30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skilst, að hv. þm. Str. (TrÞ) búist við því, að jeg geti leyst úr því, hvort óhætt muni að samþykkja brtt. þá, sem hjer liggur fyrir, eða ekki. Um þetta get jeg ekki sagt neitt ákveðið. Jeg hefi fyrir löngu látið það í ljós, að jeg teldi sanngjarnt að gjalda 5% af nettóágóða ríkisstofnananna. En jeg tek undir með háttv. þm. Str. um það, að ef um það tvent er að velja, að frv. dagi uppi eða gjaldið sje sett 8%, þá tek jeg síðari kostinn. Það er ekki siður minn að ganga milli manna og spyrja þá um það, hvernig þeir muni greiða atkvæði. Jeg spurði einn mann úr nefndinni í hv. Ed., hvernig þessari breytingu mundi verða tekið þar, og sagðist hann ekki vita það. Það verður hver og einn að ráða því, hvernig hann greiðir atkvæði. En jeg býst ekki við því, að jeg þori að greiða atkvæði móti frv. eins og hv. Ed. hefir nú gengið frá því.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að það væri hugsunarvilla í því, að ríkissjóður greiddi útsvar til sveitarsjóða. Það get jeg ekki fundið. En hitt er það, að jeg álít, að í raun og veru sje ríkissjóður ekki skyldur að greiða slíkt útsvar. En nú er annar dómari, eins fær lögfræðingur (bæjarfógetinn í Reykjavík) eins og við hv. 1. þm. Árn. (MT), sem hefir aðra skoðun á þessu máli. Og jeg er ekki sá sjálfbyrgingur, að jeg taki ekki neitt tillit til skoðana slíks manns. En hvað útlönd snertir, þá er ekki víst, að sömu lög gildi þar og hjer, en vitanlega verðum við að fara eftir okkar lögum. Tilgangur þessa frv., eins og jeg tók fram í upphafi, er ekki sá, að slá því föstu, hvort rjett sje, að ríkissjóður greiði útsvar eða ekki, heldur að fara sanngjarnan meðalveg milli hagsmuna ríkisins og bæjanna. Því verður ekki neitað, að þegar ríkið tekur í sínar hendur atvinnurekstur eins og tóbakssölu, þá rýrna tekjur bæjanna, og frá því sjónarmiði er það eðlilegt, að þeim sje bætt það með einhverju gjaldi. — Hitt nær vitanlega engri átt, að hægt sje að leggja á þessar stofnanir ríkisins eftir efnum og ástæðum. Það væri í raun og veru sama og að leggja á ríkissjóðinn í heild sinni.