09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Björn Líndal:

Jeg vil taka undir brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og finst hún svo sanngjörn, að hv. deild geti ekki verið þekt fyrir annað en að samþykkja hana. Með því að draga meira og meira af verslun landsins undir ríkissjóð, eru bæjarfjelögin auðvitað meira og meira svift skattstofnum sínum; smærri bæjarfjelögin engu síður en Reykjavík. Mjer er vel kunnugt, hve Akureyri t. d. hefir mist mikils fyrir þessa sök, þar sem eru tekjur af tóbaks- og steinolíuverslun. Þar sem einkaverslun ríkissjóðs hefir útibú, sem græða mikið fje, virðist einsætt, að skattar af verslunarhagnaði þeirra renni til þess bæjar, sem þau eru rekin í, en ekki til Reykjavíkur.