07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Það hefði verið býsna óþægilegt að fá slíka hvolfu yfir sig svona óvörum og að sjer látnum, ef einhver rakaslitur hefðu fylgt með, en eigi sakar, úr því að svo var ekki. Jeg ætla því ekki að svara hv. þm. Str. (TrÞ) að öðru en því, að benda honum á, að það mun fjarri því, að Reykjavík græði á þeim fólksstraum, sem nú er til bæjarins, og þarf ekki annað til þess að sýna þetta en benda á, að með öllum fólksfjöldanum og með öllum hlunnindunum, sem sí og æ er öfundast yfir, er Reykjavík eitt þyngsta sveitarfjelag á landinu. Og þetta er almenn regla um bæi hjer og annarsstaðar, að þeir verða því þyngri í gjöldum og dýrari, sem þeir stækka. Er svo nóg um það sagt. Hitt mun fremur vera, að framfærsla bæjarins þyngist eftir því, sem fólkið flytur til hans.