03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Til. fjhn. hefir verið vísað 2 frv., öðru á þskj. 280, um gjaldeyrisnefnd, en hinu á þskj. 225, um gengisskráningu.

Vegna upplýsinga, sem nefndin vildi leita sjer um þessi málefni hjá þeim, er þau snerta mest, svo sem verslunarráðinu, samvinnufjelögunum, fjelagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda og bönkunum, hefir þetta mál tafist lengur en æskilegt var. En á þessari töf á nefndin annars enga sök; svör sumra þessara stofnana bárust henni svo seint í hendur, en nefndin sá sjer ekki fært að gera endanlega ályktun um málið, fyrri en hún hefði fengið þau.

Eftir að nefndin hafði rætt þessi frv. nokkuð, komst hún brátt að þeirri niðurstöðu, að einfaldast væri að semja upp úr þeim eitt frv., með því að tilgangur þeirra beggja er sá, að tryggja fjárhag landsins og viðskifti út á við og gera tilraun til að festa og hækka, ef kostur er á, gengi íslenskra peninga.

Gjaldeyrisnefndarfrv. mælir svo fyrir, að nefnd, sem sett er yfir allan gjaldeyri landsins, sem kemur fyrir seldar vörur, skuli hafa óskoraðan ráðstöfunarrjett yfir öllu andvirði seldra afurða úr landinu. Gengisskráningarfrumvarpið gerir ráð fyrir þriggja manna nefnd, er skal meta gjaldeyrinn einu sinni á viku. Skal hún því aðeins meta hann, að hún sjái sjer fært að ákveða verðgildi íslenskrar krónu að minsta kosti 50% af gullverði á hverjum tíma, sem skráning fer fram, en fari verðgildið niður fyrir það, virðist skráningin eiga að hætta.

Ennfremur barst nefndinni frv. frá Landsbankanum um verslun með erlendan gjaldeyri og gengisskráningu. Er það frv. svipað þessu, sem nefndin flytur. Það, sem aðallega skilur frv. nefndarinnar frá frv. Landsbankans, eru ákvæði þau í hinu síðarnefnda, sem gera ráð fyrir, að allur erlendur gjaldeyrir gangi í gegnum skráningarnefndina, að hún taki við honum og skifti honum aftur milli bankanna í hlutfalli við lausar skuldir þeirra við erlenda banka, sem til hefir verið stofnað vegna gjaldeyrissölu.

Íslandsbanki hefir ekki gert aðrar tillögur um málið en þær, að hann telur bæði frv., sem áður voru komin fram, allsendis óþörf og óaðgengileg. Nefndin hefir átt tal við bankastjóra Íslandsbanka um þetta, og telja þeir enga hættu á því nú fyrst um sinn, að vandræði verði með að yfirfæra peninga eftir þörfum. Þeir staðhæfa, að erlendur gjaldeyrir fari ekki framhjá bönkunum og að Íslandsbanki sje reiðubúinn til að rjetta Landsbankanum hjálparhönd, hvenær sem er og eftir því sem efni og ástæður leyfa, með yfirfærslu og að öðru leyti. Enda játa þeir, að þetta sje sjálfsögð skylda þeirra, er Landsbankinn hafi oft gert þeim svipaðan greiða, en leggja jafnframt áherslu á það, að þessi liðveisla, er þeir veiti hvor öðrum, sje frjáls, en ekki bundin neinum þvingunarráðstöfunum, sem gætu valdið því, að gott samkomulag milli bankanna færi út um þúfur.

Hinar stofnanirnar, sem nefndin hefir leitað hjá umsagnar um málið, telja hin framkomnu þingmannafrv. alveg óaðgengileg. Telja þær, að þau gangi alt of nærri frjálsri verslun og fari óþarflega langt í því að skerða persónulegan eignarrjett. Samband íslenskra samvinnufjelaga er þó ekki á þessari skoðun.

Jeg hefi þá skýrt frá því í aðalatriðum, hvern dóm helstu hlutaðeigendur aðrir, sem málefni þessi snerta, leggja á þau. Skal jeg bæta því við, að mitt álit á hinum áminstu frv. er nokkuð svipað, og jeg hygg einnig meiri hluta nefndarinnar.

Nefndinni varð það ljóst, þegar í eindaga var komið með þessi mál, að annaðhvort yrðu þau að falla niður eða að finna yrði sameiginlega leið, þá leið, sem vjer allir teldum færa og aðgengilega. Og hún liggur þá fyrir í frv. því, er nefndin ber hjer fram á þskj. 516.

Í þessu frv. eru tekin upp aðalatriðin úr báðum frv., sem fyr er á minst, og þó með nokkrum breytingum. En einnig er bætt við nokkrum nýjum ákvæðum, sem eru ekki í hinum frv. Skal jeg nú minnast nokkuð á einstök ákvæði frv.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að skráning á genginu fari fram, og skal skipa þriggja manna nefnd til að annast hana. Á nefndin auk þess, eftir því sem ástæður eru til, að vera stjórninni til aðstoðar í gengismálinu um alt það, er miðar að því að festa eða hækka gengið. Nefndin stendur beint undir fjármálaráðherra. Hún er þannig skipuð, að fjrh. nefnir einn mann í nefndina, og er hann formaður; hinir tveir eru nefndir hvor af sínum bankanum, enda tæplega öðrum til að dreifa að skipa þá. Nefndin er auðvitað bundin þagnarskyldu. Skýrslur þær, sem nefndinni er nauðsynlegt að fá til þess að komast eftir, hvað fæst fyrir seldar afurðir, fær hún jafnóðum frá lögreglustjórum, enda eiga þeir samkvæmt gildandi lögum að safna skýrslum um útfluttar vörur og innheimta af þeim stimpilgjald, sem miðað er við verðmæti þeirra eða söluverð. Þótti óþarfi að heimta aðrar skýrslur en þær, sem nú eru gefnar lögreglustjórum. Auk þess er gert ráð fyrir, að nefndin geti krafist að fá skýrslu um erlendan gjaldeyri, sem menn kunna að eiga, þegar lög þessi öðlast gildi, eða eignast kunna síðar, þar með talin verðbrjef. Er það nauðsynlegt, ef beita þarf ákvæðum 4. gr., um að nefndin geti ráðstafað gjaldeyri til umráða handa ríkissjóði eða bönkunum. Er gert ráð fyrir, að nefndin hafi vald á öllum gjaldeyri og geti tekið hann til að veita ríkissjóði eða bönkunum lið, ef með þarf, en þó því aðeins, að leyfi fjármálaráðherra komi til.

Ákvæðin í 5. gr. eru til þess sett að gera það örugt, að gjaldeyrisviðskiftin fari ekki framhjá þeim stofnunum, sem eðlilegast er að hafi þau á hendi, nefnilega bönkunum. Nú sem stendur fullyrða bankarnir, að þessi viðskifti fari alls ekki framhjá þeim. Hver maður, sem flytur vörur út, selur bönkunum gjaldeyri þann, sem hann fær fyrir þær, enda er það ekki á margra færi nú að „spekúlera“ með erlendan gjaldeyri, eins óvissar og óútreiknanlegar og sveiflur hans eru. Í sjálfu sjer er það enginn, sem með nokkrum líkum getur reiknað út, hvert gengið muni verða á hverjum tíma. — Þeir, sem svo aftur á móti þurfa á erlendum gjaldeyri að halda, fá hann auðvitað aftur viðlíka mikinn eins og þeir hafa selt til bankans, ef það telst nauðsynlegt til að halda uppi atvinnurekstri þeirra. Til þess því að koma á móti þeim, sem halda, að þetta takmarki um of persónulegt viðskiftafrelsi, þá höfum við gengið inn á þá ágætu leið, sem sjá má af brtt. okkar.

Við ætlumst til, að fjármálaráðuneytið semji reglugerð um starf nefndarinnar og um það, hvernig lögin skuli framkvæmd í einstökum atriðum. Höfum við þá með því náð öllu, sem sanngjarnt er að heimta hvað skipun þessa málefnis snertir, því jeg býst ekki við, að neinn hv. þm. vilji gera sjer leik að því að setja ákvæði, sem á engan veg geta talist nauðsynleg, einhver einstrengingsleg ákvæði, sem allsendis er ónauðsynlegt að beita. Býst jeg ekki við, að til þess þurfi að koma að hefta með þessu frjálsa verslun. En reynist svo, að þess sje þörf, þá er hjer með veitt heimild til þess. Við höfum viljað beygja okkur til samkomulags í þessum málum, og farið í því efni eins langt og við höfum talið okkur fært. En eigi frv. að ná fram að ganga, þá verður nefndin og hv. deild að vera samhent í því að spilla ekki tímanum með einskisverðum deilum. En láti þingið ekkert frá sjer fara í þess átt, þá býst jeg við, að það verði illa sjeð, því að eins og við vitum, þá hefir jafnan verið hrópað fyrst og fremst um það, að eitthvað þurfi að gera til að reisa skorður við því, að gengið fari lækkandi. Býst jeg við, að nefnd þessi geti orðið til varnaðar á örðugum tímum, og eins er ekki ólíklegt, að þetta fyrirkomulag á gengisskráningunni geti stuðlað að því að festa gengi krónunnar og hækka það. Er þá vonandi, að það geti orðið smátt og smátt, því allar snöggar sveiflur valda óeðlilegri truflun.

Get jeg þar með látið staðar numið.