23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1802)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Pjetur Ottesen:

Mjer þykir ræða hv. flm. (ÁF) gefa allverulegt tilefni til, að hún sje tekin til athugunar. Það verður ekki sagt, að hún hafi verið flutt æsingalaust, heldur var þar talsverð undiralda að baki. Það var þó ekki þetta, sem kom mjer til að hefja máls, þó að rök hv. flm. (ÁF) væru þannig vaxin, að full ástæða væri til að athuga þau. Málið var flutt mjög einhliða, með bráðabirgðahagsmuni eins kaupstaðar fyrir augum, sem brýtur í bág við hagsmuni landsins í heild sinni.

Jeg skal þó ekki fara út í ræðu hv. flm. (ÁF) að þessu sinni, en aðeins benda á, að þar sem hann vitnaði í ummæli ýmissa nefndarmanna úr sjávarútvegsnefnd 1922, þá kemur það í bága við það, sem þeir sögðu þá og bókfest er í Alþingistíðindunum. Skal jeg fyrst benda á ræðu þáverandi fjrh., hv. 1. þm. Skagf. (MG), þar sem haldið er fram því gagnstæða við það, sem hv. flm. (ÁF) sagði. Ræða frsm. í Nd. styður og ekki ummæli hv. flm. (ÁF), heldur þvert á móti, og ræða frsm. í Ed. er einnig gagnstæð því, sem háttv. flm. (ÁF) hjelt fram. Sje rjett haft eftir umgetnum nefndarmönnum, hlýtur þeim að hafa snúist hugur frá því, sem var á þingi 1922. Þetta, að enginn hreyfði andmælum gegn fiskveiðalögum þá, sýnir, hversu einhuga þingið var þá um nytsemi þessara laga. Það er einnig misskilningur, að hjer sje að ræða um ný lög, heldur eru hjer skýrð og tekin upp í eina heild gömul lagaákvæði frá ýmsum tímum.

Jeg skal aðeins benda á, að allir eru sammála um það, að landbúnaður og sjávarútvegur sjeu fjöregg þessarar þjóðar. En þá hljóta allir líka að vera á einu máli um það, að það sje heilög skylda þings og stjórnar að vernda þessa atvinnuvegi, þetta fjöregg þjóðarinnar, sem best. Þetta frv. fer fram á undanþágu frá lögunum frá 1922, um rjett til fiskveiða í landhelgi, og þar sem það er vitanlegt, að þessi lög eru einhver besta vernd og trygging fyrir þetta fjöregg þjóðarinnar, tel jeg sjálfsagt, að frv. verði athugað gaumgæfilega, eins og allar tillögur, er draga úr þessari vernd og brjóta í bág við þessa stefnu. Nú skildist mjer það vera tilætlun hv. flm. (ÁF), og er það alveg í samræmi við þann mikla móð og ákafa, sem kom fram í ræðu hans, að svo verði hrapað að þessu máli, að það verði undanskilið þeirri almennu reglu að athugast í nefnd. Hann gerði að minsta kosti enga tillögu um það. Jeg fyrir mitt leyti vildi óska, að þetta frv. hefði aldrei komið fram. En þar sem það er fram komið og sú er venjan að leyfa málum að fara til nefndar, vil jeg leyfa mjer að leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn., ef það á að komast lengra.