03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1794)

9. mál, hjúalög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg vildi segja örfá orð út af ummælum háttv. 1. þm. Árn. (MT). Hann taldi það almenna ósk manna í sveitunum, að endurskoða hjúalöggjöfina. Það hefi jeg ekki orðið var við. Mjer vitanlega er sú ósk ekki svo almenn, að hún sje kunn meginþorra þingmanna. Jeg hefi talað um þetta við bændur hjer á þingi, og töldu þeir það óþarft. Hitt mun vera rjett hjá háttv. þm. (MT), að tveir hjúaskildagar munu ekki vera viðurkendir til sveita samkvæmt hjúatilskipuninni. En hjúaskildagi 1. okt. mun nú vera orðinn venja í kaupstöðum, og jeg tel sjálfsagt, að vistráð til sveita, sem eru bundin við þennan dag, að þau lúti ákvæðum hjúatilsk. með lögjöfnuði (analogie). Hjer er því engin breyting nauðsynleg. En hvað því viðvíkur, að vísa málinu enn til stjórnarinnar, þá tel jeg það mjög þýðingarlítið. Meirihluti nefndarinnar telur ekki þörf á breytingum á hjúatilsk. Og þá er auðvitað óþarfi að vísa því til stjórnarinnar, og býst jeg við, að meirihlutinn sje mjer samdóma um það atriði, að leggja til að dagskráin verði feld.