07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sveinn Ólafsson:

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að jeg teldi ekki viðurkvæmilegt að skattskylda ríkisstofnanir, hverju nafni sem nefnast; einnig tók jeg það fram, að mjer virtist gerlegt til samkomulags að ganga nokkuð áleiðis móti þeim, er lögbinda vildu lágt hundraðsgjald í sveitarsjóð eða bæjarsjóð af slíkum stofnunum, eins og ráðgert er í frv. á þskj. 120. Jeg bar því fram brtt. ásamt hv. þm. Str. (TrÞ), á þskj. 176, þar sem við förum fram á að lækka gjaldið úr 5% niður í 2%. Nefndin hefir lagt á móti þessu, en minni hl. nefndarinnar vill þó miða bæjargjald af steinolíuversluninni við þessa hundraðstölu, 2%. Það kom fram hjá hv. frsm. minni hl. (MJ), að nefndin hefir ekki klofnað um stefnuatriði, heldur um hæð hundraðstölunnar. Þegar þess er gætt, hvernig nefndin klofnar, virðist auðsætt, að hjer sje um mjög einhliða hagsmunastefnu að ræða af hálfu Reykjavíkur eða fulltrúa bæjarins. Báðir þm. í minni hlutanum eru búsettir í Reykjavík og fulltrúar bæjarins, enda er auðsætt, að þeir hafa fyrst og fremst hugsað um hagsmuni bæjarfjelags síns. (MJ: Er ekki einmitt einn af þingmönnum Reykjavíkur í meiri hlutanum?). Því er haldið fram, að kostnað leiði af stofnunum þessum fyrir bæinn. Skattstofnar hafi tapast bænum, þar sem tóbakið og steinolían er. En ef því er svo varið um Reykjavík, má segja hið sama um alla aðra kaupstaði. Því álít jeg rjett, eins og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) drap á við 1. umr., að skattskylda útibú ríkisstofnana úti um land, ef þessi skattur kemst á hjer í Reykjavík. Jeg get ekki betur sjeð en að taumur Reykjavíkur sje um of dreginn í þessu máli, ef aðrir kaupstaðir njóta ekki jafnrjettis. Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) telur sanngjarnlegt að hafa gjaldið 10%, eða að færa það niður um 2/3 frá álagningu þeirri, sem Landsverslun og víneinkasala fengu í haust, færa það úr 90 þús. kr. niður í 30 þús. Jeg hugði reyndar, að enginn mundi dirfast að fara fram á slíkt gjald í bæjarsjóð, úr því að farið var að tala um hundraðsgjald á annað borð. Jeg held því fast fram, að 2% sje nægilegt, og megi ekki hærra fara. Eftir þeim tekjum, er hafa verið af þessum stofnunum undanfarið, mundi bæjargjaldið nema 12 þús. kr., ef farið væri eftir þessari hundraðstölu. Jeg get ekki sjeð annað en að það sje fullsæmileg upphæð fyrir slit á vegum bæjarins og annað þessháttar, ekki síst, er þar kemur einnig á móti útsvarsálagning á tekjur þeirra starfsmanna, er við þessar stofnanir vinna, og sú atvinna, er stofnanirnar veita bæjarbúum.