07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Jakob Möller:

Alt umtal háttv. frsm. meiri hl. (JörB) um eigin geðþótta er út í hött; það er hans eiginn geðþótti að byggja á vitlausum forsendum.

Það er löggjafarvaldið, sem ákveður, á hvern hátt bæjar- og sveitarfjelög fá tekjur sínar og leggja þær á gjaldendurna. Í næsta máli á dagskrá er háttv. allshn. einmitt að stuðla til þess, að girt verði fyrir alt gerræði í þeim efnum. Er ofurauðvelt að setja ákvæði um, að hvorki Reykjavíkurbær nje aðrir fari eftir geðþótta sínum í útsvarsálagningu. Er því engin ástæða til að undanskilja þessar stofnanir almennri löggjöf um skattskyldu.

Jeg stend við það, að reikningar tóbaks- og vínverslunar sýni falskan ágóða, meðan ekki er tekið tillit til opinberra gjalda. Sama verslunarmagn einstaklinga mundi gefa ríkinu og bæjarsjóði miklar tekjur, sem kæmu fram á annan hátt. Því held jeg fast við það, að þegar þetta er ekki dregið frá, komi fram falskur ágóði. Þetta ber ekki að skilja svo, sem jeg sje að bendla forstjórn Landsverslunar við að hafa gefið falska reikninga. Það er misskilningur á orðum mínum, sem að sjálfsögðu eru takmörkuð af þeim rökum, sem fylgdu þeim.