03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Halldór Stefánsson:

Þótt jeg beri þetta frv. fram með öðrum hv. fjárhagsnefndarmönnum, þá er það engan veginn svo að skilja, að jeg sje ánægður með frv. eins og það er.

Frv. er borið fram í staðinn fyrir frumvörpin um gengisskráningu og gjaldeyrisnefnd, sem komið hafa fyrir þingið og var vísað til nefndarinnar, og eru sameinuð í þessu frv. flest ákvæði þeirra, en þó nokkuð breytt að formi og efni.

Allmikill skoðanamunur er á milli nefndarmanna um gagnsemi og nauðsyn slíkra ráðstafana, og um einstök efnisatriði, eins og frá er skýrt í nál.; en frv. ber að skoða sem ávöxt af því, hvar skoðanir nefndarmanna gátu mæst til samkomulags, og þó með það fyrir augum jafnframt, hverju líklegt væri að hægt væri að koma fram.

Jeg skal nú fyrst gera stutta grein fyrir því, að hverju þetta frv. er frábrugðið upphaflegu frumvörpunum.

Fyrst er það, að ákvæðin um íhlutunarrjett um meðferð erlends gjaldeyris og um íhlutunarrjett um yfirfærslur eru í þessu frv. heimildir, en skýlausar skipanir í upphaflegu frv.

Annar munur er það, hvernig nefndin er samsett, einkum gagnvart gengisskráningunni. Bönkunum er ætlaður meiri hluti í nefndinni, og þeir þannig einráðir um gengisskráninguna. Þar sem þeir eiga seðlana, þ. e. þann innlenda gjaldmiðil, sem metinn og skráður er, þá eru þeir áfram dómarar í sjálfs sín sök, eins og verið hefir.

Þriðja er það, að engar takmarkanir eru settar um yfirfærslur í frv., þótt gengið haldi áfram að falla, aldrei hugsað að segja við bankana: hingað og ekki lengra í því að fella í gildi ykkar eigin seðla.

Jeg skal nú þessu næst fara nokkrum orðum alment um þau atriði, sem viðkoma efni þessara frumvarpa, í þeim tilgangi að skýra það, hvers vegna og að hverju leyti jeg álít ófullnægjandi skipað til með þessu frv. í einstökum atriðum, og til þess að benda á það jafnframt, að það veltur á miklu um árangur frv., ef samþykt verður, hvernig og að hve miklu leyti heimildir frv. verða notaðar og hvernig tekst með skipun nefndarinnar. —

Það mun hvergi í löndum nema hjer á landi vera talið eðlilegt eða rjett, að gengisskráning sje í höndum þeirra, sem með verðmiðilsverslunina fara og gjaldmiðilinn eiga, án allrar íhlutunar og eftirlits.

Gengisskráning án eftirlits og í höndum þeirra einna, sem með gjaldmiðilsverslunina fara, er fallin til að vekja efa og vantraust, eða a. m. k. Óvissu, um það, hvort verðgildi gjaldmiðilsins er rjett skráð.

Þess vegna virðist nauðsynlegt og öllum fyrir bestu, að sett sjeu lög og reglur um gengisskráninguna, og þannig lagaðar, að þær sjeu fallnar til að eyða og útiloka allan efa og grun.

Jeg skal nú drepa á nokkur atriði og ástæður, sem benda til þess, að rjett sje og sjálfsagt að skipa fyrir með lögum um þau atriði, sem snerta gengisskráninguna og gjaldeyrismeðferðina.

Seðlarnir, þ. e. a. s. sá verðmiðill, sem hjer ræðir um, eru handhafaávísanir, sem bankarnir gefa út á sjálfa sig og skuldbinda sig til að greiða handhafa með fullu verði. Það eru ávísanir, sem gefnar eru út með gullsgildi.

Þegar það er liðið eða leyft, að banki leysi seðla sína inn, eða kaupi þá með afföllum (gengismun), þá er það í raun og veru ekkert annað en eftirgjöf á skuldbindingum þess banka, sem hefir gefið seðlana út, eftirgjöf á jafnmiklum hluta framverðsins eins og gengismuninum nemur, en jafnmikið tap þjóðarinnar, sem seðlana hefir með höndum. Það er nokkurskonar fátækrastyrkur til bankans.

Lækkandi gengi verður þá sama sem aukið tap handhafa og aukinn styrkur til bankans.

Nú þegar Íslandsbanki er að leysa inn til fulls hluta af seðlum sínum, þá er það beinn styrkur til hans, að fá að leysa inn þessar eigin ávísanir sínar á hálfvirði, eins og nú er, og því meiri styrkur, sem honum er liðið eða leyft að leysa þá inn með lægra gildi.

Það er þess vegna beinn hagur Íslandsbanka, og beinn aukinn styrkur frá þjóðinni, að seðlar hans falli sem mest, og í mesta máta óviðkunnanlegt og óviðurkvæmilegt að selja honum sjálfdæmi um mat seðla sinna. Þeir, sem það heimta, virðast bera meir fyrir brjósti hag bankans en hag þjóðarinnar.

Banka, sem ekki leysir inn sínar eigin ávísanir (seðla) á fullu verði, má líkja við þurfamann, sem lifir — eins og kunnugt er — á annara framfæri. Báðir lifa á því, sem aðrir leggja fram, en hvorugur græðir þó eða safnar fje, nema þeir skjóti undan. Báðir gleypa feitu kýrnar, en eru þó jafnmagrir eftir. Íslandsbanki er þurfalingur íslensku þjóðarinnar í þessari merkingu, þjóðin er látin hlífa fje hans til þess að hann geti haft 8 bankastjóra á ríflegum launum, og til þess, að hann geti gefið hluthöfum sínum sem mestan ársarð, og til þess, að hann hafi sem mestu fje að skifta á milli eigenda sinna að leyfistímanum loknum. Til þessara hluta hefir hann hlaðið í kringum sig þann varnarmúr, sem aldrei hefir brugðist honum.

Viðskifti landa á milli greiðast og jafnast með vörum.

Að því leyti, sem vörur hrökkva ekki til, eða á þeim tíma, sem vörur eru ekki til, jafnast viðskiftin með lánstrausti.

Lánstraustið er veitt í gegnum bankana.

Á meðan bankarnir hafa fult, ólamað traust, þá gengur alt vel. En ef bankarnir tapa trausti og áliti, þá er voðinn vís.

Þegar banki t. d. hættir að kaupa sínar eigin ávísanir — seðlana — fullu verði, þá auglýsir hann sjálfur með því vanmátt sinn.

Rekstur slíkra banka ætti að stöðva þegar í stað, því að eftir það verður öll starfsemi þeirra — þar með taldar yfirfærslur — tvísýnn hagnaður, eða minna en það. Það hefnir sín grimmilega að láta þá halda áfram eftir það; það hefir öll reynsla sýnt. Eftir það eru þeir komnir á þjóðarframfæri, því líkt, sem jeg hefi áður lýst.

Svona er því varið með íslensku bankana (það tekur þó að mestu leyti eingöngu til Íslandsbanka við það, að hann á mestan hluta seðlanna). Þeir flæmast undan skyldum sínum og skuldbindingum. Yfirfærslumar annast þeir með því að taka lán erlendis og lán á lán ofan, til þess að geta keypt þeim mun meira af sínum eigin ávísunum hjer heima með afslætti, og lánað þá svo út aftur með fullu nafnverði og okurvöxtum. — Þannig hafa þeir, að eigin sögn, tekið 18 milj. kr. lán erlendis síðustu 3 árin.

Fyrst bankamir geta ekki uppfylt skyldur sínar um innlausn seðla sinna á fullu verði, þá er spursmál, hvort ekki er af tvennu illu betra, að þeir hætti að yfirfæra, eða þá a. m. k. yfirfæri sem minst — ekki nema það, sem brýn þörf er á — heldur en þeir reki þessi viðskifti áfram.

Þegar svona er ástatt, þá er bæði óhyggilegt og hættulegt að láta þá reka yfirfærslur og gengisskráningu eftirlitslaust og hindrunarlaust.

Því er alment haldið fram, að framboð og eftirspum skapi sanngjarnt og eðlilegt verð, svo um seðlagildi sem annað.

Þetta getur talist rjett, ef miðað er við algerlega eðlilegar og óþvingaðar ástæður.

En sjeu ástæður að einhverju leyti óeðlilegar eða þvingaðar (vöruskortur, sjerrjettindi, samtök, kaupgræðgi (Panik), fölsk kaupgeta o. fl.), þá bilar eða brestur þessi jafnvægiskenning.

Af fyrsögðu er það augljóst, að bankarnir hafa hagnað eða styrk af verðfalli seðla sinna.

Þó að bankarnir sjeu ekkert sjerstaklega grunaðir um að styðja eða stuðla að falli seðla sinna vísvitandi eða af ásettu ráði, þá er samt þess að gæta, að ýmsir fleiri en þeir hafa umráð yfir eða fá umráð yfir erlendum gjaldeyri, og hugsast getur, og má enda telja líklegt, að þeir geri sjer gengisfallið að fjeþúfu.

Og þá er hugsanlegt, að bankamir geti leiðst og hafi leiðst til að fylgja þeim gengisbröskurum, og um það eru þeir að vísu grunaðir.

Þess vegna er tryggast og öllum best — bönkunum líka —, að gjaldmiðilsskráningin sje ekki eftirlitslaus.

Óstöðugt gengi er engu betra, eða kanske öllu verra en lággengið sjálft. Orð leikur á, að bankarnir — og aðrir, sem hafa umráð yfir erlendum gjaldmiðli, — noti sjer það til eigin hagsmuna. Tilfærð skulu tvö dæmi um þann orðróm:

1. Íslensk króna hefir jafnan fallið á hverju ári rjett eftir að búið hefir verið að selja megnið af íslenskum framleiðsluvörum yfirstandandi árs, og rjett áður en þurft hefir að fara að kaupa vörur til næsta árs. Við þessar ástæður tapa framleiðendur. Auðvitað er það óvíst og óljóst, hvort það eru bankamir, sem hafa hagnaðinn, eða hvort sá hagnaður er meira beinn eða óbeinn, en gott væri fyrir þá að geta verið lausir við allan grun um það.

2. Nú er fiskur keyptur — að því er þykir — á háu verði og mjög eftirsóttur, ekki einungis sá fiskur, sem veiddur er, heldur og sá, sem enn er óveiddur og leikur lausum sporði í sjónum. Sennilega lána bankarnir heldur meira en minna fje til kaupanna. Það sýnist geta verið ótrygt, að kaupendur sleppi skaðlausir, þar sem svo langt verður þangað til fiskurinn kemur á markað og bæði verð og gengi getur breyst til þess tíma í óhagstæða átt fyrir kaupendur. Nú leikur á sá orðrómur, að bankarnir hafi lofað fiskkaupendum að láta íslenska krónu falla gagnvart enskri mynt þegar sala fer fram, ef þörf gerist, til að tryggja fiskkaupendur fyrir tjóni af kaupunum og sjálfa sig fyrir tapi á lánunum. Jeg segi þetta ekki sem mína skoðun, heldur aðeins sem þann orðróm, sem jeg hefi heyrt.

Það virðist ætti að vera gott fyrir bankana að geta verið lausir einnig við þennan grun.

Það hefir ekki altaf þótt og þykir ekki enn vera rjett eða eðlilegt hlutfall á milli íslenskrar krónu og verðmiðils annara ríkja. Sjerstaklega á þetta sjer stað um hlutfallið milli íslenskrar og danskrar krónu.

Eftir ástæðum og líkum þykir, að íslensk króna ætti ekki að vera að mun lægri gagnvart gullkrónu en dönsk króna.

Í annan stað hefir það komið fyrir, að þegar íslensk króna hefir hækkað gagnvart gullkrónu, þá hefir hún ekki altaf hækkað gagnvart danskri krónu, og það enda þótt dönsk króna hafi lækkað samtímis gagnvart gullkrónu.

Mönnum hefir verið óskiljanlegt, hvernig gæti staðið á þessu.

Nú hefir nýlega fengist skýring á þessu fyrirbrigði.

Á fundi um gengismálið fyrir mánuði síðan (3. apríl) viðurkendu tveir bankastjórar, sinn frá hvorum banka, að bankarnir þyrðu ekki að láta íslenska krónu nálgast danska krónu um of, vegna þess, að þeir danskir innieigendur, sem ættu fje í bönkunum hjer, myndu þá heimta út fje sitt örara en bankarnir væru viðbúnir að láta það af hendi.

Með þessu hafa bankarnir viðurkent, að þeir hjeldu uppi óeðlilegu verðhlutfalli á milli danskrar og íslenskrar krónu.

En nú er eins líklegt, að hugsunargangur bankanna um þetta atriði sje rangur.

Með lágu og fallandi gengi íslenskrar krónu er líklegt, að danskir innieigendur missi alt traust á viðreisn bankanna og íslensku krónunnar, og álykti því, að seðlar þeirra verði verðlausir með öllu. Þess vegna er líklegt, að þeir heimti út fje sitt til þess að bjarga því, sem hægt er.

Með hækkandi gengi íslenskrar krónu er þar á móti líklegt, að þeir fái von um, að seðlarnir nái fullu gildi, og láti því bíða að taka út, í þeirri von, að geta bjargað öllu.

Bankarnir hafa gefið það upp, að þeir hafi tapað 700000 kr. næstliðið ár á sölu erlends gjaldeyris.

Á meðan ekkert liggur fyrir um það, hvernig þetta er gert upp, þá er þetta óljóst atriði og lítið á því að byggja. Það á þó víst að sanna það, að það sje óþarft að vera að setja eftirlit með gengissölunni.

En það er þó auðsjeð, að bankarnir eru fúsari til að leggja sig fram fyrir annað frekar en landbúnaðinn, eftir því að dæma, sem fram kom við meðferð frv. um búnaðarlánadeildina.

Yfirfærslurnar munu að langmestu leyti gerðar fyrir verslunina, og þá sennilega sumpart til að kaupa miður þarfan eða alóþarfan varning. — Þar er ekki olnbogabarnið!

En einhvern veginn ná bankarnir þessu tapi upp. Ekki er tap á heildarreikningunum, heildarrekstri þeirra. — Jú, þeir ná þessu upp með því að leggja hærri og hækkaða vexti á lán, sem ekkert eiga skylt við tapið.

Ef það er rjett, að bankarnir tapi stórfje á gengisverslun fyrir einstaka atvinnugrein, að sumu leyti óþarfa — jafnvel skaðlega — og leggi þetta tap aftur — með okurvöxtum sínum — á óskyld viðskifti, — mun þá ekki ástæða til að hafa eftirlit með gengisskráningunni?

Jeg vona nú, að hv. þm. skilji, hvers vegna og að hverju leyti jeg tel ófullnægjandi skipað til með frv. þessu, og hvers vegna jeg hefi viljað láta þetta um mælt.

Jeg hefi sagt það til að sýna fram á, hvað það er óeðlilegt, að bankarnir hafi meirihlutaráð um gengismálið.

Jeg hefi sagt það til að sýna, hver það er í raun og veru, sem hefir styrk eða stuðning af gengisfallinu, og hver tapið, — sagt það til að benda á, hvað eðlilegt og rjettmætt það væri að setja lágmark fyrir gengisfallinu, segja við bankana: Hingað og ekki lengra.

Jeg hefi sagt það til að benda á, hverjir muni hafa ávinning af gengissveiflunum og hverjir tap, og hvað það væri rjettmæt krafa til bankanna að halda uppi stöðugu gengi.

Jeg hefi sagt það til að sýna, hvað hæpið er með árangurinn af frv., en það veltur aftur á því tvennu: 1. hversu heppilega stjórnskipaði maðurinn verður valinn, og 2. hversu nefndin beitir — að hve miklu leyti og hve heppilega — íhlutunarrjetti sínum.

Jeg fylgi þó frv. og mæli með því sem spori í rjetta átt — aðeins ekki fullstignu spori.

Frá minni hendi er það að skoða sem aðeins það mesta, sem hægt er að koma fram að þessu sinni.

Reynslan sýnir, að hverju haldi frv. kemur. En það þarf ekki að skoða þá reynslu, sem fæst, sem mælikvarða fyrir því, hvert gagn gæti orðið að slíkum ráðstöfunum, ef rjett og ítarlega væri til skipað, heldur árangur af frv. eins og það er og eins og það verður notað.

Jeg býst nú engan veginn við, að menn fallist að öllu á ýmsar þær skoðanir, sem jeg held fram, nje heldur að tækifæri sje til að gera upp þann skoðunarmun, nje heldur þörf, þar sem hann snertir ekki framgang málsins. Mun jeg því lítt hirða um að taka til andsvara, þótt aðrar skoðanir eða mótmæli komi fram.