30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Allshn. hefir athugað þær breytingar, sem hv. Ed. hefir gert á frv., og vill meiri hl. nefndarinnar leggja það til, að frv. verði samþykt óbreytt eins og það kemur nú frá hv. Ed. Það má náttúrlega reyna að gera brtt., og það er eðlilegt, að þeir, sem vilja hafa skattgjaldið lægra, vilji breyta. En á hinn bóginn er málinu í heild sinni stofnað í allmikla hættu, ef nú á að senda það aftur til Ed. Og jeg hygg, að það hafi verið afgreitt þaðan með svo miklum atkvæðamun, að ekki sje sennilegt, að deildin vilji fallast á þær, breytingar, sem gerðar kynnu að verða nú. En nú eru sennilega ekki eftir nema örfáir dagar af þingtímanum, og því hæpið um framgang mála, sem þurfa hjer eftir að koma í sameinað þing. Mjer er eftir minni afstöðu til málsins ekkert sárt um það. En þeir, sem gera vilja breytingar á frv., eins og nú er komið þingtímanum, eiga það á hættu, að það dagi uppi.

Um orðalagsbreytinguna, sem engum ágreiningi getur valdið, hefi jeg það að segja, að mjer virðist hún mega vera, ef breyta á frv. á annað borð. En hinsvegar sje jeg enga sjerstaka þörf á henni. Aðalaðsetur í frv. þýðir vitanlega aðalverslunina, en ekki bæinn, þar sem hún er rekin. Jeg hygg, að málvenja styðji þetta. Menn segja ekki, að aðalaðsetur einhvers sje þessi og þessi bær, heldur: í þessum og þessum bæ. Það, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði um útreikning nettóágóðans, liggur í sjálfu frv. Það þarf engrar lögskýringar við, að sá staður, þar sem aðalverslunin er rekin, getur ekki lagt á útibúin líka.

Jeg held, að þeir hv. þdm., sem áhuga hafa á framgangi þessa máls, ættu að greiða atkvæði með því óbreyttu eins og það kom frá hv. Ed.