26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg þykist ekki þurfa að gera mikla grein fyrir stoðum þeim, sem standa undir frv. þessu, því að jeg býst við, að allir hv. deildarmenn hafi lesið það og greinargerð þá, er fylgdi því inn í þingið.

Ástæðan er sú, að Reykjavíkurbær þykir hafa gengið nokkuð hart að þeim ríkisstofnunum, sem hjer eru. Að vísu má nú telja, að það sje að nokkru leyti vorkunnarmál, því að honum mun finnast, að frá sjer hafi verið tekið fje á þennan hátt. En það liggur nú í hlutarins eðli, að ekki getur náð nokkurri átt að láta niðurjöfnunarnefnd bæjarins einráða um, hvaða útsvar hún leggur á þessar stofnanir, þar sem ekki er hægt að skjóta þeim málum hjer annað en til bæjarstjórnar. Er það alt öðru máli að gegna en um önnur sveitarfjelög, sem geta skotið þeim málum sínum til sýslunefnda. Mál þetta hefir gengið mjög greiðlega gegnum hv. Nd., og jeg vænti, að það fái einnig að ganga greiðlega hjer í gegnum hv. deild. Nefndinni hefir þó fundist, sem töluverður galli væri á 2. gr. frv., eins og það kom frá hv. Nd. Hún telur ekki fyllilega ljóst það ákvæði greinarinnar, að taka megi 5% af nettóágóða þar, sem aðalaðsetur þeirra og útibú eru. Virðist eftir orðanna hljóðan, að þar, sem aðeins eru útibú, megi einnig taka 5% af nettóágóða aðalaðsetursins. En þetta er vitaskuld ekki meiningin. Fyrir því hefir nefndin komið fram með brtt. til þess að leiðrjetta þetta orðalag, þar sem tekið er fram, að gjaldið megi aðeins taka af nettóágóða aðalaðsetursins eða útibúsins. Hinsvegar hefir meiri hluti nefndarinnar, að minsta kosti, leyft sjer að leggja til, að gjaldið yrði hækkað upp í 8%, því að það liggur í augum uppi, að bærinn hefir tapað allmörgum gjaldendum við það, að ríkið fór að versla með þessar vörutegundir, að minsta kosti að því er snertir tóbaksverslunina, því að áður höfðu allmargir borgarar bæjarins þá verslun með höndum og hafa án efa greitt meira til bæjarsjóðs allir saman en tekjurnar verða, þó að gjaldið verði hækkað upp í 8%. Öðru máli er að gegna um steinolíuverslunina, því að á henni mun gróði ríkisins vera lítill, þar sem tilgangurinn með henni er ekki sá, að ríkið græði fje, heldur á hún að vera til hagsbóta fyrir almenning.

Jeg vil nú fyrir nefndarinnar hönd leggja til, að frv. nái fram að ganga og brtt. verði samþykt.