27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1818)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vænti, að eigi þurfi mjög langar umræður um þetta mál úr þessu. Því jeg hygg, að hv. þm. hafi þegar fengið staðfesting á ummælum mínum um, hver hætta stafar af því, ef þessi undanþága verður veitt, einmitt frá þeim mönnum, sem besta hafa þekkingu á þessu máli og öðrum utanríkismálum. Álit þessara manna er, að við munum ekki einráðir um, hvar staðar verður numið á undanþágubrautinni, ef þetta frv. er samþykt. Þetta vona jeg að hv. þdm. athugi. Það er víst, að ef útlendingum er veitt undanþága líkt og hjer er farið fram á, og sem þá er ekki hægt að neita öðrum þjóðum með bestu kjörum um, þá safnast hingað á næstu árum tugir erlendra togara, sem vilja reyna, hvort ekki sje hjer arðvænlegra til atvinnurekstrar en heima fyrir, því kunnugt er, að mesti fjöldi togara, einkum í Englandi, eru nú ekki gerðir út, af því útgerðin hefir borið sig svo illa síðustu ár.

Okkur, háttv. flm. og mjer, kom saman um það, að þessi atvinnugrein gæti eigi orðið til frambúðar og væri enda óholl báðum aðalatvinnuvegum landsins, — landbúnaðinum og sjávarútveginum. Jeg hygg, að allir hv. þdm. sjái, að það mun eigi holt atvinnuvegum vorum, að fólk safnist í þúsundatali til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fram yfir það, sem orðið er. Það mundi hafa hinar verstu afleiðingar. Við skulum athuga þau áhrif, sem þetta mundi hafa t. d. á sjávarútveginn utan Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Jeg vona, að allir geti verið mjer sammála um það, að svo stórkostlega aukin framleiðsla á saltfiski, sem 15–20 erlendir togarar fiskuðu, hlyti að lækka verð á fiskiafurðum vorum. Það mun og öllum kunnugt, að fiskverðið hefir farið hækkandi nú undanfarið og ástæðurnar til þess hafa verið þessar:

1) Að talsvert minna hefir borist að á aðalmarkaðinn fyrir ísl. fisk á Spáni og Ítalíu, vegna aflaleysis við Newfoundland. Samkv. innflutningsskýrslum er talið, að til Spánar hafi flust á síðasta ári 3000 smál. minna af Newfoundlandsfiski en árin á undan. Vjer höfum fengið víðtækari markaði en áður, bæði af því, að minna barst að af fiski frá öðrum löndum, svo og af því, að fiskverðið lækkaði svo afskaplega á síðasta ári. Á þessu sama ári höfum við selt fullverkaðan saltfisk sama verði í enskri mynt og árin 1913–14. Þetta hefir orðið til þess, að miklu fleiri hafa keypt íslenskan fisk en áður.

2) Í öðru lagi er ástæðan fyrir hækkuninni á fiskverðinu undanfarið sú, að erlendir kaupendur hafa lagt óvenjumikla áherslu á að afla meiri markaðs fyrir íslenskan fisk, bæði á Spáni og á Ítalíu. Þessir erlendu fiskkaupmenn hafa legið með afarmiklar birgðir af íslenskum fiski alt síðan 1920 og hafa tapað svo miljónum skiftir á því. Ber þeim því brýn nauðsyn til að auka markaðinn fyrir íslenskan fisk sem mest. Jeg býst við því, að við höldum einhverjum af þessum aukna markaði, sem við höfum fengið á síðasta ári, en hitt er jafnvíst, að það, sem unnist hefir á í þessu, vegna minkandi framboðs annara þjóða og óeðlilegrar verðlækkunar, tapast aftur, og þá þolir okkar markaður ekki stóraukna framleiðslu á íslenskum fiski, og afleiðingin verður mikið verðfall frá því, sem nú er. Af þessu leiðir, að ef vjer aukum fiskframleiðsluna um sem svarar 5–7 þús. tonnum, lendum vjer við sama skerið, markaðsvöntun, og við vitum, að það gæti orðið sá hnekkir fyrir þennan atvinnuveg, að það gerði meira en vega á móti þeirri atvinnu, sem við fengjum hjá erlendum útgerðarmönnum hjer á landi nú í svip.

Jeg skal að vísu játa, að gott væri, ef við gætum notið þessarar atvinnu, ef við þyrftum lítið að gefa fyrir hana, en svo dýru verði er hún ekki kaupandi. Það er og víst, að fiskverðið má engu lægra vera en nú er, ef reksturinn á að borga sig. Því þess verður að gæta, að kol, salt og fleira, sem til rekstrarins þarf, kostar nú um helmingi meira að sterlingspundatali heldur en fyrir stríðið. Jeg er yfirleitt sannfærður um, að við græðum ekki á því að framleiða stórum meira af saltfiski en nú gerum við; þó tel jeg, að aukning um 2–3 þúsund tonn lækkaði verðið ekki að mun frá því, sem nú er, en 5–7 þúsund tonn hefðu stórkostleg áhrif til lækkunar.

Hv. frsm. (ÁF) sagði, að útlendingar hefðu augsýnilega ekki hugsað sjer að nota þau hlunnindi á þessu sviði, sem þeim voru heimiluð til 1922, að mega hafa fiskistöðvar í landinu. En jeg býst nú við, að honum og öðrum hv. þm. sje kunnugt um það, að til skamms tíma var þessi atvinnuvegur þeirra rekinn alt öðruvísi en nú er. Þá stunduðu útlendingar hjer línu- og handfæraveiðar, í stað þess sem botnvörpuveiðar eru nú því nær eina veiðiaðferðin hjá þeim. Mjer er kunnugt um það, að Englendingar vildu gjarnan á síðastliðnum vetri selja fisk hjer við land. Voru sumir kaupmenn svo skammsýnir, að þeir reru að þessu öllum árum. Hefi jeg sjálfur átt tal við tvo útlendinga, sem vildu gjarnan selja afla sinn hjer talsvert lægra verði en landsmenn gerðu, enda er þeim, það hægðarleikur aðstöðu sinnar vegna.

Háttv. frsm. ljet það á sjer heyra, að Englendingar myndu, ef þeir vildu, hafa ráð á því að fá framgengt vilja sínum í þessum efnum. Jeg vil aftur á móti fullyrða, að Englendingar muni aldrei reyna að fara þá leið. Tel jeg það mjög ámælisvert að hafa slík ummæli í þessum sal, og mun lítill hagnaður að því, að útlendingar heyri eða sjái slík ummæli frá löggjafarþingi þjóðarinnar.

Hv. frsm. kvaðst í lok ræðu sinnar vonast eftir því, að hjer yrði ekki farið að koma með nýja landvarnarstefnu eða innilokunarstefnu í þessu máli. Vilji hann kalla það því nafni, þá ætla jeg að lýsa því yfir, að jeg að minsta kosti er fylgjandi þeirri landvarnarstefnu.

Jeg held, að háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hafi gert heldur mikið úr yfirvofandi hallæri. Við, sem eldri erum, munum vel eftir, að oft hafa komið aflaleysisár án þess hallæri yrði. Minnist jeg sjerstaklega áranna 1883–87. Þau ár var því nær aflalaust á öllum Vestfjörðum, einkum þó innfjarða. Á þeim árum krepti auðvitað talsvert að landsmönnum, en þó ekki svo, að hallæri yrði af. Fjöldi fólks flutti á þeim árum frá sjónum upp til sveitanna og nokkrir fóru til Vesturheims. Hinar illu afleiðingar þessara ára voru horfnar 1894. Það var annars undarlegt, að þessi háttv. þm. (ÁÁ) kvartaði undan því, að undanþágan væri ekki nógu víðtæk, og þó þótti honum hún í öðru of víðtæk. Var ekki allskostar gott að henda reiður á, hvað háttv. þm. vildi leggja til þessa máls; brestur hann sennilega þekkingu á því, þó viljinn sje góður. En það vil jeg segja honum, að ef hann vill líta til kjördæmis síns, þá hefir það engan hag af því, að undanþágan sje víðtækari, því þó einhverjir hefðu hag af því, að leigutogarar væru reknir í kjördæminu, þá myndi smábátaútvegur hjeraðsbúa verða fyrir meiri hnekki en sem næmi gróða hinna einstaklinganna. Þá mátti skilja ummæli háttv. þm. svo, sem hann vildi gefa útlendingum leyfi til afnota landhelginnar. Hann komst að þessari niðurstöðu út af þessu „yfirvofandi hallæri“. Þeir, sem ekki vita það, að misbrestur er ávalt í atvinnuvegunum, aflaleysi, grasbrestur eða óhagstæð veðrátta, því nær árlega í einhverjum hjeruðum landsins, þeir, og þeir einir, geta talað um hallæri í Hafnarfirði. Jeg vil ráða hv. þm. (ÁÁ) til að kynnast afkomu manna í Vestur-Ísafjarðarsýslu og víðar á Vesturlandi.

Læt jeg svo útrætt um þetta mál af minni hálfu, enda vænti jeg þess, að hv. deild skeri úr því á einn veg.