01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1925

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 261. Hún er þess efnis að fella niður dýrtíðaruppbót af launum tveggja fyrverandi bankastjóra Landsbankans, þeirra Björns Kristjánssonar og Björns Sigurðssonar. Eftirlaun þessara manna eru 4 þús. kr. til hvors. Annar hefir fengið þau með sjerstökum lögum, en hinn með ákvæðum fjárlaga í hvert sinn. En auk þess hefir Alþingi í seinni tíð ákveðið, að mönnum þessum skuli greidd dýrtíðaruppbót á þessi 4 þús. kr. eftirlaun; því jeg lít svo á, að þótt þetta ákvæði fjárlaganna sje í heimildarformi, þá muni bankinn telja þetta vera skipun til sín um að greiða þessa dýrtíðaruppbót, en mun hinsvegar aldrei hafa farið fram á að fá þessa heimild. Þessi brtt. fer ekki að neinu leyti í þá átt að hrófla við eftirlaunum þessara manna. Þau eiga að standa algerlega óbreytt. Það er aðeins farið fram á það, að þingið láti vera að skipa svo fyrir, að þessir menn skuli fá dýrtíðaruppbót á eftirlaun sín. Og sú till. byggist á því, að eftirlaun þessi, 4 þús. kr., sjeu mjög svo sæmileg og óþarfi sje að bæta við þau. Enda finst mjer alls ekki samrýmanlegt, að þingið skipi fyrir um slíkt samhliða því, að hv. deild hefir neyðst til að taka þá stefnu yfirleitt, sumpart að lækka stórum og sumpart að fella niður styrki til einstakra manna. Gæti jeg bent á mörg dæmi, er sanna þetta, en jeg tel þess ekki þörf. Þessi styrklækkunarstefna hefir þegar sýnt sig svo glögglega hjer í hv. deild, og jeg þykist mega vænta þess, að hún komi fram í afstöðu hv. þm. til þessarar tillögu.

Jeg tel ekki þurfa að eyða tímanum til að skýra þessa tillögu mikið. Hún er svo einföld og ljós. Byggist á því, að þó þessir fyrverandi bankastjórar hafi kunnað að starfa vel fyrir bankann þennan tiltölulega stutta tíma, er þeir veittu honum forstöðu, þá sjeu þessi 4 þús. kr. eftirlaun, til hvors þeirra mjög svo ríflega tiltekin, og því þarflaust og enda órjettmætt að hækka þau í samanburði við aðra. Það má segja, að þessi upphæð, sem lagt er til að spara hjer, sje ekki greidd úr ríkissjóði og hafi því engin áhrif á hag eða útkomu fjárlaganna, og er það að vísu rjett; en jeg tel ekki rjett af hv. Alþingi að íþyngja þessari bankastofnun, sem hjer um ræðir, með fyrirskipun útgjalda, sem er jafnástæðulaus og órjettmæt og þessi dýrtíðaruppbót, svo sem jeg hefi leitt rök að. Vil jeg því vænta góðra undirtekta um þessa till.

Úr því jeg er staðinn upp, vil jeg minnast lítillega á aðra brtt., sem hjer liggur fyrir frá fjvn., þó hv. frsm. hafi skýrt hana greinilega. Þar er farið fram á heimild til ríkisábyrgðar fyrir Húsavíkurhrepp, svo að hann geti komið á vatnsleiðslu og holræsagerð í kauptúninu. Jeg vil árjetta það, sem hv. frsm. hefir tekið fram, að nefndin hefir því aðeins sjeð sjer fært að bera fram þessa till, að hún skilur, hversu þýðingarmikið heilbrigðisspursmál þetta er fyrir Húsavík og hjeraðið í grend. Eins og hv. frsm. mun hafa tekið fram, hefir taugaveikin legið í landi í þessu kauptúni nú um mannsaldur, en farið vaxandi og langmest kveðið að henni á seinni árum. Frá 1909 til 1924 voru skrásettir um 90 sjúklingar, en fleiri munu þó hafa veikst en finnast skrásettir. Síðustu 5 ár hafa sýkst 57 manns og 5 dáið. Það sem af er þessu ári hafa sýkst 5, og ennfremur hefir veikin borist í nágrennið. Þetta mun nægja til að sýna, hve alvarlegt mál er hjer á ferðum, enda verið mesta vandamál kauptúnsins undanfarið um langa hríð. Það er á almanna vitund, að veikin stafar frá vatnsbólum í kauptúninu, þó ekki hafi enn tekist að rekja til uppsprettunnar þrátt fyrir margítrekaðar athuganir. Hefir það verið hið mesta áhugamál þorpsbúa, að ráða bót á þessu ástandi. Og það eina, sem sýnst hefir örugt, er að koma á öflugri vatnsveitu og holræsagerð. En það mun verða nokkuð örðugt að koma því í framkvæmd, meðfram fyrir þá sök, að þorpið nær yfir svo stórt svæði í hlutfalli við íbúatölu, svo að vatnsleiðsla verður þar tiltölulega dýr.

Aldrei hefir veikin verið eins ægileg og síðastl. vetur; eitthvað um 20 sjúkdómstilfelli. Hefir því verið gerð ítarleg gangskör að því að hraða þessum framkvæmdum. Áætlun yfir vatnsleiðsluna og holræsi hefir verið gerð og nemur 60 þús. kr. Og nú hefir hreppurinn óskað eftir 50 þús. kr. fjárframlagi úr ríkissjóði; að hálfu leyti styrk og að hálfu leyti lán. Hv. fjvn. taldi ekki nokkra leið að verða við þeim óskum, en vildi leggja til, að ríkið tæki ábyrgð fyrir 2/3 kostnaðar, eða 40 þús. kr. Jeg vil geta þess, að slíkt sem hjer er farið fram á, er ekkert einsdæmi. T. d. var 1909 veitt heimild til að veita 30 þús. kr. lán til vatnsveitu í Hafnarfirði, og einnig hafa áður verið ábyrgst stór lán til vatnsveitu í Reykjavík og Akureyri. 1921 var af Húsavíkurhreppi farið fram á við ríkisstjórnina að fá lán úr viðlagasjóði, sem hún ekki treystist til að veita, en lofaði hinsvegar að ábyrgjast 30 þús. kr. lán í þessu skyni, þó ekkert yrði af því.

Jeg vil svo ekki þreyta hv. deild með því að ræða meira um þetta mál, en treysti því fastlega, að hún sjái sjer fært að samþykkja þessa tillögu, sem er svo mjög í hóf stilt, þar sem jafnmikið er í húfi fyrir umrætt hreppsfjelag og sýslu, en hinsvegar engin hætta fyrir ríkið að taka á sig þessa ábyrgð.