02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla mjer fyrst að svara þeim andmælum gegn brtt. mínum, er fram hafa komið, og þá fyrst og fremst háttv. 2. og 3. þm. Reykv. (JBald og JakM). Þeir höfðu á móti þeirri till. minni, að fje væri varið úr landhelgissjóði til landhelgisvarna og hjeldu því fram, að slíkt stríddi á móti lögum sjóðsins. Jeg hafði athugað þetta mál og get alls ekki fallist á, að þetta sje rjett. Háttv. sjútvn. hefir líka komist að sömu niðurstöðu og jeg um þetta efni, enda þótt hún væri mjer ekki sammála um upphæðina á framlagi ríkissjóðs. Þetta er líka áreiðanlega heimilt samkv. lögum landhelgissjóðs. í upphafi var svo ákveðið, að sjóðurinn skyldi á sínum tíma leggja fram fje til strandvarna, þegar löggjafarvaldinu sýndist svo. Þessu var breytt 1915 á þann hátt, að ákveðið var að verja sjóðnum til þess að koma upp einu eða tveimur strandvarnarskipum. Það skal vera á valdi löggjafarvaldsins, hvenær þetta skuli framkvæmt og hve miklu fje skuli varið úr sjóðnum til landhelgisvarna. Þessi ákvæði sýna ljóslega, að ekki er einungis ætlast til, að skipin sjeu keypt, heldur líka, að fje landhelgissjóðs sje notað til strandvarna. Það er engin vörn út af fyrir sig, að kaupa skipin; vörnin byrjar ekki fyr en skipin taka til starfa. Lögin 1915 höfðu fyrir augum að verja fyrst fje til skipakaupa. Nú stendur svo á, að einu slíku skipi, Þór, hefir verið komið upp án þess að þurft hafi að taka af fje sjóðsins. Allir hljóta að sjá, hve fráleitt er, að ekki megi verja fje til að styrkja þetta skip, af því að ekki þurfti að verja fje til að kaupa það. Sjútvn. hefir orðið mjer sammála um þetta, eins og jeg veit að allir verða, sem kynna sjer málið með athygli. (JakM. Nei).

Þá vildi jeg minnast á önnur andmæli, sem fram hafa komið gegn þeirri brtt. minni að gera þá aths. við liðinn til alþingiskostnaðar, að forsetum sje heimilt að fella niður prentun umræðupartsins. Jeg vil endurtaka það, að eftir reynslu undanfarinna ára er fjárveiting sú, sem ætluð er í þessu skyni, of lág, ef ekki er sparað hjer á einhvern hátt.

Ýmislegt hefir verið haft á móti þessari tillögu, bæði hvað form og efni snertir. Mun jeg nú fyrst snúa mjer að mótbárunum gegn forminu. Aðalmótbáran er þá sú, að óheimilt sje að breyta gildandi lögum með fjárlögum, og forseti hljóti því að vísa þessari till. frá. Alt er þetta á misskilningi bygt. Í lögum er aðeins ákveðið, að Þingtíðindin sjeu prentuð, en ekki hvenær það skuli verða. Hjer er aðeins farið fram á að fresta prentun umræðupartsins árið 1925, ef forsetar vilja svo vera láta. Breyting laga með fjárlögum kemur því ekkert þessu máli við.

Í öðru lagi er það ekki rjett, að ekki megi breyta gildandi lögum með ákvæðum fjárlaga. Þessi fullyrðing andstæðinga minna mun vera bygð á lögskýringu, sem gefin er í stjórnlagafræðinni. Hvergi er sagt, að þetta sje óheimilt, þótt skoðanir geti verið skiftar um, hve hagkvæmt það sje. Það, sem miklu máli hlýtur að skifta í þessu efni, er það, hvort dæmi eru til þess, að svo hafi verið gert áður. Og það verður einmitt uppi á teningnum, og einmitt á þann hátt, sem þó er mjög varhugaverður. Það er ætíð varhugavert að svifta einstaka menn þeim rjetti, er þeir höfðu samkvæmt gildandi lögum, með fjárlögum. Þetta var þó gert á þinginu 1920, þegar gjald það, er sjúklingar á Kleppi áttu kröfu til vistar fyrir samkvæmt lögum, var hækkað með ákvæði í fjárlögum. Þá var ekki getið um, að slíkt væri ólöglegt. Ekki getur því forseti haft rjett til að vísa málinu frá af þessum ástæðum. Fjárlögin eiga að vera einu lögin, sem tekjur og gjöld ríkisins á ári hverju eru talin í. Þetta er skýlaust ákveðið, þótt því sje slælega framfylgt. Og af því verð jeg að vera þeirrar skoðunar, að ef menn vilja fresta framkvæmd einhvers lagaatriðis, er hefir kostnað í för með sjer, þá eigi það að gerast með fjárlögum. Og þar sem áætlun fjárlagafrv. um alþingiskostnað 1925 reynist of lág, er aðeins um tvent að gera, að hækka eða spara. Jeg álít, að ekki sje leyfilegt að hafa of lág áætlunarákvæði, og veit, að þessi skoðun hefir fult fylgi. Hefir nú verið áformað að taka öll útgjöld upp í fjárlögin, þótt þau hafi áður verið greidd samkv. eldri lögum. Þannig hefir hv. fjvn. ekki viljað veita fje til skipulags kaupstaða og kauptúna, enda þótt svo væri ákveðið í lögum. (TrÞ: Og fjvn. ætlar að gera meira). Já, og hún ætlar að ganga lengra í þessu efni.

Önnur mótbára, sem komið hefir fram gegn frv., frá hv. 2. þm. Reykv., er sú, að þessi till. sje sama efnis og frv., sem áður hefir verið felt. Þessi mótbára er sanni nær en aðrar, sem fram hafa komið, og kvað hana snertir mun jeg beygja mig fyrir úrskurði hæstv. forseta.

Þá vík jeg að því, er haft hefir verið á móti efni till. Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að allur sparnaður af þessu yrði um 6–8 þús. kr. Þetta er ekkert nema blekking, bæði gagnvart sjálfum sjer og öðrum. Kostnaðurinn hefir verið 25 þús. kr. að meðaltali undanfarin ár. Vjelritun mundi fást fyrir 2000 krónur. Sparnaður yrði ekki minni en 20 þús. kr. (ÁÁ: En lengri nefndarálit og þing annaðhvert ár?). Jeg skal víkja nánar að því síðar.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði einnig um, að með þessu væri verið að loka þinginu. Jeg hygg, að líkt sje ástatt um margar þjóðstofnanir og Alþingi, ef þetta nær fram að ganga. Má þar t. d. nefna hæstarjett. Engin skylda ber honum til að birta ræður þær, sem haldnar eru þar við flutning mála. Aðalatriðið er, að Alþingi, eins og hæstirjettur, fari fram í heyranda hljóði, til tryggingar fyrir því, að þar fari ekkert fram, sem leyna þarf. Sú trygging er ekki skert með þessari till.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um, að með þessu væri gengið á rjett deildanna. Þetta er ekki rjett, því að í hvaða lagafrv. sem er, fjárlagafrv. sem öðrum, má setja inn einstök ákvæði hvenær sem er í meðferðinni. Í öllum lögum geta því verið ákvæði, sem hafa aðeins fengið eina umr. í hvorri deild, hvort sem eru ný lög eða breytingar á eldri lögum, og er þetta fullkomlega löglegt. Get jeg svo látið útrætt um brtt. mínar.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi gera trausts- eða vantraustsyfirlýsingu úr atkvgr. um brtt. mína um að forsetar geti ákveðið, að prentun á umræðuparti Þingtíðindanna megi falla niður. (JBald: Ef til kemur). Mjer þykir þekkingu hv. þm. á þingvenju og þingsiðum næsta áfátt. Hann hefir þingmannsrjett til þess að flytja formlega vantraustsyfirlýsingu á stjórnina, en stjórnin hefir aftur þann rjett, að hún sker sjálf úr, hvort hún telur atkvgr. um tillögu í einhverju máli fela í sjer traust eða vantraust á henni. Það er ekki á valdi hv. 2. þm. Reykv. að skera úr því, jafnvel ekki þó að satt væri, það sem einhversstaðar hefir um hann verið sagt, að hann væri fær um að gera það einn, sem aðrir 41 gætu ekki. Það er ekki fyr en hann er kominn sjálfur stjórnarsess, að hann getur tekið þessa ákvörðun.

Sami hv. þm. sagði í sambandi við tillögu um skáldalaun til handa Þorsteini Gíslasyni, að Íhaldsflokknum hefði verið mikið kappsmál að losna við hann úr ritstjórastöðu. Það er leiðinlegt fyrir hv. þm. að reka sig svo illilega á sannleikann, að það má sanna strax, að hann fer með rangt mál. Það er sannanlegt, að eigendur Morgunblaðsins höfðu sagt ritstjóranum upp löngu áður en Íhaldsflokkurinn var stofnaður, svo að flokkurinn gat engin áhrif haft á það mál. Mjer er ekki heldur kunnugt um, að neinn alþingismaður í Íhaldsflokknum eigi í Morgunblaðinu, en þori þó ekki að fortaka það alveg. Jeg get fullvissað hv. þm. um það, að haldi hann, að uppsögn Þorsteins Gíslasonar hafi verið gerð þeim þá ófædda Íhaldsflokki til þægðar, þá fer hann mjög villur vegar. Eigendur blaðsins hafa einir ráðið þessu, og þeir um það, hvað þeir telja fyrirtæki sínu fyrir bestu.

Þá vil jeg víkja lítið eitt að hv. þm. V.-Ísf. Hann var að bera saman 2 skóla hjer í bænum, og þekki jeg annan þeirra nokkuð vel, en hinn ekki. Hv. þm. kvað skólana svipaða að því leyti, að báðir væru aðallega almennir unglingaskólar. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. sje svo kunnugur samvinnuskólanum, að hann fari hjer rjett með um starfsemi hans. En ef fleiri háttv. þm. eru jafnókunnugir iðnskólanum og hv. þm. V.-Ísf., þá skal jeg skýra lítið eitt frá fyrirkomulagi hans. Á þann skóla ganga piltar, sem stunda iðnnám. Nú er venja, að þeir sjeu bundnir með 4 ára námssamningi og sæki skólann öll 4 árin. Skólinn er ekki heldur almennur unglingaskóli fyrir þessa nemendur, því að meira en helmingur af námstímanum fer til þess að kenna ýmsar sjerfræðigreinir, er iðnaðarmenn þarfnast, svo sem dráttlist og aðra sjerfræði, sem er mismunandi eftir því, sem við á í hverri grein. Því fer þess vegna fjarri, að iðnskólinn sje almennur unglingaskóli.

Um tillögur þær, sem komu fram við 2. umr. um lækkun á styrk til ýmsra skóla, skal jeg geta þess, að jeg teldi skaðlaust, þó að verslunarskólinn og samvinnuskólinn væru færðir saman í það horf, að nemendum yrði aðeins veitt inntaka annaðhvert ár. Skólarnir eru báðir tveggja ára skólar, og gætu þeir þá starfað þannig, að annað árið yrði aðeins yngri deild, en hitt árið eldri deild. En þetta fyrirkomulag gæti ekki komið til í iðnskólanum. Í honum eru meira en hundrað nemendur, er sækja hann öll 4 námsár sín. Kæmi þeim því mjög illa, ef skólinn yrði t. d. feldur niður fyrsta námsárið, svo að þeir hefðu ekki lokið við meira en 3 bekki að loknum námstíma.

Þá mintist hv. þm. V.-Ísf. á stjórnarskrárfrv., er felt hefir verið í hv. Ed. Taldi hann, að það mundi hafa orðið til verulegs sparnaðar að afgreiða það frv. og taldi það nær en að bisa við lítilfjörlegan hjegómasparnað, er hann nefndi svo. Hv. þm. sagði, að ef stjórnarskrárbreytingin hefði verið samþykt, hefði af því hlotist 400 þús. kr. sparnaður á þessu kjörtímabili, og átti þar við það, að niður mundi hafa fallið þinghald árin 1926 og 1928. Jeg tel víst, að hv. þm. Str. (TrÞ) mundi hafa kallað það fljótfærni af mjer, ef jeg hefði haldið því fram, að afgreiðsla stjórnarskrárinnar mundi hafa í för með sjer niðurfall þingsins 1926. Ef nú er afgreitt frv. um stjórnarskrárbreytingu, yrði stofnað til nýrra kosninga og þing kvatt saman 1925 til samþyktar eða synjunar á frv. Nú eru þau stjórnarskipunarlög hjer í landi, að leggja skuli fyrir hvert þing frv. til fjárlaga fyrir eitt ár, og hygg jeg, að engin stjórn mundi telja sjer fært að leggja fram á þingi 1925 fjárlagafrv. fyrir annað ár en 1926. En falli þing niður 1926, mundi þá 1. janúar 1927 renna upp yfir fjárlagalaust land. Því getur þingið 1926 ekki fallið niður, ef stjórnarskrárbreyting er samþykt nú. Ef svo færi, gæti þinghald ekki fallið niður fyr en 1927, sem er síðasta þingið á þessu kjörtímabili. Það yrði því meiri framtíðarsparnaður en nútíðarsparnaður að samþykt stjórnarskrárbreytingar, sem ákvæði þinghald annaðhvert ár. Þar sem þetta frv., sem gæti leitt til sparnaðar 1927, er nú fallið, vona jeg, að það verði ekki misvirt við mig, þó að jeg reyni að bisa við sparnað 1925. (ÁÁ: Annað frv. lifir).

Jeg skal þá víkja nokkuð að almennum athugasemdum, sem gerðar hafa verið við ræðu mína í gær. Skal jeg reyna að vera stuttorður og lengja ekki umræðurnar óþarflega mikið. Um ummæli hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem vel var í hóf stilt, skal jeg einungis segja það, að þó að ríkisbókhaldið vilji ef til vill ekki viðurkenna, að niðurstaða mín sje rjett, eða haldi fram, að öðruvísi megi setja reikningana upp, þá fær það ekki á mig. Auðvitað má setja reikningana upp á fleiri vegu en einn, og hefi jeg sett þá upp eftir þeirri reglu, sem fylgt var við samningu landsreikningsins áður en ríkisbókhaldið varð til, eða alt frá því er Ísland fjekk fjárforræði og til ársloka 1916, enda hafði hv. 2. þm. Rang. (KlJ) ekki á móti því frá sínu sjónarmiði. Þá voru vextir og greiðslur af lánum altaf taldar með gjöldunum, og það talið tekjuhalli, sem á vantaði, að tekjurnar hrykkju fyrir þeim gjöldum og öðrum. Þetta er hin varkára reikningsfærsla. Hún beinir þeirri kröfu til vor, að vjer höldum fjárhagnum í því horfi, að auðið verði að gera upp reikningana oss að vansalausu. Jeg fylgi því þessari reglu, þar sem hún er bæði gömul og þjóðinni hollust.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) vildi vísa frá kjósendum þeirri ábyrgð, sem jeg vildi leggja þeim á herðar fyrir það, sem orðið hefir. Það má vera, að ekki sje rjett að deila á kjósendur fyrir þetta, og jeg get með ánægju gefið þeim þann vitnisburð, að þeir tóku við síðustu kosningar allfast í taumana. Vænti jeg þess, að þetta þing haldi áfram að sýna, að það sje varkárara í fjármálum en síðustu þing hafa verið. Það er því ef til vill ómaklegt að ásaka kjósendur nú, en þó tel jeg, að þeir sjeu ekki alveg sýknir saka. Þetta viðurkendi hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), en sagði þó, að ábyrgðin lenti aðallega á fjölmennasta flokknum, sem jeg teldist til. Það þarf ekki litla gleymni til þess að halda slíku fram. Flokkur sá, sem jeg er í, var ekki til fyr en á þessu þingi, en þó nokkur fyrirrennari hans, sparnaðarbandalagið. Og ef sjerstaklega ætti að saka þann hóp um ljettúð í fjármálum, þá verða þeir fyrir sökinni, sem síst skyldi, og veit jeg, að þetta muni alment viðurkent. Annars hefi jeg ekki haft þá ánægju fyr en nú, að teljast til fjölmennasta flokksins í þinginu. Þegar jeg kom fyrst á þing. 1921, var enginn flokkur hjer á þingi, sem jeg gat talist til, og fór jeg þá í hóp flokksleysingja. Í þeim hóp voru ýmsir góðir menn, en hann var þó ekki samstæðari en það eða samhentari um landsmál, að við hv. 2. þm. Reykv. vorum saman í þeim hóp fyrstu daga þingsins, eins ólíkar skoðanir og við höfðum og höfum á landsmálum. Svona var flokkaskipunin, þegar jeg kom á þing 1921.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir fengið svo hvöss svör frá hæstv. atvrh. (MG), að jeg þarf ekki á að bæta. Jeg vil þess vegna svara því einu, sem hann beindi sjerstaklega til mín, enda er hæstv. atvrh. maður til að svara fyrir sig. Hv. þm. fann að því við mig, að jeg rjeðist í þingræðu persónulega á fjarstadda menn, sem ekki eiga kost á að bera hönd fyrir höfuð sjer. Þessu vil jeg alveg vísa á bug. Jeg ber ekki kala til neins manns og ræðst ekki heldur persónulega á menn. En það nær engri átt, að ekki megi ræða á þingi um opinber mál vegna þess, að einhver maður hefir einhverntíma haft þar hönd í bagga, sem er ekki staddur í þingsalnum. Jeg get því alls ekki fylgt þeirri reglu, en aftur mun jeg jafnan leyfa þeim mönnum, sem þykjast órjetti beittir af mjer, allar þær varnir gagnvart mjer, sem þeir kynnu að óska.

Hv. þm. Str. kvað mig hafa fundið að þriggja manna stjórnarfyrirkomulagi, en gengið svo sjálfur í þriggja manna stjórn. Vjer verðum að búa við þá stjórnarskrá, sem vjer höfum, og jeg veit til þess, að jafnvel sumir flokksmenn hv. þingmanns draga í efa, að leyfilegt sje samkvæmt stjórnarskránni að mynda stjórn með færri en þrem mönnum. Einnig líta margir svo á, að enn sjeu í gildi lög, sem eru eldri en síðasta stjórnarskrá, sem kveða svo á, að ráðherrar skuli vera þrír, og ekki eru numin úr gildi með stjórnarskránni, enda fara ekki í bága við hana. Jeg mun gera það, sem í mínu valdi stendur, meðan jeg á sæti í stjórninni, til þess að ókostir þessa fyrirkomulags bitni sem minst á landsmönnum.

Þar sem hv. þm. gerði að umtalsefni þá stöðu, sem jeg hefði áskilið mjer í ráðuneytinu, þykir mjer hlýða, að þetta komi rjett fram. Það varð að samkomulagi í stjórninni, að hinir 2 ráðherrarnir tækju ekki ákvörðun um fjáreyðslu utan fjárlaga eða umfram ákvæði þeirra, nema með samþykki fjrh. Þetta tekur auðvitað ekki til þess, þar sem áætlunarupphæðir eru í fjárlögum og fara fram úr áætlun, heldur er átt við hitt, þegar ráðherra tekur ákvörðun um fjáreyðslu umfram fjárveitingu. Þetta samkomulag er auðvelt að hafa í ráðuneyti úr einum flokki, þar sem hver ráðherra treystir öðrum, en það er ljóst, að erfitt er að hafa það í samsteypustjórn, þar sem hver er úr sínum flokki og einn býst ef til vill við, að annar muni draga fram hluta síns flokks. En gagnvart Alþingi getur enginn ráðherra tekið sambærilega afstöðu, því að þingið eitt hefir fjárveitingarvaldið, og fyrir því verður hver stjórn að beygja sig. Er því ekki unt að halda því fram, að hæstv. atvrh. hafi ekki verið neyddur til að hlíta ákvæðum undangenginna þinga um fjármál, þegar hann tók við stöðunni.

Hv. þm. taldi skoðanir mjög skiftar innan stjórnarinnar og skaut um leið fram einni samlíkingu, sem var mjög samrýmanleg smekk hans og ber órækan vott um smekkvísi hans. Það er nú öllum vitanlegt, að aldrei verða fundnir 3 menn, er hafi nákvæmlega sömu skoðun á öllum málum. En það skal jeg segja, að í skoðunum sínum er þessi stjórn miklu samstæðari en átt hefir sjer stað um fyrverandi samsteypustjórnir, sem engin furða er. Um aðalmálefnið, viðreisn fjárhagsins, eru skoðanir ráðuneytisins svo samfeldar, að engu er áfátt.

Jeg hefi þegar svarað ummælum hv. þm. Str. um tillögu mína um ræðupart Þingtíðindanna. Jeg skal aðeins bæta því við, að jeg veit, af hverju honum og öðrum flokksmönnum hans er svo ant um, að tillagan komi ekki undir atkvæði. Það stendur svo á því, að tillagan fer fram á svipað, sem samþykt var nýlega í hv. Ed. og hjer í hv. deild á þingi 1922. Jeg var þá einn flm. að því frv., ásamt öðrum fleiri, og var studdur af ýmsum góðum mönnum hjer í hv. deild. Á meðal þeirra voru 3 flokksbræður hv. þm. Str., sem enn eiga sæti hjer í deildinni, þeir hv. þm. Mýra. (PÞ), sem var einn meðflm. minna, hv. þm. S.-Þ. (IngB) og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Þessir greiddu allir oftsinnis atkvæði með frv. við nafnakall. Það væri því óþægilegt fyrir Framsóknarflokkinn, ef þessari tillögu væri haldið fram, eftir að búið er að snúa málinu svo með samþykt innan flokksins, að þessir 3 hv. þm. sáu sjer ekki annað fært fyrir nokkrum dögum en að greiða atkvæði gegn þessu sama frv., svo að þeir þyrftu að greiða aftur atkvæði á móti því hinu sama. Nema þeir þá líti svo á, að fjárhagurinn hafi batnað svo mjög í stjórnartíð Framsóknarflokksins 1922 og 1923, að það, sem þá var nauðsynlegur sparnaður, sje nú ónauðsynlegt vegna hins ágæta sparnaðar þeirrar stjórnar.

Hv. þm. Str. kvað mig fljótfæran, þar sem jeg hefi flutt brtt., er hæstv. forseti (BSv) hljóti að vísa frá, og hafi jeg hlaupið apríl með því. En þá þykir mjer skörin vera farin að færast upp í bekkinn, með skítnum á, þegar hv. þm. fer að brigsla öðrum um fljótfærni. Það er svo um menn, sem eru fljótfærir í mörgu, að þeim er virt til vorkunnar, þó að þeir sjeu fljótfærir í fleiru. Jeg geri ráð fyrir, að þessi ásökun hv. þm. beri meiri keim af hans fljótfærni en minni. Að minsta kosti er það víst, að þegar jeg lít yfir æfiferil minn, þá get jeg verið með rólegum huga út af því, að fljótfærni hefir mjög sjaldan orðið mjer að tjóni.

Jeg ætla annars ekki að tefja tímann með því að telja hjer upp nein sjerstök dæmi um fljótfærni hv. þm. Str. (TrÞ). Þess þarf heldur ekki, því eins og skáldið kvað: „Þjóðin mun þau annarsstaðar finna.“ Jeg get annars ekkert furðað mig á því, þótt hv. þm. Str. ýfist nokkuð þegar farið er að ræða þessi efni. Hann er, eins og menn vita, sá forsmáði biðill. Hann beið hryggbrot í biðilsför einni til núverandi atvinnumálaráðherra árið 1922, en hefir ekki haft manndóm til að taka því á rjettan hátt. En með því, að hv. þm. er enn maður ungur, þá er ekki örvænt um, að honum kunni að lærast að taka betur slíkum áföllum. Get jeg bent honum á ýmsa menn í flokki hans, sem gætu orðið góðir lærimeistarar í þeim efnum, því að það hafa verið farnar fleiri árangurslausar biðilsfarir en þessi 1922, sem jeg nefndi. Jeg man að tveir hv. flokksbræður þessa þingmanns komu til mín í samskonar erindagerðum árið 1917, og er jeg hafnaði bónorðinu, þá tóku þeir því eins og góðum karlmönnum sæmir. Hefi jeg ekki orðið þess var, að þeir beri neinn kala til mín fyrir þetta. — Jeg vil nú ráðleggja hv. þm. Str. að snúa sjer til þessara manna, og munu þeir sjálfsagt, borgunarlaust, geta kent honum að bera slík vonbrigði á viðeigandi hátt.