18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) sagði. Jeg játa, að aths. hans er á góðum rökum bygð og hefi ekkert á móti því, að tekið verði tillit til hennar og það ákveðið, að viss partur af nettóágóða umræddra ríkisstofnana falli til þeirra staða, þar sem útibú eru rekin, hvort sem það er á Ísafirði eða annarsstaðar á landinu. Mjer datt einmitt í hug fyrst að haga þessu svo, en fjell svo frá því.

Mjer finst annars, að niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur, sem hefir lagt svo hátt útsvar á verslanir ríkissjóðs, hafi ekki verið sjálfri sjer samkvæm, er hún hefir ekki lagt neitt útsvar á skip ríkissjóðsins. Þótt tap hafi orðið á þeim rekstri, þá hefðu þau samt, eftir reglum nefndarinnar, átt að greiða útsvar. Og jeg er viss um það, að ef Villemoes hefði verið einstaks manns eign, þá hefði hann ekki sloppið við útsvar. Þetta sýnir, að munur hefir verið gerður á eignum ríkis og einstaklinga.