07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg skal ekki vera langorður, enda gaf ræða hv. frsm. minni hl. (MJ) ekki tilefni til þess, því að sú skoðun hans, að ríkisstofnanir beri að skattleggja sem einkafyrirtæki, nær vitanlega engri átt. Hann sagði, að hjer væri ekki um stefnu- atriði að ræða, og svipað kom fram hjá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Þetta er ekki rjett athugað. Við segjum í nál., að þessa greiðslu beri að skoða sem borgun fyrir not þau, er þessar stofnanir hafa af tækjum bæjarins, en alls ekki sem aukaútsvar, t. d. eins og af einkafyrirtækjum. En hinsvegar sjáum við ekki ástæðu til að gera upp á milli steinolíuverslunarinnar og hinna fyrirtækjanna, þótt nokkur munur sje þar. Steinolíuverslunin er ekki gróðafyrirtæki, þótt einhver gróði kunni að vera af henni, sem þá er lagður í varasjóð, en nefndin hefir samt ekki sjeð ástæðu til að gera þar upp á milli.

Jeg get ekki fallist á það, sem hv. 4. þm. Reykv. hjelt fram, að þingið hefði undanfarið rýrt gjaldþol Reykjavíkur. Jeg get ekki skilið, hvernig t. d. tóbakseinkasalan hefir rýrt gjaldþolið. A. m. k. hefir það þá komið niður á öðrum kaupstöðum líka.

Meiri hl. nefndarinnar er andvígur því, að aðrir bæir skattskyldi þessar stofnanir. Að vísu má til sanns vegar færast, að það sje rjettlátt í sjálfu sjer, en í öðrum bæjum en Reykjavík mundi mjög lítið muna um skatt þennan. Á það verður og að líta, að þessi fyrirtæki eru rekin til almenningsgagns, sem á að koma fram í lækkuðum sköttum yfirleitt, svo að þar fá bæjarfjelögin uppbót þá, er þau telja sig eiga kröfu til.

Hv. sami þm. (MJ) talaði um, að nú ætti að fara að undanþiggja Eimskipafjelagið frá skatti. Mjer og fleirum er fullkomlega kunnugt, hvaða ástæða er til þess. Fjelagið er illa statt, og háttv. Alþingi hefir samþykt fjárframlög til þess. Því er eðlilegt, að Alþingi reyni að hindra, að þessi fjárstyrkur gangi aftur til Reykjavíkur. Síðastliðið ár var lagt á fjelagið 45 þús. kr. útsvar, enda þótt gróði þess það ár væri ekki nema um 88 þús. kr. Mjer finst því fullkomin ástæða til að gæta þess, að bæjarfjelagið misbjóði ekki þessu fjelagi.

Jeg hefi nú svarað þeim athugasemdum, er fram hafa komið frá hv. 4. þm. Reykv., og að nokkru leyti frá hv. 1. þm. S.-M. Vona jeg, að deildin fallist á álit meiri hluta nefndarinnar í þessu máli.