23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1810)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Gagnvart háttv. flm. þessa frv. verð jeg að halda því fram, að lögin frá 1922 hafi verið „praktiseruð“, að því er snertir þorskveiðar, alveg eins nú og jafnan hefir verið áður. þetta getur stjórnarráðið auðveldlega sannað skjallega. Mál þetta hefir oft komið þar fyrir og verið ítarlega rannsakað. Um 1904, þegar er vjer höfðum fengið vora fyrstu innlendu stjórn, kom málaleitun til stjórnarinnar, sem gaf tilefni til þess að þetta mál var ítarlega rannsakað. Það gerði þáverandi skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins, Jón Magnússon. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að útlendingum væri alveg óheimilt eftir gildandi lögum að reka hjeðan fiskiveiðar. Þessu áliti var jeg alveg sammála, og þessu hefir verið haldið fram af stjórninni alt til 1917, að því er jeg veit til, og jeg hygg einnig síðar. Þetta er, eins og jeg sagði, hægt að sýna með skjölum. Hitt er annað mál, að það getur verið, að það hafi liðist á stöku stað, að erlendur maður ræki hjer þessa atvinnu; en um það er mjer þó ókunnugt. Ef svo hefir verið einhversstaðar, var það verk sýslumanns eða bæjarfógeta að taka þar í taumana og tilkynna stjórnarráðinu, ef hann var í vafa í einhverju atriði. Jeg hefi eigi orðið var við, að bæjarfógeti Hafnarfjarðar hafi gert neinn málarekstur viðvíkjandi Bookless. Jeg hefi ávalt skoðað starfsemi hans hjer á landi nokkuð svipaða og þá, sem Mr. Ward rak hjer fyrir nokkru, nefnilega fiskikaup, en ekki að hann væri hjer heimilisfastur eða ræki hjer beinlínis útgerð.

Háttv. þm. N.-Ísf. spurði, hvort það væri satt, að undanþága hefði verið veitt fyrir 6 togara frá Hafnarfirði. Því skal jeg stuttlega svara með einu nei-i. Jeg hefi enga undanþágu veitt, hvorki einum nje fleiri. En jeg hefi lýst því sem minni eigin skoðun, að innlendum mönnum væri heimilt að taka erlend skip á leigu til fiskiveiða. Það kom fram fyrirspurn um þetta atriði áður en Hafnfirðingar fóru fram á að fá undanþágu undan lögunum, og þessu svaraði jeg þá. Þetta er aðeins minn skilningur á lögunum, en raunar heyrir málið undir dómstólana. Jeg get gefið skýrslu um það hvenær sem er, á hverju jeg byggi þennan skilning minn á lögunum, en jeg tel rjettara að geyma það til 2. umr. þessa máls.