07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði um, að minni hl. nefndarinnar ræki í þessu máli hagsmunaerindi Reykjavíkur, en þegar það kemur upp úr dúrnum, að einn af þm. Reykjavíkur er í meiri hl., en aftur er helmingur minni hl. þm. sveitakjördæmis, fer sú röksemd heldur að blikna. Annars er það hvorki synd nje einsdæmi að draga taum einstakra kjördæma, og ef taumur Reykjavíkur er dreginn hjer um of, er hv. þingmönnum treystandi til að toga á móti. Hv. sami þm. (SvÓ) sagðist ekki geta trúað, að neinn nefndi svo hátt hundraðsgjald, að færi upp úr 10%, og að það hundraðsgjald hafi því verið nefnt sem það hæsta, sem hugsanlegt var. Einhverntíma hafa menn þó haft þann kjark hjer á Alþingi, því að tekjuskattslögin ákveða 20%, eða helmingi hærra gjald, af slíkum tekjum, sem hjer er um að ræða. Hjer hefir nú einmitt komið fram till. um að samræma sem mest aukaútsvör og tekjuskatt. Svo að nærri mundi þá liggja að nefna hærri upphæð, ef ekki væri um annað hugsað en rýja sem vandlegast. Hjer togast ríkissjóður og bæjarsjóður á, og virðist því ekki fjarri lagi að skifta til helminga á milli þeirra.

Hv. frsm. meiri hl. (JörB) sagði, að hjer væri um stefnumál að ræða. Svo er alls ekki. Við tökum líka fram í 1. gr., að ríkisstofnanir skulu ekki vera skattskyldar eftir efnum og ástæðum. Hv. sami þm. sagði, að hann liti öðrum augum á þetta en við. Það er nú einmitt það, að sínum augum lítur hver á silfrið, og þetta augnaráð hv. þingmanna er ekki vant að breytast við neinar umræður. Því er haldið fram, að bærinn græði á starfsmönnunum við þessar ríkisstofnanir, og þó er sagt í annari andránni, að þær spari mannahald, og ætti þá bærinn einmitt að tapa á ríkisstofnununum, einnig í þessu atriði. Auðvitað er sannleikurinn sá, að blessunarlega margir starfa við þessar stofnanir, en rökleiðslan er jafnbágborin fyrir það.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. um, að gróði þessara stofnana rynni í ríkissjóð, og kæmi þar fram á þann hátt, að önnur gjöld til ríkissjóðs lækkuðu á Reykvíkingum eins og öðrum. Það, sem þannig væri af Reykjavík tekið, skilaði sjer því til bæjarmanna aftur. Þetta er eins rjett og ef hv. þm. hefði 100 kr. í vasanum og þeim væri skift milli allra þingmanna og hann fengi sinn hlut. Jeg efast um, að hann mundi verða ánægður með það. Hann fengi að vísu 2–3 kr. upp í það, sem af honum væri tekið, en það mundi hann varla telja mikla rjettarbót. Reykjavíkurbær nýtur auðvitað að sínum hluta tekjuauka ríkissjóðs, en það vantaði heldur ekki annað en að bærinn misti þarna algerlega stórfje og fengi ekki einu sinni sinn hluta af þessum tekjum ríkissjóðs aftur.

Hv. frsm. meiri hl. var einmitt að sanna mál mitt, þegar hann mintist á Eimskipafjelag Íslands. Kvað hann óhæfilegt hafa verið að leggja 45 þús. kr. á fjelagið, þegar það stæði svo höllum fæti og gæfi svo lítinn arð. Þetta er sönnun á mínum málstað og sýnir, hve afarilla bærinn má við því að missa stóra gjaldendur. Fjárhagur bæjarins er svo þröngur, að leggja verður þungar álögur á fjelög, sem mjög berjast í bökkum, og ekki á Eimskipafjelagið eitt, því að benda má á útsvör togarafjelaganna, sem mörg standa mjög höllum fæti. Því fer fjarri, að bæjarstjórn eða niðurjöfnunarnefnd vilji fjandskapast við Eimskipafjelagið, en ástandið í bænum er nú svona. Og hvað mundi þá eiga að jafnri tiltölu að leggja á stofnun, sem hefir árlega í hreinan ágóða 200–400 þús. kr., þegar Eimskipafjelaginu er gert að greiða svo háa upphæð, jafnbágborinn sem hagur þess er.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) drap á það, sem hann mintist einnig á við 1. umr., að rjett væri, að þessar stofnanir greiddu útsvar þar, sem þær störfuðu, og víðar en aðalsetur þeirra væri. Þetta er að vísu rjett, en um það mundi hvergi muna neinu verulegu, en aftur er um stærri upphæðir að ræða hjer í bæ. Aftur skildi jeg það ekki vel, sem hv. þm. sagði um steinolíuverslunina, sem ekki er rekin í ágóðaskyni; virtist mjer hann vilja halda því fram, að sjerstök ástæða væri til að leggja á þá verslun, ef hún græddi, því að með því að græða væri hún að vinna á móti tilgangi sínum. Þó að verslunin sje ekki rekin í ágóðaskyni, tel jeg rjett, að hún reyni að græða dálítið. Henni mun ekki af veita að safna til vondu áranna, sem altef geta komið yfir slíka verslun. Þó að verslunin græði 60–100 þús. kr., álít jeg, að ekki beri að skattleggja það eins hátt og jafnmikinn ágóða af tóbaks- eða víneinkasölunni, því að sú upphæð getur verið fljót að fara, og er rjett að safna í varasjóð til þess að geta tekið við skellum, sem ávalt geta komið fyrir slíka verslun. Um þessar greinir ríkisrekstrar er því ólíku saman að jafna.