06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1828)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Hv. 4. landsk. (JM) mælti á móti þessu frv. og kvaðst mundi greiða atkvæði á móti því, að því yrði vísað til nefndar, og vildi að það yrði tekið út af dagskrá. Jeg vil aðallega víkja að þeirri undarlegu viðkvæmni, er kom í ljós hjá honum í sambandi við þetta mál. Jeg fann það nú, eins og jeg raunar bjóst við, að sumum er það mjög viðkvæmt, að byrjun þessa máls sje rakin, nefnilega það, hvernig í raun og veru stóð á því, að Bjarni Jónsson frá Vogi var rekinn frá mentaskólanum.

Þeir, sem óljúft er að rifja upp gamlar endurminningar, vilja ekki fara lengra út í það en að segja, að hann hafi verið sviftur embætti sökum þess, að hann hafi eigi verið reglumaður um vín. En það vita hinsvegar allir, að eigi voru bornar neinar brigður á það, að hann væri vel hæfur kennari, og meira að segja mun það hafa verið alment álitið af nemendum hans, að hann væri besti kennarinn við skólann. En nú vill svo til, að hann var algerlega á annari skoðun í landsmálum en sú stjórn, sem þá sat við völd. Það virðist því dálítið grunsamlegt, að sú stjórn skyldi svifta hann embætti, þótt hann væri eigi reglumaður á vín, einkum þegar þess er gætt, að það hefir eigi verið venja hjer að setja embættismenn af, þótt þeir væri brotlegir í þeim efnum. Því jeg veit ekki betur en að hjer hafi verið fordruknir prestar, læknar og jafnvel dómarar, og hafa þó fengið að sitja í friði í embættum sínum. Jeg þekki líka ekkert annað dæmi um röggsemi stjórnarvalda hjer gagnvart drykkfeldum embættismönnum en þetta eina, þá er þáverandi stjórn vjek andstæðingi sínum, Bjarna Jónssyni frá Vogi, frá embætti hans við mentaskólann. Og þetta virðist sjerstaklega undarlegt, þegar þess er gætt, að saman fóru dugnaður og vinsældir þessa kennara, en hinsvegar hafa ljelegir embættismenn verið látnir sitja, þótt drykkfeldir væru. Og stjórn, sem eigi hefði viljað láta koma til greina pólitíska afstöðu manna, hefði varla gert þetta, því hefði hún viljað taka einn, þá átti að taka alla.

Ef á að reka þá, sem nota vín, en standa þó ágætlega í stöðu sinni að öðru leyti, þá á auðvitað því fremur að reka þá, sem drekka og eru þar að auki óhæfir embættismenn.

Mjer finst að vísu eðlilegt, að það komi óþægilega við hv. 4. landsk., að leitt sje í ljós, að það hafi verið af pólitískum ástæðum, sem B. J. var vísað frá mentaskólanum, þar eð hann var stuðningsmaður þeirrar stjórnar, sem þá sat að völdum, og líklega mikið við þetta mál riðinn sem skrifstofustjóri í stjórnarráðinu.

Það er því eðlilegt, að honum finnist það koma óþægilega við sig, enda ómögulegt fyrir hann að færa fram neinar varnir gegn því, nema því aðeins, að hann gæti sýnt fram á, að sama hafi verið fylgt gagnvart öðrum, en svo hefir aldrei verið.

Grískudócentsembættið var því síðar stofnað, til þess að bæta B. J. þetta upp, án þess nokkur þörf væri á því embætti, enda hefir þinginu verið mjög hallmælt fyrir stofnun þess.

Því hefir að vísu verið haldið fram, að háskólinn hafi óskað eftir þessu embætti. Mjer er nú ekki vel kunnugt um, hvernig það hefir verið, en þó er það svo, að þegar minst er á við prófessora háskólans, að óþörf embætti sjeu þar, svo sem grískudócentinn og prófessorsembættið í hagnýtri sálarfræði, þá segja þeir sem svo: Já, þetta er það, sem þingið hefir gefið okkur. Við höfum ekki óskað eftir þessu. Þeir hafa því ekki sóst eftir þessu, þó að máske eitthvert meinlaust vottorð hafi verið gefið, máske pantað vottorð. Enda vita allir, að hægt hefði verið fyrir guðfræðisprófessorana að kenna grískuna.

Þá er því haldið fram, að þetta sje stjórnarskrárbrot. Það er altaf þetta sama; það hefir verið svo á þessu landi síðasta mannsaldurinn, að hafi eitthvað átt að gera nýtilegt til embættasparnaðar, þá hefir það altaf verið talið stjórnarskrárbrot. Menn hafa gengið með stjórnarskrána í lúkunum eins og einhvern brothættan hlut, sem varla væri þorandi að snerta á.

En ef vjer nú gætum betur að, munu vera mörg stjórnarskrárbrotin, og það þau, sem menn láta sjer vel líka. Það er t. d. vafalaust stjórnarskrárbrot, að hafa ekki nema 2 ráðherra, því eftir orðum stjórnarskrárinnar mega þeir ekki vera færri en 3. En háttv. 4. landsk. þm. hefir ekkert sagt við því, enda verið besta samkomulag um að hafa það svo.

En af hverju hafa menn þolað þetta? Af því að það hefir þótt gott og sparnaður.

Jeg álít því, að það sje hreinn og beinn barnaskapur að koma með slíka mótbáru, og jeg veit líka, að háttv. þm. meinar ekki þetta. Háttv. þm. veit vel, að það rifnar hvorki himinn nje jörð, þótt þetta væri gert. Aðalatriðið er, að þessi breyting virðist mjög heppileg, því með þessu móti er þó dálítið sparað, en embættismaður sá, sem um er að ræða, fær atvinnu eftir sem áður. Og mjer finst þingið hafa fult vald til þessa. Þingið getur bæði leyst og bundið. Það getur bæði afnumið embætti, sem það einusinni hefir stofnað, og það á líka að geta ákveðið, að tilteknum manni skuli veitt embætti.

Annars vil jeg biðja þá, sem vilja að málið sje tekið út af dagskrá, að gæta þess, að frv. þetta er í alt öðru formi en frv. það, sem liggur fyrir Nd. Er í raun og veru alt annað. Þetta frv. er fyr fram komið en frv. það, sem liggur fyrir Nd., og á því að ganga fyrir. Enda er þessi deild ekki nein undirdeild Nd., heldur eiga þær að starfa hliðstætt, og málið má því jafnt ganga fram í þessari deild og Nd. Jeg get því alls ekki orðið við tilmælum háttv. þm. um að taka málið út af dagskrá.

Þá er næst það atriði, að vísa málinu til nefndar. Mjer finst vel mega vísa málinu til nefndar, þótt svipað frv. sje í nefnd í Nd. Mjer finst einmitt, að það gæti verið mjög heppilegt, að nefndirnar störfuðu jafnhliða að málinu. Það er því alls ekki af umhyggju fyrir málinu, að hv. þm. (JM) vill ekki vísa því til nefndar, því að hann mun helst vilja að það falli eða verði svæft, líklega af því, að með þessu móti má spara nokkur þúsund krónur.

Ætli mótstaðan og hótanirnar um að fella málið geti ekki hinsvegar stafað af því, að það sje með því verið að ýfa upp gamalt sár, 20 ára gamalt sár, þegar talað er um að flytja B. J. frá Vogi aftur að mentaskólanum.

En það er betra, að þingið skipi svo fyrir, að maðurinn skuli fá embætti við mentaskólann, heldur en ef stjórninni væri aðeins veitt heimild til þess.

Það gæti vitanlega verið heppilegt fyrir stjórnina að hafa einn þm. þannig í hengingaról, að geta hótað honum að kasta honum út á gaddinn, ef hann væri ekki algerlega að hennar vilja. Einkum gæti slíkt verið hentugt fyrir minnihlutastjórn, sem væri að útvega sjer síðasta atkvæðið, að hafa þannig tangarhald á einum þingmanni.

Annars er það einkennilegt, að þeir þingmenn, sem vilja ganga það langt í sparnaði, að þeir vilja hætta að láta prenta Þingtíðindin, skuli vilja drepa þetta fyrsta sparnaðarmál, sem kemur fram í deildinni.

En ætli það sje af eintómum sparnaði, sem þessir hv. þm. vilja láta hætta að prenta Þingtíðindin. Skyldi það ekki líka vera það, að þeir vilja fela gerðir þingsins, og jeg mundi vart trúa því, að svo væri, ef ekki hefði meirihluti deildarmanna skjallega sannað það að svo væri.

Ef þeim væri svo mikið áhugamál að spara, þá ættu t. d. tveir af þeim hv. þm., sem flytja frv. um að prenta ekki þingtíðindin, heldur að gefa sínu fátæka landi, annar 8 þús. og hinn 6 þús. kr., með dýrtíðaruppbót, sem þeir hafa í eftirlaun. Einkum þegar þess er gætt, að það er alkunnugt, að þessir menn eru með efnuðustu mönnum þessa bæjar.

Það virðist því vera nær að spara þar, heldur en hætta að prenta Þingtíðindin, sem við höfum þó alt af gert, þrátt fyrir alla okkar fátækt, alt frá árinu 1845. Og það er undarlegt, að þykjast vilja spara, en vilja þó fella frv., sem gengur út á að spara 7000 kr. á ári strax.

En það er ekki af því þeir vilji spara, sem þeir vilja láta hætta að prenta Þingtíðindin heldur er það af því, að þegar þm. hafa vonda samvisku, þá er gott að fela verk sín fyrir augum kjósenda. Sparnaðurinn er því aðeins vesöl yfirskinsástæða. (Forseti HSteins: Þetta mál er ekki á dagskrá núna, en það kemur til umræðu hjer í deildinni, og það er nógur tíminn þá að ræða um það). Jeg veit það, en jeg vil benda mönnum á, hve fráleitt það er að vilja hætta að prenta Þingtíðindin og kæfa með því rödd þingsins, en vilja hindra, að unt sje að leggja niður alóþarft embætti og spara með því 7000 krónur á ári.