30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sveinn Ólafsson:

Mjer þykir rjett að gera grein fyrir atkvæði mínu nú þegar, og einmitt á þann veg, að jeg greiði atkvæði með brtt. 479, og auk heldur þótt það leiddi til þess, að frv. dagaði uppi. Falli till., þá mun jeg hinsvegar greiða atkvæði móti frv. Jeg tel það engan skaða, þó að málið dagaði uppi að þessu sinni, ef ekki næst nauðsynleg breyting á frv. Og jeg held, að ef málið er dregið til næsta þings, þá muni verða litið á það annan veg en nú er gert.

Jeg verð að segja það, að jeg er sammála hv. 1. þm. Árn. (MT) um það, að ekki fari vel á því að gera stofnanir ríkisins skattskyldar einstökum sveitarfjelögum. Jeg legg ekki svo mikla áherslu á framgang þessa máls nú, áður en dómur fellur um útsvarsskylduna eftir eldri lögum, að jeg vilji samþykkja hið hækkaða gjald til þess eins að varna hækkun afgjalds. Það skiftir ekki svo miklu máli um eins árs útsvar.

Hæstv. atvrh. (MG) benti á það, sem áður hefir verið talað um hjer, að verslanir ríkisins, svo sem tóbakssalan, svifti bæjarsjóð rjettmætum tekjum. Það er vitanlegt, að verslunarrekstur ríkisins dregur úr verslun einstakra manna. En þessi einkasala tekur og miklar tekjur af öðrum sveitarfjelögum, því að verslunin var áður í höndum fjölda verslana úti um alt land, þótt nú sje hún komin á eina hönd sem ríkiseinkasala. Það er því ekki rjett að meta svo, sem það sje Reykjavík ein, sem mist hafi hjer tekjulind, og eigi því að hafa einkaleyfi til þess að skattleggja þessi fyrirtæki.