30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Mjer kemur enganveginn á óvart, þó að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vilji nota kringumstæðurnar til þess að styðja að því, að frv. verði samþykt óbreytt. En það er lítil átylla, þó ekki sje langt eftir þingtímans, að rjettlæta með því samþykt frv. eins og það liggur hjer fyrir. Tíminn er vissulega nægur, ef menn vilja, að málið gangi fram, þótt því sje breytt nú. Og nái það ekki að ganga fram nú, þá er það fullkomlega á ábyrgð þeirra, sem á móti því standa. Þessi ástæða hv. 4. þm. Reykv. er því ekki mikilsverð. Hann gat þess líka, að frv. hefði verið afgreitt með miklum atkvæðamun frá hv. Ed. En jeg get þá frætt hann á því, að frv. var afgreitt hjeðan til hv. Ed. með um 20 atkvæðum, eða nær helmingi alls þingsins, og jeg veit það með vissu, að meiri hluti þingsins fylgir því þannig, þó að jeg kunni ekki að segja með fullri vissu um atkvæðin í hv. Ed. Ef mönnum sýnist óheppilegt að afgreiða frv. í þessu formi óbreytt, þá er sjálfsagt að breyta því. Ábyrgðin hvílir á þeim, sem á móti málinu standa, ef frv. gengur ekki fram.