02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg var einn af þeim hv. þm., sem höfðu beðið sjer hljóðs í gærkvöldi, áður en fundi var slitið. Því var það, að háttv. 3. þm. Reykv. gat þess, að því hefði verið skotið að sjer undir umræðunum, að jeg skyldi sparnaðarins vegna fara ofan í Kringlu og halda mína ræðu þar. Þetta mun annars vera í fyrsta sinn, að mælst er til þess, að þingmenn haldi þingræður sínar utan þingsalsins. Því þetta verð jeg að skoða sem tilmæli frá hv. 3. þm. Reykv. sjálfum, því vitanlega hafði enginn skotið þessu að honum. En ekki get jeg láð hv. þingmanni, þó hann vildi ekki þjóna sparnaðarviðleitni sinni á þann hátt að halda sína ræðu niðri í Kringlu, því þá hefðu hans háttvirtu kjósendur, sem staddir eru hjer í nálægð við hann, farið á mis við allan þann vísdóm, sannleika og sparnað, sem fram kom í ræðu hans, því þrátt fyrir besta vilja frá hans hendi, mundi hann húsrúms vegna ekki hafa getað boðið þeim öllum inn í Kringlu. Jeg vona annars, að hv. 3. þm. Reykv. misvirði það ekki við mig, þó að jeg hafi metið hann svo mikils, að minnast á þessi orð hans hjer úr þingsæti mínu, úr því hann gaf tilefni til þess.

Annars ætla jeg að minnast lítillega á brtt. á þskj. 261, undir rómv. XXXIX, sem fer fram á hækkun við eftirlaun fyrverandi hjeraðslæknis Sigurðar Magnússonar frá Patreksfirði. Jeg býst ekki við, að hv. deild undri það neitt, þó að jeg flytji þessa till., þar sem þessi maður hefir verið læknir í mínu hjeraði ekki minna en 24 ár. Sýndi hann í stöðu sinni frábæran dugnað og skyldurækni og ljet hvorki slæmt veður eða aðrar tálmanir aftra sjer frá að gera skyldu sína. Og óhætt mun að fullyrða það, að hin erfiðu ferðalög yfir hálsa og heiðar að vetrarlagi, er hann varð að leggja á sig, hafi verið aðalorsökin til þess, að hann sá sjer ekki fært að vera áfram í því embætti, er hann hafði svo lengi þjónað með sjerstakri samviskusemi og dugnaði. Á seinasta þingi var samþykt að veita honum 500 kr. viðbót við eftirlaun hans, og var það álit mitt og annara þingmanna, að sú aukning væri til frambúðar, en þó undarlegt megi virðast, leit fjármálastjórnin svo á, að þetta ætti aðeins að vera í eitt skifti. Nú hefir þessi styrkur verið feldur niður, og hefði jeg gjarnan viljað flytja till. um sömu upphæð til þessa heiðursmanns, en vegna hins afarerfiða fjárhagsástands fer jeg aðeins fram á kr. 169,85, og er það svarandi því, sem eftirlaunaupphæð hans mundi aukast, ef honum væri reiknuð uppbót af þeim árum, sem hann var aukalæknir í Þingeyrarhjeraði með 1000 kr. launum. Jeg vona, að öllum finnist hjer mjög í hóf stilt og jeg mundi vera hv. deild mjög þakklátur, ef hún tæki vel í þessa málaleitun. Till. byggist á því, að reiknað verði með 40/60 af 1700 í stað 36/60. Það mun því öllum fullkomlega ljóst, að hjer er ekki farið fram á annað en sjálfsagða sanngirniskröfu. Jeg hefi átt tal við ýmsa hv. þm. um till. og komist að því, að þeir hafa á henni fullan skilning. Þegar viðkomandi heiðursmaður tók við embætti, gilti tilskipun um eftirlaun frá 1855, og voru þau ákvæði nokkuð á annan veg en þau, sem nú gilda. Jeg get vel látið þau orð frá mjer fara, að svo framarlega, sem nokkur embættismaður á eftirlaun skilin, þá á hann að fá þau. Við sem höfum notið hans í 24 ár, getum best borið um, hvernig hann hefir reynst sem embættismaður. Og trúa mín er það, að mörgum í hjeraði hans detti stundum í hug, er þeir hugsa til hans sem fyrverandi læknis síns: „Enginn veit hvað átt hefir fyr en mist hefir.“ Treysti jeg sanngirni deildarinnar, að hún samþykki þessa till.

Jeg á ásamt fleirum brtt. á þskj. 261, undir tölulið IV, um styrk til sjúkraskýla og læknisbústaða, að upphæð 20 þús. kr. Jeg verð að segja, að þó jeg sje meðflm. að þessari brtt., hafa mjer brugðist vonir um þetta mál, að því er snertir gerðir þingsins í þessu máli. En fjárhagnum er nú svo háttað, að maður verður að lúta að litlu og taka við því, sem kann að fást. Háttv. aðalflm. (JK) hefir þegar mælt með þessari till okkar, og er jeg honum sammála að undanteknu því, að þessum 20 þús. kr. skuli varið til fleiri en 2–3 eða 4 staða. Ef svo er, verður þessi styrkur einskis virði. Mjer skilst svo, að þessi styrkur geti varla orðið veittur fleiri en 3, ef að nokkru gagni á að koma þeim, sem hann fá. Eftir því, sem þessi byrjunarstyrkur verður minni, verður og byrjunargetan minni hjá þeim, sem fá hann. Þetta er flutt í þeim skilningi, að stjórnin taki við úthlutun þessara byrjunarstyrkja, og mjer hefir skilist svo, að áframhald eigi að verða á þessum styrkveitingum á næsta og næstu þingum, en ekki það, að þeir, sem nú fá þennan styrk, verði látnir bíða óákveðinn tíma eftir áframhaldi hans; en þeir eru víða um land, sem þessara styrkja hafa notið. Hæstv. forsrh. (JM) gat þess í gær, að heppilegra væri að fara þessa leið og styrkja þessi fyrirtæki smátt og smátt. Vitanlega er jeg því alls ekki sammála, en heldur en að fá ekkert, vil jeg þó fara þessa leið. Jeg hefi nú skýrt, hvað fyrir mjer vakir með afhendingu þessara styrkveitinga í hendur stjórnarinnar, en mjer þykir leiðinlegra, að hæstv. forsrh. (JM) er nú ekki viðstaddur, en þar sem tveir ráðherrar aðrir eru hjer viðstaddir, þykist jeg þó mega treysta því, að jeg hafi lagt þennan skilning minn fyrir alla stjórnina í heild.

Hjer er ekki þess að dyljast, að þegar hafist var handa til undirbúnings því, að læknisbústaður yrði reistur í Flatey, var búist við 1/3 kostnaðar sem styrk frá ríkinu eins og að undanförnu, en að þessi fjárhæð verður minni en gert var ráð fyrir þar vestra, segja háttv. þm. að komi af fjárhagsástæðum ríkisins í svip, en ekki því, að þingið hafi skift um skoðun í þessu máli. Jeg býst við, að það sje nú öllum jafnt ljóst sem áður, að trygging fyrir því, að lífi og heilsu almennings sje borgið, sje ein af aðalundirstöðunum fyrir velferð og velgengni þjóðfjelagsins, og þó margt verði nú felt hjer vegna örðugra fjárhagsástæðna, býst jeg þó við, að þetta verði samþykt, enda er þessari fjárveitingu mjög í hóf stilt.

Þá ætla jeg með nokkrum orðum að minnast á þær brtt., er hjer liggja fyrir. Er þá fyrst 5. liður undir rómv. II., af því, að háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) gaf mjer ástæðu til þess. Háttv. þm. sagði, að flokksmenn núverandi fjrh. (JÞ) hefðu ráðist á fyrv. fjrh. (Magnús Jónsson) út af ráðstöfunum hans á landhelgissjóðnum, en hin sama meðferð á sjóðnum ætti sjer stað, ef till. hæstv. fjrh. (JÞ) yrði samþykt. En jeg verð að mótmæla því, að það sje árás á nokkurn mann, þó að þingmenn víti meðferð manna á málefnum á einn eða annan hátt. En þó að þessi liður yrði samþyktur, þá er þar ólíku saman að jafna, því að þá yrði fje þessu eytt samkvæmt vilja þingins; er það þvert öfugt við það að taka sjóðinn og eyða honum að öllum fornspurðum án vitundar þingsins. Jeg verð því að mótmæla þeim aðdróttunum háttv. 2. þm. Reykv., að þetta hafi verið persónuleg árás frá mjer. Þvert á móti. Heldur voru öll mín ummæli á síðasta þingi aðeins rjettlátar aðfinslur. Því hefir vitanlega verið haldið fram í þessari hv. deild, að ekki ætti að finna að gerðum þeirra, sem ekki gætu verið viðstaddir og svarað fyrir sig. En þetta er, eins og hæstv. fjrh. tók fram í dag, hin mesta fjarstæða um þá menn, sem með stjórnarvöld hafa farið, því að það er alt annað að finna að hinum opinberu gerðum manna en ráðast á þá persónulega, því að það er skylda þeirra að bera ábyrgðina, sem hleypt hafa asnanum inn í herbúðirnar.

Þá verð jeg að líta á þau ummæli hv. 2. þm. Reykv. sem staðlaust rugl, sem furðu gegndi, er hann gaf í skyn, að skrifstofustjóri hefði leynt lögum um landhelgisgæslu í skrifstofunni, svo þau ekki fyndust, og þar af leiðandi ekki hægt að bera till. þessa saman við þau. Eru allir sammála um, að þetta sjeu ómakleg ummæli í garð núverandi skrifstofustjóra. Annars verður að líta svo á, að lítil takmörk sjeu fyrir því, hvað hv. 2. þm. Reykv. leyfir sjer að bera á þá menn, er hann telur sjer andstæða.

Út af ummælum hv. þm. um tillögu hv. þm. Str. (TrÞ) um 2000 kr. skáldastyrk til Þorsteins Gíslasonar, að Íhaldsflokkurinn hafi viljað losna við Þorstein frá ritstjórn Morgunblaðsins, skal jeg leyfa mjer að fullyrða, að þau ummæli hafa ekki við nein rök að styðjast og er slegið fram algerlega út í loftið. Af því að jeg er í flokknum og veit, að þetta eru tilhæfulaus ummæli, leyfi jeg mjer að vísa þeim aftur heim til föðurhúsanna, því að jeg veit ekki til, að jeg hafi íhlutunarrjett, hvorki um ritstjóra Morgunblaðsins eða annara blaða. Annars er það undarlegt fyrirbrigði, eftir því sem blað hv. 2. þm. Reykv. hefir áður verið í garð þessa manns, að það skuli nú fara að gerast málsvari hans.

Viðvíkjandi till. XXXII á þskj. 261, frá háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og háttv. 2. þm. Eyf. (BSt), skal jeg taka það fram, að jeg er sammála þeim um það, að upphæðin til fjárkláðalækninga muni ekki verða of lág. En hinsvegar vil jeg mótmæla því, að kaup á málverkum og útrýming fjárkláðans sje nokkuð sambærilegt. Og mig undrar, að jafnskynsamur maður sem hv. þm. V.-Ísf. er, skuli bera þetta saman, því að slíkt nær engri átt, að bera saman þá bjargráðaviðleitni þjóðarinnar að losna við þennan hættulega gest landbúnaðarins og kaup á einum eða tveimur málverkum. Annars vil jeg taka það fram, til athugunar fyrir hæstv. stjórn, að hún geri alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að reyna að útrýma fjárkláðanum og ganga fast eftir því, að lögunum sje fylgt, en vitanlega sem kostnaðarminst að hægt er.

Út af XLIII. brtt. á þskj. 261, frá hv. þm. Str. (TrÞ), vil jeg taka það fram, að mig undrar, að slík tillaga skuli koma fram, og það úr þeirri átt. Sje jeg á henni, að rjettlætistilfinningin hefir mátt sín meira hjá hv. flm. en gamlar pólitískar væringar, því jeg býst við, að það sjeu miklir verðleikar þessa viðkomandi manns, er hafa átt þátt í framkomu tillögunnar, fremur en að hv. þm. Str. hafi gengið annað til. Með atkvæði mínu mun jeg sína aðstöðu mína til tillögu þessarar, sem jeg verð að furða mig á, að fram skuli koma.

Skal jeg svo láta fara fram hjá mjer tillögur einstakra þingmanna, en minnast með nokkrum orðum á till., sem jeg flyt ásamt hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) á þskj. 261 XIII, um hækkun á styrk til bátaferða. Eins og kunnugt er, hefir samgmn. ekki getað orðið sammála um upphæð styrksins, og ekki heldur um úthlutun þess litla fjár, sem úthluta þarf á þessu ári. Hv. minni hluti virðist vera aðeins 1 maður, eftir orðum hv.2.þm. N.-M. (ÁJ) að dæma, og leggur hann til, að styrkurinn til bátaferða sje 60 þús. kr. En við meirihlutamenn leggjum aftur á móti til, að hann sje 65 þús., og hefðum fegnir viljað leggja til, að hann yrði meiri, ef við hefðum sjeð okkur það fært. Má þó tæplega búast við öðru en hann verði of lítill, því að upphæðin er miðuð við, að dýrtíðin fari minkandi, en eftir öllum sólarmerkjum að dæma, þarf ekki að búast við, að svo verði í náinni framtíð. Við lítum svo á, að 75 þús. krónum, eins og var í fyrra, væri hæfilega í hóf stilt, og skal jeg viðurkenna, að glöggsýni hv. þm. Mýra. (PÞ) hefir þar reynst meira en okkar, því að nú eru ekki til úthlutunar meira en 23 þús., sem er svo lítið fje, að nefndin getur ekki komist að niðurstöðu um, hvernig hún eigi að skifta því, enda er það aðeins 23 þús. kr. meira en það, sem fastbundið hefir verið af stjórninni. Vænti jeg nú, að háttv. deild viðurkenni, að við meirihlutamenn samgmn. höfum gengið eins skamt og hægt hefir verið með því að leggja til, að veittar verði 65 þús. í þessu skyni, og samþykki því till. okkar.

Hv. 2. þm. Rang (KlJ) tók það fram í gær, að hann liti svo á, að þrjá báta bæri fyrst og fremst að styrkja, sem sje Skaftfelling, Suðurland og Djúpbátinn. Get jeg tekið undir það með hv. þm. og viðurkenni, að ekki megi eiga sjer stað að fella niður styrk til þeirra, en það eru líka fleiri bátar, sem nauðsyn er á að styrkja, og virðist honum sú þörf ekki eins ljós eins og mjer. Þó að óvíða sje eins erfitt með samgöngur og í Skaftafellssýslum, eru þó sumir staðir, sem litlu eru betur settir, og má þar sjerstaklega tilnefna innhluta Breiðafjarðar, því að þar koma aldrei skip, nema einstöku sinnum á Hvammsfjörð. Segir það sig því sjálft, að styrkur til bátaferða á þessum hluta Breiðafjarðar er alveg óhjákvæmilegur. Og má því alveg slá því föstu, að ef ekki verða styrktar samgöngur til Gilsfjarðar og austurhluta Barðastrandarsýslu, stefnir í þau vandræði, sem jeg skil ekki, hvernig viðkomandi hjeruð fá leyst. Vænti jeg því, að hæstv. stjórn hafi einhver úrræði með að styrkja bátaferðir í þessum landshluta.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að af því, sem eftir væri af bátastyrknum, mætti skoða 6 þús. kr. sem skuld við Svan frá f. á. Þessu er jeg ekki sammála, en aftur á móti mun svo um hnúta búið, að Svanur er búinn að fá upphæðina. En hinsvegar megi líta á það, að það var fyrir misskilning, að sá bátur fjekk 2 þús. kr. meira í fyrra en samgöngumálanefnd ætlaðist til, og býst jeg við, að hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sje mjer sammála um þetta. Vil jeg því skjóta því til stjórnarinnar, þar sem fjárhæð þessi varð meiri en til var ætlast, hvort ekki mætti minka þennan styrk og verja því til að styrkja bátaferðir í öðru hjeraði. Það hefir ekki legið ákveðið fyrir, hvort Svani yrði haldið úti næsta sumar eða ekki. Og verði það ekki, er óhjákvæmilegt að fá annað skip til að fara til Gilsfjarðar og Salthólmavíkur, því að annars koma menn ekki frá sjer vor- og haustvörum.

Jeg býst nú við, þó að samgöngumálanefnd hafi í tillögum sínum ekki getað gert svo öllum hv. þm. hafi líkað, þá hljóti þeir þó að sjá, að með svo litlu fje, sem hún hafði úr að spila, var ómögulegt að fullnægja hinni brýnustu þörf.

Jeg var ekki hjer staddur í gær, þegar hv. 1. þm. Árn. (MT) hjelt ræðu sína, en mjer hefir verið sagt, að hann hafi komist inn á sölu Geysishússins fræga og tekið það fram, að það hafi verið notað sem árásarefni á fyrv. fjrh. Magnús Jónsson, en þetta voru, bæði að mínu viti og margra annara þingmanna, aðeins rjettlátar aðfinslur. Hv. þm. hafði líka sagt, að þær aðfinslur hefðu borið hinn besta árangur, með því að viðkomandi ráðherra hefði farið frá á eftir. Jeg vænti því, að hann, jafnskarpvitur lögfræðingur, sjái, að hann hefir með því viðurkent rjettmæti þeirra aðfinslna. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara frekar út í ummæli háttv. þm., þar sem hann er orðinn mjer sammála.

Lýk jeg svo máli mínu, en skal aðeins taka það fram, að jeg mun ekki kasta aftur, þó einhver hv. þm. finni hjá sjer tilhneigingu til að ausa auri að mjer sjerstaklega.