03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Halldór Stefánsson:

Jeg þarf að bera af mjer sakir, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) bar á mig. Jeg talaði um orðróm, sem gengi um bæinn, og ef hv. þm. ætlar, að jeg hafi búið hann til, má hann trúa því fyrir mjer. Jeg skýrði aðeins frá þessu eins og mjer hefir borist það til eyrna, en sagði það ekki sem mitt álit. (JAJ: Þá á það ekki við hjer).

Hv. þm. var að mótmæla skoðun minni, svo sem jeg hefði verið að tala um frumorsakir lággengisins. Jeg meinti ekki það, sem jeg sagði um gildi seðlanna, með tilliti til orsaka lággengisins. Jeg var að tala um það, hvers tjón eða ágóði lággengi seðlanna væri. Þess vegna var það, sem hann var að ræða um frumorsakir lággengisins, óþarft í þessu sambandi. Bjóst jeg varla við því, að menn mundu fallast að öllu á þær skoðanir, sem jeg hjelt fram, enda skiftir það ekki máli með tilliti til þess, hvort frv. gengur fram eða ekki.

Þá vil jeg drepa á örfá atriði úr ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Hann kvað gengislækkunina ekki aðeins lækkun á verði seðlanna, heldur allra innlendra skuldakrafna. En af hverju ætli það sje, nema því, að allar innlendar kröfur eru greiddar með þessum „föllnu“ seðlum. Hæstv. fjrh. vildi ekki fallast á, að gengislækkunin væri gróði bankanna í því sambandi, sem jeg talaði um. Nú skulum vjer hugsa oss, að Íslandsbanki tæki lán erlendis til þess að leysa inn þær miljón krónur í seðlum, sem eiga að fara úr umferð á ári hverju. Þessi miljón er í upphafi gefin út með fullu gullgengi. En nú þarf bankinn ekki að taka nema 500 þús. kr. lán til þess að leysa inn þessa miljón í seðlum. Er það gróði? Ekki í þeim skilningi, að bankinn eigi 500 þús. kr. eftir af þeirri miljón, sem hann dregur inn. Nei, hann hefir tapað því fje áður. Með gengislækkuninni er bankinn því að slá meir og meir undan skuldbindingum sínum, til þess að halda sjer við.

Hæstv. fjrh. áleit, að hindranir á yfirfærslum hefðu orðið til ills. Það má vera, að svo hafi verið, — en af hverju stafar það? Af því að hverjum einum var þá leyft að braska með gjaldeyri. Jeg ætlast ekki til, að neinum öðrum en bönkunum sje leyft að fara með gjaldeyrisverslunina. En meðan hún var frjáls, var von, að svo færi, sem fór.

Jeg var svo ógætinn að segja, að bankarnir hefðu ekki tapað á síðustu árum. Hafði jeg þá ekki síðasta ár áhuga sjerstaklega, enda eru reikningar bankanna fyrir það ár ókomnir út. Er því ekki ástæða til að saka mig um ógætni, þó að svo kunni að hafa verið á síðasta ári, enda munu reikningsskil þess árs ekki opinberlega birt enn. En þó svo væri, að annarhvor bankinn hafi nú tapað á heildarrekstri sínum, þá er það ekki vegna þess, að þeir hafi ekki haft fullan vilja og viðleitni á að ná því tapi aftur með hækkuðum vöxtum.