30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði búist við því, að hæstv. atvrh. (MG), sem á að vera forsvarsmaður þeirra stofnana, sem hjer eiga hlut að máli, mundi taka hjer til máls. Ekki síst þar sem hann er flm. frv. og gekst einnig fyrir því, að gjaldið var ákveðið 5%, sem leggja mætti á hreinan ágóða þessara stofnana. Annars þarf enginn að vera í vafa um það, hvernig jeg lít á þetta mál, því að jeg flutti brtt. við frv. ásamt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um það, að stofnanir ríkisins skyldu vera undanþegnar útsvari; en þegar það fjekk ekki fylgi, þá að gjaldið yrði 2%. Jeg vildi því gjarnan fylgja brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB). En er hjer þá nokkur, sem geti með vissu sagt, að frv. sje ekki þar með dauðadæmt? Hv. 2. þm. Árn. sagðist svona, að svo yrði ekki. En jeg vil fá vissu. Aðalatriðið í þessu máli er það, að Landsverslunin sje ekki óhæfilega skattlögð. En þó frv. verði samþykt óbreytt nú, þá má breyta því á næsta þingi, heldur en eiga á hættu nú að það strandi. Loks vil jeg beina til hæstv. atvrh. (MG) fyrirspurn um það, hvað hann álítur um þetta. Eins og jeg hefi bent á, snertir þetta mál hann og hans verkahring sem ráðherra hvað mest.