06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. landsk. (SE) mintist á það, að eins og nú væri ástatt, þá mundu þeir atvinnurekendur hjer á landi, sem eiga erlenda mynt, ekki sækjast eftir því að fara framhjá bönkunum með hana. Þetta mun vera rjett. En líkt hefir þó átt sjer stað áður, að menn hafi forðast bankana um kaup og sölu erlendrar myntar. En það var bönkunum sjálfum að kenna; þeir gerðu of mikinn mismun á kaupverði og söluverði myntarinnar. Þá reyndu menn að fara nýjar leiðir í þessu efni, þannig, að minna skarð yrði höggið í eignir þeirra. Þetta hefir nú breyst þannig, að jeg hygg, að ekki sje ástæða til þess að óttast, að bankarnir fái ekki erlendan gjaldeyri þeirra atvinnurekenda, er njóta lánstrausts hjá þeim. Þó kunna þeir menn að reka atvinnu hjer á landi, sem fá rekstrarfje sitt annarsstaðar en frá bönkunum hjer, eða sem sje erlendis. Það var annars aðallega 6. gr. frv., sem jeg vildi gera að umtalsefni. Í henni er ákvæði, sem jeg tel mikilsvert. Stjórninni er þar heimilað meðal annars að heimta allan erlendan gjaldeyri þeirra, er hjer á landi búa, sjer afhentan. Eins og öllum hv. deildarmönnum er kunnugt, þá er það svo, að margar kaupmannaverslanir og kaupfjelög þessa lands hafa að meira eða minna leyti bein viðskifti við erlend verslunarhús, og þurfa því oft að inna þar ýmsar greiðslur af hendi. Þetta gera þessi verslunarfyrirtæki oft með þeim hætti, að þau senda til útlanda vörur til þess að selja þar, og er andvirðið, sem greitt er í erlendri mynt, látið ganga upp í viðskiftin. 6. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að þeir, er þurfi að nota þann erlenda gjaldeyri, er þeir eiga, til þess að greiða með nauðsynjavöru eða skuldir, er stofnaðar eru fyrir slík viðskifti, megi hafa umráð yfir gjaldeyri sínum í því skyni. Tel jeg það mjög mikilsvert, að ákvæðið fái svo að vera. En í sömu gr. frv. er ennfremur gert ráð fyrir því, að nefndin geti einnig tekið þennan gjaldeyri, ef hún um leið tryggir eiganda hans yfirfærslu á gjaldeyri í sama skyni. Jeg vildi leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar, hvort hún líti svo á, að sá mismunur á kaupverði og söluverði myntarinnar, sem þá kann að koma fram, er yfirfærslan á sjer stað, eigi að greiðast af eigandanum, eða hvort hann eigi að fá útgjaldalausa yfirfærslu að því er hann snertir á samsvarandi upphæð og þeirri, er af honum hefir verið tekin. Jeg lít svo á, að eftir anda nefndrar gr. frv. eigi eigandi myntarinnar að fá samsvarandi upphæð þeirri, er frá honum var tekin, yfirfærða frádráttarlaust án sjerstaks kostnaðar fyrir hann, hver sem mismunur kaup- og söluverðs kann að vera og án tillits til yfirfærslukostnaðarins. Jeg kynni því betur, að það kæmi fram í umr. um þetta mál, hvernig hæstv. stjórn lítur á þetta ákvæði gr., því væri svo, að eigandi erlends gjaldeyris, sem skyldur er samkv. lögum að láta hann af hendi, fengi yfirfærslu aðeins með því móti að kosta hana eftir þeirri skráning, sem er á gjaldeyrinum, þegar yfirfærslan fer fram, — eins og sá maður mundi þurfa að gera, er að öðru leyti enga völ ætti á gjaldeyri erlendis, — þá er, að því er mjer sýnist, gjaldeyriseigandanum þar með órjettur ger og að óþörfu lagður á hann skattur til bankanna.