05.05.1924
Neðri deild: 63. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg á hjer brtt. á þskj. 532, við 6. gr. frv. Er hún raunar ekki stórvægileg, en miðar að því að gera væntanlegri nefnd auðveldara að nota sjer heimildina í 4. gr. frv., að ná yfirráðum yfir gjaldeyrinum. Eins og frv. er nú úr garði gert, þá er það ókleift, þar sem nefndin er skuldbundin um ótakmarkaðan tíma að leggja mönnum til jafnmikinn gjaldeyri eins og lagður hefir verið inn, ef þeir þurfa á honum að halda. Þessu vil jeg breyta svo, að skylda nefndarinnar til að gera þetta sje bundin við ákveðinn tíma, sem jeg legg til, að verði 6 mánuðir. Jeg legg auðvitað ekki mikið kapp á það, hvort hv. deild samþykkir þetta eða ekki, en jeg vil aðeins benda henni á, að án þessa ákvæðis, eða annars viðlíka, verður lítið úr því, að heimildin í 4. gr. frv. verði notuð.

Í sambandi við brtt. á þskj. 524, frá háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), skal jeg aðeins segja það, að mjer þykir ekki líklegt, að bankarnir geti sætt sig við þá skipun nefndarinnar, sem þar er stungið upp á, og þeir munu ekki telja sig skuldbundna til að selja gjaldeyri eftir mati slíkrar nefndar. En fari bankamir ekki neitt eftir gengisskráningu hennar; þá fæ jeg ekki annað sjeð en hún sje harla þýðingarlítil.