23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1807)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer er yfirleitt illa við, að langar umræður sjeu hafðar um mál áður en það fer í nefnd. En frv. það, sem hjer liggur fyrir, er þó að ýmsu leyti svo vaxið, að jeg vil ógjarnan láta það fara lengra án þess að fylgja því með nokkrum orðum, sem jeg ætlast til að sjeu til athugunar fyrir hv. sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál til athugunar og umsagnar.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg undrast það, að frv. þessa efnis skuli vera fram komið. Ástæðan er atvinnuleysi í Hafnarfirði. Það er rjett, að atvinnuleysi er þar nokkurt, þó hygg jeg að afkoma manna þar sje yfirleitt engu lakari en viðast gerist við sjávarsíðuna bæði vestanlands og austanlands. Hvað ástandinu vestanlands viðvíkur, skal þess eins getið, að þar hefir verið óvenjulega aflalítið undanfarin þrjú ár, svo annað eins hefir ekki þekst þar síðan á árunum 1884–87, og er mjer kunnugt um það, að hlutir manna á mótorbátum í sjávarþorpunum þar hafa ekki numið meira en 800 kr. á ári, og síðastliðið ár ekki yfir 700 kr. til jafnaðar yfir alt árið. Þetta eru nú árstekjur sjómanna þar undanfarin ár, og tekjur verkafólks í landi hlutfallslegar. En samt mundi Vestfirðingum aldrei hafa komið til hugar að fara fram á undanþágur eða breytingar á fiskiveiðalöggjöf vorri til atvinnubóta um stundarsakir. Og jeg er nærri viss um, að Hafnfirðingum mundi aldrei hafa komið til hugar að fara þessa á leit, hefði atvinnuvegur þeirra verið bygður á þjóðlegum grundvelli. En aðalatvinnuvegum þeirra hefir um langan aldur verið haldið uppi af fiskiveiðum erlendra manna. Og jeg get tæplega hugsað mjer, að á meðan svo er í garðinn búið verði hægt að girða fyrir atvinnuleysið þar nema í bili. Því þó að þessi undanþága yrði veitt, er hættan alt af á, að gamla sagan endurtaki sig, sú, að útlendingarnir haldi burt strax, ef illa árar og útgerðin hættir að bera sig, og þannig geta ár og jafnvel áratugir liðið svo, að Hafnfirðingar verði atvinnulausir, þó þeir hafi undanþágur fyrir fiskiveiðar útlendinga sjer til handa. Frá mínu sjónarmiði er atvinnuvegur, rekinn af útlendingum með útlendum skipum, aldrei hollur til að byggja á, hvorki fyrir bæjarfjelag eða þjóðfjelagið, og síst heillavænlegt að draga til hans verkafólk frá hinum smærri atvinnuvegum annarsstaðar af landinu. Væri haldið langt á þeirri braut, mætti vel fara svo, að síðari villan yrði verri hinni fyrri. Á kröfum til undanþágu myndum vjer altaf eiga von, bæði þeim, sem kæmu innan frá, nefnilega frá fólki, sem væri atvinnulaust, og við þær yrðum vjer að ráða, og eins utan að, frá útlendingum, og þær gætu orðið okkur erfiðari, jafnvel svo, að við gætum ekki við þær ráðið. Og hvar stæðum vjer svo, þegar illa áraði og útlendingarnir hættu að koma, en skildu eftir bæina yfirfylta af atvinnulausu verkafólki? Hitt vitum vjer líka, að ekki eru þess fá dæmi, að smáþjóðir hafa mist sjálfstæði sitt fyrir það eitt að hafa veitt erlendum þjóðum helst til rúman atvinnurjett. Og þó sumar stórþjóðirnar takmarki hann ekki mjög mikið, einkum þegar um menn er að ræða, sem peningaráð hafa, þá gerir þeim það minna til, þegar það eru þegnar smærri þjóðar, sem minna má sín. En smáþjóðunum er það alls ekki hættulaust, að veita útlendum þjóðum, einkum stórþjóðunum, of víðtæk atvinnurjettindi, því það gefur viðkomandi stórþjóð ástæðu til að fara að gæta hagsmuna þegna sinna hjá smáþjóðinni og skerast í atvinnumál smáþjóðarinnar. Og eins og jeg tók fram, þá miðar þetta fyrirkomulag, með undanþágu á undanþágu ofan, síst til þess að gera atvinnulíf vort þjóðlegt eða heilbrigt. Og athugandi er það líka, að fæst sjávarpláss geta notið góðs af undanþágunni. Allvíðast verður útgerðin rekin aðeins með smærri skipum, mótorbátum. En sje hjer rekin togaraútgerð erlendra manna í stórum stíl, er hætt við, að smábátaútgerðin leggist niður, en það álít jeg heilbrigðast, að sem flestum landsins börnum gefist kostur á að reka sjálfstæðan atvinnurekstur þó í smáum stíl sje. Það má þó enginn skilja þessi orð mín svo, að jeg vilji amast við togaraútgerð, þar sem sjerstaklega er hægt að koma henni við og hægt er að reka hana með innlendum skipum, svo sem í Reykjavík og líklega í Hafnarfirði. En jeg er hinsvegar sannfærður um það, að öllum þorra landsmanna muni hitt reynast affarasælla, að halda við gamla útveginum og leggja þá samtímis meiri rækt við landhelgisgæsluna. Það sem jeg óttast er það, að ef vjer göngum inn á að fara að veita undanþágur frá fiskveiðalöggjöf vorri, þá geti orðið erfitt fyrir oss að stöðva oss á þeirri braut, og að vjer gætum þannig ekki til lengdar varist því að leggja niður innlenda og þjóðlega atvinnuvegi vora, sem eftir öllum staðháttum eru nauðsynlegir, og afleiðingin þá fyrr eða síðar sú, að land vort yrði erlend fiskistöð.

Jeg ætla mjer ekki að fara inn á einstök atriði frv. við þessa umræðu, en fæ væntanlega síðar tækifæri til þess. En eitt er það, sem jeg þó vildi sjerstaklega leiðrjetta hjá hv. flm. (ÁF) nú þegar, sem sje það, að þm. þeir, sem að fiskiveiðalögunum stóðu, hafi ekki vitað fyllilega, hvað þeir voru að gera, eða yfirleitt ekki hugsað lengra en að fella saman í eitt (codificera) eldri lagaákvæði um þessi efni. Jeg tel vafalaust, að þetta sje rangt, og veit að svo er að því er sjálfan mig snertir og marga fleiri. Áreiðanlega var flestum þm. það fullljóst, að mjög strangar gætur þurfti á því að hafa, að rjettur vor til fiskiveiða hjer við land væri sem best trygður, og hvað það snertir, að lögin hafi aðeins átt að ná til síldveiða, þá nær það engri átt. — Hæstv. atvrh. (KlJ) hefir nú skýrt frá því, að erlendar þjóðir hafi þegar reynt að fá undanþágu á hinni eldri fiskiveiðalöggjöf, en stjórnin staðið á móti því, og er vonandi að svo verði áfram.

Það mun rjett vera, sem hv. flm. (ÁF) skýrði frá, að eigi væru nægir peningar fyrir hendi í Hafnarfirði til að koma af stað þeim atvinnubótum, sem með þyrfti. En jeg held þó, að ef Hafnfirðingar hefðu hugsað fyrr um þetta atvinnuástand þar, þá hefðu þeir getað að mjög miklu leyti bætt hagi sína í þessu efni. Í því sambandi minnist jeg þess, að ýmsir góðir mótorbátar hafa verið seldir hjer frá Suðurlandi til Norðurlands, til þess að stunda á þeim fiskveiðar aðeins um sumartímann. Jeg held að hyggilegra hefði verið að festa þá hjer, því slíkir bátar veita æðimörgum atvinnu hjer við Faxaflóa. Og það er leitt til þess að vita, að skip, sem aflað hafa vel og veitt hafa fjölda manns góða atvinnu á vetrarvertíðinni, hverfi hjeðan, til þess að verða aðeins notuð um hásumarið; slíkt er ekki búhnykkur fyrir atvinnulíf þjóðarinnar. Þetta er engin ásökun til Hafnfirðinga, en það gefur bendingu um það, hvernig fer, þegar menn til lengdar hafa vanist því að kasta áhyggjum sínum á erlent fje og erlendan skipastól og hætta að hugsa um að koma upp innlendum atvinnuvegum. Háttv. flm. (ÁF) gat þess, að bankarnir hefðu ekki sjeð sjer fært að leggja fje til kaupa á togurum handa Hafnfirðingum. Hvað Landsbankann snertir þá get jeg ímyndað mjer, að ástæðan hafi verið sú, að hann var á síðasta hausti að leita fyrir sjer um lántöku erlendis. En nú mun það lán fengið. Mjer þætti því ekki ósennilegt, að hann væri nú fús til þess að hlaupa undir bagga með kaup á einum eða tveimur botnvörpungum, því fremur sem hann á stóra og dýra fiskveiðastöð í Hafnarfirði. Í Hafnarfirði mun nú vera lagt upp af 4 botnvörpungum, og ef 2 bættust við, þá mætti fullyrða, að atvinna væri þar meiri en í flestum bæjum landsins, því ætlað er, að um 300 eða jafnvel 400 manns lifi á hverjum togara hjer í Reykjavík. Að þessu vil jeg styðja, jafnvel með ábyrgð ríkissjóðs, ef skynsamlega er til kaupanna og útgerðarinnar stofnað. En jeg get ekki verið með í því að veita þeim þessa undanþágu, sem er ekki nema vafasamur stundarhagnaður fyrir bæjarfjelagið, en til stórskaða fyrir alla landsmenn og stórhættulegt sjálfstæðu atvinnulífi landsmanna, bæði á því sviði, sem jeg nú hefi frá skýrt, og þá ekki síður að því er snertir fiskimarkað okkar erlendis. En um það ætla jeg ekki að fjölyrða nú við þessa umræðu.

Svo vil jeg að lokum gera örstutta fyrirspurn til hæstvirtrar stjórnar. Mjer hefir nefnilega verið tjáð, að ráðuneytið hafi þegar veitt undanþágu fyrir 6 erlenda leigutogara til fiskiveiða frá Hafnarfirði. Jeg hefi aðeins sögusögn annara um þetta og vildi gjarnan vita, hvað hæft væri í því.