóknarflokknum, sem sje hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hv. þm. Str. (TrÞ). Þeir eru með stöðugar árásir á hæstv. atvrh. Jeg á nokkuð bágt með að skilja þennan ágreining, því mjer finst einmitt þessir 2 þm. standa nokkuð nærri hæstv. atvrh. í skoðunum að ýmsu leyti. Þessi bægslagangur þessara háttv. þingmanna minnir mig á það ódrengskaparbragð, sem hryggbrotnir biðlar af versta tægi beita oft við konur þær, sem hafa hryggbrotið þá. Jeg vil í því sambandi minnast á hviksögu, sem gengur um bæinn. Jeg hefi hingað til rengt þessa hviksöku, en mjer finst nú orðið, að jeg hafi næstum því ástæðu til þess að taka hana trúanlega. Jeg veit ekki hvaðan saga þessi er upphaflega komin, en svo mikið mun mega fullyrða, að hún sje ekki kominn frá hæstv. atvinnumálaráðherra sjálfum. Hviksaga þessi er um það, að í þingbyrjun hafi hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. Str. leitað samninga við hæstv. atvrh. um stjórnarmyndun. Jeg vildi minnast á þetta, því það væri gott að fá að vita, hve mikið væri hæft í þessu, og vildi jeg gjarnan fá að heyra, hvað þessir 2. hv. þm. hafa um þetta að segja. (KIJ: Jeg mótmæli þessu alveg að því er mig snertir). (TrÞ: Jeg neita því líka algerlega, að nokkuð sje hæft í þessu).