27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Jón Baldvinsson:

Jeg þarf ekki að beiðast afsökunar á því, að jeg stend nú upp, því flestir hinir nefndarmennirnir eru nú búnir að tala. Virðist helst svo, að hver og einn þeirra hafi sjerstöðu í málinu.

Jeg vil að þetta mál gangi sem fljótast í gegn. Þó er jeg ekki samþykkur orðalagi frv., því jeg vildi, að undanþágan væri almenn. En vel er hægt ennþá að koma að brtt. og fá því kipt í lag.

Jeg verð að líta svo á, að andmæli þau, sem fram hafa komið í þessu máli, sjeu afarlítils virði. Er og hægt að heyra af orðum andmælenda, að þeim er fjarri því ljóst, hvar þeir standa. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) kveður ekki fært að auka fiskiframleiðsluna hjer, sökum þess, að þá muni fiskur falla í verði. Aftur vilja aðrir af háttv. andmælendum frv. ráða bót á atvinnuleysinu með því að útvega nýja togara, sem innlendir menn eigi. Þeir virðast því ekki vera allskostar á sama máli um þetta efni. Það virðist þó svo, að sama hættan yrði fyrir hendi hvað snertir aukna fiskframleiðslu og verðfallið, hvort sem togararnir, sem við væri bætt, væru eign Íslendinga eða eigi. Það er því greinilegt, að ástæður hv. andmælenda frv. eru hjer hver upp á móti annari.

Annars vil jeg leyfa mjer að halda því fram, að ef verð fiskjarins stendur svo glögt, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) lætur í veðri vaka, þá væri eftir því rjettast að fara að setja reglur um það, hve mikið hver togari mætti veiða af fiski.

Það vantar ekki, að nógu fallega sje um það talað, hve sjálfsagt það sje að bæta úr vandræðaástandinu, sem er á þessum stað, sem frv. vill bæta úr fyrir. En hver ráð eigi að hafa til þess önnur en þau, sem í frv. er farið fram á, um það er vandlega þagað. Þótt jeg sje ekki kunnugur Hafnarfirði, þá er mjer kunnugt um það, að ástandið þar er miklu verra en látið hefir verið í ljós hjer. Þar hefir verið svo mikið atvinnuleysi síðastliðin 2 ár, að sennilega hefir hvergi verið verra á þessu landi í því efni. Menn safnast í hrönnum á sveitarsjóðinn og hann er nú að þrotum kominn. Það er, ef þessu heldur áfram, aðeins tímaspursmál, hvenær bærinn er neyddur til að leita til ríkissjóðs. Og þá verður ríkissjóðurinn auðvitað að hirða alt saman, því sú verður óhjákvæmilega afleiðingin, ef ekki verður úr þessu bætt.

Það er nú víst, að bankarnir hjer hafa margsagt það, að þeir hafi ekki fje til nýrra skipakaupa. Eiga þeir fult í fangi með að halda við þeirri útgerð, sem fyrir er. Þótt nú útgerðarmenn og ríkisstjórn gætu knúð þá til að leggja fram fje til eins togara, þá er ekki úr miklu bætt með því. Það eina, sem nú hjálpar, er, ef hægt er að fá erlent fje í þessi fyrirtæki. Jeg geri lítið úr þessari ástæðu, sem virðist svo rík hjá hv. þm., að þetta muni hafa slík áhrif á markaðsverðið, og einkum verður hún veigalaus í munni þeirra, sem eru þess engu að síður fýsandi, að bæta við íslenskum skipum.

Það duga engin hálf svör um að bjarga þessu einhvern veginn, því að úr þessari neyð verður áreiðanlega ekki bætt, nema með því að grípa nú þegar til þeirra ráða, sem duga. Jeg hefi ekki heyrt um neitt, sem gefi ástæðu til þess að vænta, að úr atvinnuleysinu rakni. Einu bjargráðin, sem nú eru fyrir hendi, væri að ná í erlend skip, sem rækju veiðar hjeðan, ef það gæti tekist. Önnur leið væri hugsanleg, ef innlendir menn gætu útvegað svo marga togara, að það nægði til atvinnubóta. En svo sem alkunnugt er, treysta bankarnir sjer ekki til að leggja fram fje til þessa.

Mjer er kunnugt um, að það hefir komið til orða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, að bæjarfjelagið keypti eða leigði skip. Þetta væri auðvitað besta ráðið og hið eina til frambúðar. Ef jeg fengi skýlaus loforð frá hæstv. stjórn og mikilsmegandi mönnum í hinum nýstofnaða Íhaldsflokki, að þeir vildu veita allan sinn styrk og áhrif til þess að útvega svo mörg skip, að það bætti úr atvinnuleysinu, skyldi jeg með ánægju falla frá að samþykkja þetta frv. En hjer hefir ekkert komið fram, sem gefur ástæðu til að ætla, að nokkuð eigi að gera til þess að bæta úr vandræðunum, einungis fella þessi bjargráð.

Jeg skil það vel, að ýmsir hinna stærri útgerðarmanna sjeu á móti þessu. Þeir muni telja sig geta betur bjargast af með sín stórskuldugu atvinnutæki, ef útlend skip fá ekki að hafa bækistöð hjer í landi. En hinu verð jeg að mótmæla, að vilji allra þeirra, sem sjávarútveg stunda, sje þessu mótsnúinn. Jeg veit með vissu, að mikill fjöldi íslenskra sjómanna mundi telja það mikið happ, ef þeir gætu komist á erlend skip. Þegar mikill hluti þeirra gengur atvinnulaus mestan hluta ársins, er það augljóst, að skipunum þarf að fjölga. Það er því ekki nema um tvent að velja. Annaðhvort samþykkja að leyfa undanþágu fyrir ákveðna tölu erlendra skipa, og vissa er fyrir því, að skipin munu koma, eða ef hæstv. stjórn vildi stuðla að því af alefli að útvega t. d. bæjarstjórn Hafnarfjarðar fje til svo margra skipa, að það nægði til þess að bæta úr atvinnuleysinu.