07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg stend upp til þess að mótmæla harðlega andanum í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Jeg hefi ekki talað fyr nú í þessu máli, og jeg ætlaði mjer að sitja hjá, en get ekki lengur orða bundist. Mjer þykir skörin heldur vera að færast upp í bekkinn, er hv. þm. heldur því fram, að Reykjavík sje orðin nokkurskonar píslarvottur landsins, og segir svo jafnframt, að þetta sje svo augljóst, að um það verði ekki deilt. Jeg vil fullyrða, að þetta sje þvert á móti. Reykvíkingar njóta margfalt meiri hlunninda að ýmsu leyti heldur en allir aðrir landsmenn. Þýðir ekki neitt að mótmæla þessu, því að straumurinn hingað er besta sönnunin. En úr því að svo er, þá er líka sjálfsagt, að þeir borgi eitthvað fyrir þau hlunnindi, — eða vill hv. 4. þm. Reykv. ef til vill halda því fram, að einhverjum öðrum beri fremur að gera það? Alls getur verið von eftir slíkar fullyrðingar, sem hv. þm. bar fram áðan.

Það var ekki annað, sem jeg ætlaði að segja. Jeg gat bara ekki setið hjá, eftir að farið var að láta líta svo út, sem Reykvíkingar væru píslarvottar landsins.