06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1833)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jóhann Jósefsson:

Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer inn í deilur mannamáli þessu, en vildi aðeins leyfa mjer að bæta við tilmælum frá mjer til hv. flm. (JJ) um það, að hann taki málið út af dagskrá að sinni. Skal jeg með nokkrum orðum skýra ástæðurnar fyrir þessum tilmælum mínum.

Mjer væri það mjög kært, að embættaskipun þessa lands væri færð í það horf, að við það sparaðist fje, en þó því aðeins, að eigi væri brotin lög á mönnum þeim, sem hlut eiga að máli. Jeg fyrir mitt leyti hefi eigi tilhneigingu til þess að nota vald þingsins til þess að brjóta rjett á mönnum. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þeim flokki, sem að landsstjórninni stendur, hefði átt að vera það innanhandar að fá stjórnina til að koma með undirbúnar tillögur til sparnaðar að því er þetta embætti og fleiri af líku tæi snertir. Það væri ólíkt heppilegra heldur en að demba þessum tillögum óundirbúnum inn á þingið, og eyða svo fleiri dögum til gagnslausra umræðna um málið. Álít jeg því hyggilegast, eins og nú er komið málum, að láta landsstjórnina gera samning við þá menn, sem hlut eiga að máli, en eyða ekki tíma þingsins í að þrátta um þessi mál. Nú hefir komið fram í hv. Nd. frv., sem gengur í sömu átt og frv. það, sem hjer liggur fyrir, og mun það vera gengið til nefndar þar. Vona jeg, að nefnd sú finni sæmilega lausn á málinu, og sje því eigi nauðsyn á að ræða það hjer nú. Getur það aðeins orðið til þess að tefja málið.

Jeg vona, að hv. 5. landsk. (JJ) sjái sjer fært, þar sem þrír aðrir hv. deildarmenn hafa óskað þess, að taka málið út af dagskrá að svo stöddu.